2007-01-22

Áfram Ísland!

Ísland sigraði Evrópumeistaralið Frakka í kvöld með átta marka mun (32:24) eftir að hafa verið yfir allan tímann og m.a. komist í 5:0 og liðið náði mest 11 marka forskoti í leiknum. Ísland leiddi með tíu marka mun í hálfleik. Þetta er besti leikur íslensks handboltaliðs frá upphafi vega. Það getur ekki verið nein spurning.

Eftir arfaslakan leik við Úkraínumenn á sunnudaginn var margur maðurinn niðurdreginn og bjóst við hinu versta. Því var fögnuðurinn yfir leik liðsins í kvöld dýpri og kröftugri. Ég ætlaði lengi vel ekki að trúa eigin augum og kveið fyrir seinni hálfleiknum. Það reyndist ástæðulaust. Frakkar komu að vísu ákveðnir til leiks þá, en okkar menn voru bara enn ákveðnari og juku muninn!

Það gekk eiginlega allt upp hjá íslenska liðinu: vörnin hörkugóð, markvarslan frábær og sóknarleikurinn beittur og skilaði hverju markinu á fætur öðru. Frakkar spiluðu vel; þeir eru með frábært lið. Íslendingar spiluðu bara betur og höfðu hjartað á réttum stað. Einbeitnin og baráttuviljinn geislaði af liðinu.

Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland! Ég er að rifna úr stolti og þakka fyrir mig.

2006-12-21

Erindisleysa Ísafoldar

Reynir Traustason sendi blaðakonu inn á vistheimilið Grund undir fölsku flaggi og birti síðan grein blaðakonunnar í tímariti sínu Ísafold. Skemmst er frá því að segja að uppátækið vakti að vonum hörð viðbrögð stjórnenda Grundar. Reynir varði ritsmíðina og aðferðafræðina með nokkrum þjósti og talaði m.a. um að almenningur ætti rétt á að vita hvernig væri að gamla fólkinu á Grund búið. Þessi lumma er kunnugleg (man einhver eftir tveimur ritstjórum DV sem lummulegir þurftu að taka pokann sinn?) og í rauninni bull. Ónákvæmar og rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Á vef Morgunblaðsins er greint frá athugun Landlæknisembættisins á aðstæðum vistmanna á Grund og sjónum beint að nokkrum atriðum sem sérstaklega voru gagnrýnd í umfjöllun Ísafoldar. Skemmst er frá því að segja að næsta fá ef nokkur af sannleikskornum Ísafoldargreinarinnar standa eftir óhrakin. Frásögnin af beinbroti gömlu konunnar er „augljóslega röng“, fullyrðingar um skort á hreinlæti og að vistmenn „gangi um í slitnum og skítugum fötum“ eru rangar og hjal um erfiðleika í samskiptum við starfsmenn af erlendu bergi brotna á ekki við rök að styðjast.

Landlæknisembættið kannaði skrifleg gögn, kom í fyrirvaralausar heimsóknir á Grund og ræddi við starfsmenn, vistmenn og einn aðstandanda. Eina athugasemd embættisins var ábending um að starfsmenn væru látnir undirrita trúnaðaryfirlýsingu áður en þeir væru ráðnir.

Reynir Traustason er ágætur og vel meinandi blaðamaður, en í þessu máli lenti hann á villigötum. Vonandi lærir hann af því að seilast ekki aftur í vafasamar aðferðir sorpblaðamennskunnar. Hann þarf ekkert á því að halda.

 

2006-12-13

Fúl smjörklípa

Björn Ingi Hrafnsson átti verulega erfitt í Kastljósi kvöldsins. Hann gat með engu móti rætt efnislega um afar hæpnar ráðningar á ýmsum Framsóknarmönnum í verkefni tengdum Reykjavíkurborg í skjóli hans sjálfs að undanförnu. Þess í stað reyndi hann alls kyns undanbrögð. Hvernig varst þú ráðinn Helgi? Hvernig var þetta hjá R-listanum? Þetta á ekkert skylt við efnislega umræðu, eða verða óhæfuverk Framsóknarflokksins réttmæt ef einhver annar hefur gert svipaða hluti?

Björn Ingi sýndi nú sitt rétta andlit. Á bak við smælið og vatnsgreiðsluna glitti í kaldrifjaðan framapotara og tækifærissinna sem vílar ekki fyrir sér að beita dónaskap, útúrsnúningum, orðhengilshætti og smjörklípuaðferð til að fela málefnafátæktina og getuleysið til að ræða hæpnar aðgerðir sínar efnislega. Ítrekað greip hann fram í fyrir Degi til að trufla málflutning hans, af því að hann gat ekki mætt honum með efnislegum rökum. Hvílík eymd!

En einn maður var ánægður með frammistöðu Björns Inga, nefnilega Björn Bjarnason enda er þetta orðræða í hans anda. Sá lét nú ekki lögin þvælast fyrir sér þegar hann stóð í ráðningum í Hæstarétt (sjá einnig hér). Með vísun til almennrar málvenju má segja að Birni Inga hafi því tekist að skemmta skrattanum. Þeir sem hafa áhuga á efnislegri umræðu og leiðast pólitísk fíflalæti hafa ekki skemmt sér að sama skapi.

Ég spái því að pólitískt líf Björns Inga nái til loka kjörtímabils hans sem borgarfulltrúa Framsóknar í Reykjavík – og væri það vel. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á öðrum smjörklípumanni að halda.

Hér sýnir smjörklípumaðurinn sitt rétta andlit


2006-12-03

Listasmíð

Umræðan um Íraksmálið eftir ræðu Jón Sigurðssonar hefur verið mjög undarleg af hálfu stjórnarflokkanna, enda eru þeir með allt niðrum sig í þessu máli. Í næsta pistli hér á undan var bent á bullið í Birni Bjarnasyni og afbökun staðreynda. Formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lét sér sæma að viðhafa svipaðan málflutning á Alþingi. Fyrir utan það að Íraksmálið hefur aldrei snúist um hvort einhverju máli skipti hvort Íslendingar styddu innrás eður ei, þá hafa þeir Guðmundur Steingrímsson og Egill Helgason báðir bent á hversu ótrúverðugur málflutningur það sé að þylja þessa fráleitu þulu og segja svo í hinu orðinu að Ísland eigi fullt erindi inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Svona málflutningur er auðvitað ekki nokkrum bjóðandi og hneisa að ráðherrar fari fram með þessum hætti.

Jón Sigurðsson talaði í ræðunni góðu um að svonefndur listi um „staðfastar þjóðir“ væri „einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás.“ Þetta henti varaformaður Framsóknar, Guðni Ágústsson á lofti og sagði við fréttamenn að Bandaríkjamenn ættu að biðja Íslendinga afsökunar á þessu athæfi. Fleiri hafa talað á þeim nótum að listinn sé verk Bandaríkjamanna og hafi ekkert með íslensk stjórnvöld að gera. Þetta er hlægilega heimskulegur málflutningur.

Listann yfir hinar staðföstu þjóðir má sjá á vef Hvíta hússins og einnig stuðningsyfirlýsingar umræddra þjóða. Þeirra á meðal má lesa eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu frá Davíð Oddssyni:

“The United States now considers its security to be gravely endangered by the actions and attacks of terrorists and because of various threats from countries governed by dictators and tyrants. It believes that support from this small country makes a difference... The declaration issued by the Icelandic Government on the Iraq dispute says that we intend to maintain the close cooperation we have had with our powerful ally in the West.

First of all, this involves flyover authorization for the Icelandic air control area. Secondly, the use of Keflavik Airport, if necessary. In third place, we will take part in the reconstruction of Iraq after the war ends. Fourthly, we expressed political support for Resolution 1441 being enforced after four months of delays."
-- Prime Minister Oddsson, March 18, 2003
Eins og sjá má er þarna heitið stuðningi Íslands sem m.a. felst í flugi inn í lofthelgi Íslands, heimild til afnota af Keflavíkurflugvelli, loforð um þátttöku í endurreisnarstarfi í Írak og loks pólitískum stuðningi við framkvæmd ályktunar Öryggisráðsins númer 1441, sem Bandaríkjamenn túlkuðu sem heimild til innrásar í Írak. Sú túlkun er afar umdeild eins og menn vita.

Það sjá auðvitað allir að það er ákvörðunin um stuðninginn sem skiptir máli. Samsetning listans er eingöngu skipulagsatriði til að halda utan um þjóðirnar 49 sem hétu stuðningi í einhverju formi. Að skamma Bandaríkjamenn fyrir listasmíð er að hengja bakara fyrir smið.

2006-11-26

Björn afbakar

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag og gerði m.a. að umtalsefni ákvarðanir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímsonar um stuðning Íslands við innrásina í Írak. „Þær byggðust á röngum upplýsingum. Forsendur voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar eða mistök. Svonefndur listi um „staðfastar þjóðir" var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás," sagði Jón. Það er lofsvert af Jóni að tala hreint út um þetta og færi betur að Sjálfstæðisflokkurinn gerði það líka. Undirlægja Halldórs Ásgrímsonar, Valgerður Sverrisdóttir, sagði þó að hún hefði tekið sömu ákvarðanir ef hún hefði verið í sporum Halldórs. Í reynd er því kannski ekki alveg til staðar sú viðhorfsbreyting innan flokksins sem ræða formannsins gaf fyrirheit um.

Björn Bjarnason bloggar um þessi orð Jóns og er greinilega ekki á sömu buxum og formaður Framsóknarflokksins. Hann iðrast einskis og er forhertur sem fyrr, enda varla við öðru að búast. Hann er líka nýbúinn að lýsa því yfir að hann ætli sko ekki að mýkja ímynd sína og er staðfastur í þeirri fyrirætlan sinni. Björn segir m.a.:

„Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið. Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.“
Hver hefur talið sér trú um að „ afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak“? Getur Björn nefnt einhvern sem hefur gert það opinberlega? Þetta er auðvitað útúrsnúningur og bull. Gagnrýnt hefur verið að Ísland skyldi styðja innrásina og hvernig gengið var framhjá utanríkismálanefnd við þessa dæmalausu ákvarðanatöku. Engum hefur dottið í hug að afstaða Íslands hefði skipt neinu nema fyrir Íslendinga sjálfa. Hér er málflutningur gagnrýnenda þessarar afdrifaríku ákvörðunar afbakaður og affluttur að hætti Valhallarmanna. Er því eðlilegt að segja að í málflutningi Björns sé „valhallað“ réttu máli.

Hvernig stendur annars á því að ekki er boðið upp á að rita athugasemdir við málflutning Björns Bjarnasonar á bloggsíðu hans?  Þetta þykir sjálfsagður hlutur á bloggsíðum.  En kannski líkar honum eintalið best.


2006-09-24

Götustrákurinn með smjörklípuna

Þegar Eva María sneri aftur í Kastljósið eftir útivist í öðrum sóknum valdi hún Davíð Oddsson, af öllum mönnum, sem sinn fyrsta viðmælanda. Við skulum vona að það hafi ekki verið skipun að ofan.

Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta viðtal, enda var viðmælandinn innihaldsrýr eins og vænta mátti. Eitt vakti athygli mína í þessu viðtali. Davíð staðfesti rækilega það sem ég skrifaði hér í pistli fyrir nokkru. Hann útskýrði smjörklípuaðferðina. Var góður með sig og þóttist ofboðslega fyndinn og snjall.

Smjörklípuaðferðin er komin frá frænku Davíðs sem klíndi smjörklípu í feld kattar síns þegar hann var henni erfiður, eftir því sem Davíð sagði. Kötturinn varð þá að taka til við að þrífa feld sinn og fór ekki hamförum á meðan. Það væri, út af fyrir sig, fróðlegt að heyra álit Dýraverndunarfélags Íslands á þessu athæfi, sem ber ekki vott um mikla hjartagæsku. Efnislega sagðist Davíð hafa notað þessa aðferð þegar pólitískir andstæðingar sóttu að honum í erfiðum málum; hann reyndi að snúa athygli þeirra að öðru.

Þetta þekkja reyndar allir þeir sem eitthvað hafa fylgst með pólitík á liðnum árum og að því leyti eru þetta ekki ný tíðindi; það sem er nýtt er að Davíð viðurkennir þetta opinberlega. Davíð er ekki tækur í málefnalega umræðu og hefur aldrei verið, enda mætti hann bara í drottningarviðtöl þegar hann var forsætisráðherra. Hann er auðvitað alltaf sami götustrákurinn sem kýs frekar að segja aulabrandara og sprengja fýlusprengjur en að tala málefnalega um erfið mál. Hans stærsta fýlusprengja var náttúrulega stóra bolludagsbomban, en þær voru margar fleiri. Vafalaust tekur einhvern tíma að hreinsa skítalyktina eftir Davíð úr íslenskri pólitík.

Hitt er svo annað mál að öfugt við frænkuna þá tókst Davíð sjaldnast ætlunarverk sitt, þó hann kunni að halda annað. Hin mannlegu viðbrögð við smjörklípuaðferðinni reyndust vera önnur en hjá ketti frænkunnar. Þegar Davíð hafði sitt fram var það með afli meirihlutans, en ekki smjörklípuaðferðinni.

 

2006-05-24

Bleiki pardusinn

Allt er nú sem orðið nýtt
ærnar, kýr og smalinn.

Svo kvað Jónas.
Ekki fer hjá því að þessar kunnuglegu ljóðlínur þjóti um hugann núna á kosningavori þegar Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík skartar bleiku og dregur yfir sig félagshyggjufeld. Það virðist gefast honum vel. En ef menn eru ekki grunnhyggnir, þá sjá þeir í gegnum blekkinguna þó að villti tryllti Villi virðist busy – eða þannig:

Varla festir Villi blund
í vorsins lofti tæru.
Um Vonarstæti og Veltusund
vappar í sauðargæru.

2006-05-19

Ekki treysta Framsókn!

Fyrir síðustu alþingiskosningar lofaði Framsókn ungu fólki 90% húsnæðislánum. Fagmenn á markaði vöruðu við þessu, en Framsókn lét sér ekki segjast og vonarstjarna þeirra, Árni Magnússon, lét til skarar skríða eftir kosningar. Þetta athæfi átti að höfða til ungs fólks — kaupa atkvæði þeirra. Það er skemmst frá því að segja að þetta skítatrix virkaði svo vel að Árni Magg rétt marði þingsetu og hófst handa við að framkvæma.

Í dag eru vextir af húsnæðislánum 4,9%. Við þá má bæta verðbólgunni og samanlagt verða til hærri raunvextir en giltu áður en Framsókn hjólaði í atkvæðakaupin og óreyndir létu glepjast. Aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að eignast húsnæði og margir hafa orðið illa úti í þessari harðvítugu baráttu. Hliðaráhrifin af ruglinu eru þau að þensla hefur aukist verulega og var þó varla á bætandi með stórvirkjana- og álverssyndrómi Framsóknarlúðanna. Samanlagt hefur þessi della valdið Íslendingum stórum vandræðum og seilst djúpt í pyngjur almennings.

Þegar þetta er nefnt er ekki verið að tíunda gripdeildir Framsóknarflokksins í einkavæðingunni. Gleymið ekki glottinu á Finni Ingólfssyni, sem er púkinn sem hefur aldeilis fitnað á fjósbita Framsóknar. Gleymið heldur ekki arfinum hans Halldórs. Hvar í veröldinni hefði það verið látið viðgangast átölulaust að stjórnmálamaður hafi komið upp kerfi sem gerði hann og ættmenni hans filhty rich?

Lærið af þessu, landar góðir, og látið ekki Framsókn glepja ykkur. Í komandi sveitarstjórnarkosningum er ykkur boðið upp á mann sem er huggulegri en Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson samanlagt. Ekki láta glepjast. Hann er ekkert betri en þeir, þrátt fyrir smælið og huggulegheitin. Maðurinn sem borgar (með einum eða öðrum hætti) er Finnur Ingólfsson. Núna gefst sögulegt tækifæri til að leggja Framsókn niður og moka flórinn, sem er eina rökrétta niðurstaðan. Framhaldið er svo auðvitað að kasta rekunum á hræið í næstu alþingiskosningum og jarða þar með mestu tímaskekkju Íslandssögunnar.

Eftir að kúrsinn hefur verið leiðréttur með þessum hætti er hægt að halda áfram til framtíðar.

2006-01-12

Harðsnúin hræsni

Þriðjudaginn 10. janúar 2006 birti DV forsíðufrétt um meint kynferðisbrot Gísla Hjartarsonar fyrrverandi grunnskólakennara á Ísafirði gegn tveimur drengjum sem hann hafði tekið í stuðningskennslu. Fréttinni fylgdi stór mynd af Gísla sem var birt bæði á forsíðu blaðsins og inni í blaðinu. Daginn eftir svipti Gísli sig lífi og sagði í bréfi sem hann skildi eftir sig að ásakanirnar væru ósannar og að hann hefði ekki treyst sér til að horfast í augu við afleiðingar fréttaflutnings DV.

Fréttin um andlát Gísla barst eins og eldur í sinu um allt þjóðfélagið og viðbrögð almennings voru á eina lund. Hvarvetna var fréttaflutningur og ritstjórnarstefna DV harðlega fordæmd. Hafin var undirskriftasöfnun á vefsíðu Deiglunnar að frumkvæði ungliðasamtaka allra stjórnmálaflokka og stúdenta við Háskóla Íslands auk annarra aðila. Seinni part dagsins höfðu ríflega þrettán þúsund manns skráð sig og þá brast vefurinn. Upp úr klukkan eitt eftir miðnætti var talan komin upp í tuttugu þúsund. Þegar hæst hóaði skráði sig einn einstaklingur á hverri sekúndu. Í Kastljósi í gærkvöldi var farið ítarlega yfir málið og rætt við fjölmarga aðila, fólk á förnum vegi, dómkirkjuprest, þingmenn, blaðamenn og báða ritstjóra DV. Að ritstjórunum frátöldum sýndu allir aðilar sterk viðbrögð gegn umræddum fréttaflutningi DV.

Hvers vegna þessi sterku viðbrögð? Það er yfirlýst ritstjórnarstefna DV að birta nöfn og myndir af fólki sem blaðið fjallar um án tillits til niðurstaðna rannsókna eða dóma. Í því efni telja ritstjórar blaðsins sig vera að þjóna sannleikanum og að sú þjónkun leyfi enga tillitssemi í umfjöllun. Þetta kom skýrt fram í máli Jónasar Kristjánssonar í áðurnefndum Kastljósþætti. Blaðið fylgir eigin siðareglum sem annar ritstjóri þess hefur samið og stangast þær að einhverju leyti á við siðareglur Blaðamannafélags Íslands, þó að blaðamenn DV séu þar félagar. DV hefur birt hverja fréttina á fætur annarri sem fjallar um fólk sem er nafngreint og birtar af því myndir án þess að rannsókn mála sé lokið eða dómur fallinn. Þannig hafa margir verið meiddir og margir hafa lýst þessum fréttaflutningi sem röngum, fullum af meinfýsni eða í besta falli ónákvæmum og villandi. Fréttin um Gísla Hjartarson virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn, hugsanlega vegna þeirra afleiðinga sem birting hennar hafði.

Þegar spurt er um ábyrgð hafa flestir bent á ritstjóra, eigendur og jafnvel kaupendur DV. Undir þetta má taka, en þó sýnist mér hlutur ritstjóranna vega þyngst, enda er þeim beinlínis borgað fyrir að bera ritstjórnarlega ábyrgð og málið snýst um ritstjórnarstefnu sem byggir á siðareglum sem annar þeirra, Jónas Kristjánsson, hefur samið sérstaklega fyrir blaðið. Sú staðreynd gerir ábyrgð hans í raun mesta; hinn ritstjórinn er kornungur maður sem virðist reyndar sérstakur áhugamaður um sora og lágkúru og fylgir ákafur línu sem hinn reynslumeiri Jónas hefur lagt. Í Kastljósviðtalinu við Mikael Torfason bergmálaði hann það sem Jónas hafði sagt í spjalli í sama þætti. Og hvað sagði Jónas? Hnípinn og hærugrár barðist hann við að snúa út úr spurningum sem fyrir hann voru lagðar og hanga í því hálmstrái að hann væri að þjóna sannleikanum og það væri góð blaðamennska. Einhverju sinni muldraði hann að allir þeir sem höfðu skrifað undir áðurnefnda áskorun hefðu „einkennilegar skoðanir“. Þúsundir manna hafa „einkennilegar skoðanir“ á þessu máli — en ekki Jónas Kristjánsson! Þetta var átakanlegt dæmi um sjálfumgleði, siðblinda þráhyggju og harðsnúna hræsni.

Auðvitað er DV ákveðin viðskiptahugmynd; að gefa út blað með ákveðnum áherslum sem höfða til persónuáhuga fólks og lægri hvata. Jónas vill svo göfga þessa hugmynd með reglum sem hann segist hafa smíðað að fyrirmynd erlendra sorprita, eins og það sé trygging fyrir einhverjum gæðum. Þetta er hin harðsnúna hræsni.

Fréttin um Gísla Hjartarson getur ekki talist góð blaðamennska frá neinum sjónarhóli, ef frá er talinn siðblindur sjálfbirgingsháttur ritstjóranna. Í fréttinni er talað um að atburðir muni hafa gerst á heimili Gísla og að „sögusagnir af kynferðislegu ofbeldi hans gegn unglingspiltum [hafi] gengið á Ísafirði lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert.“ Auk þess er mikið gert úr því að Gísli hafi verið einhentur, eins og það komi málinu sérstaklega við. Í fréttinni segir orðrétt: „Lögreglan á Ísafirði vildi hvorki játa né neita því að mál Gísla Hjartarsonar væri til rannsóknar.“ Samt er síðar fullyrt að rannsókn í málinu sé komin á „fullt skrið.“ Ef þetta er góð blaðamennska, hvernig er þá vond blaðamennska? Auk þess er framsetning fréttarinnar með stóruppslætti á forsíðu ekki í neinu eðlilegu samræmi við efni máls sem er órannsakað, ósannað og ódæmt. Með þessari framsetningu er verið að fella harðan dóm — þrátt fyrir að Jónas hafi ekki þóst vera að fella dóma í Kastljósinu í gærkvöldi. Sú fullyrðing er hins vegar, eins og annar málflutningur hans þar, vitnisburður um siðblindu og hræsni hans sjálfs.

Hvað hefði orðið upp á teningnum ef mál Gísla hefði verið rannsakað til hlítar og niðurstaðan sú að hann væri saklaus? Þá hefði staðið eftir þessi makalausa frétt DV með nafni og myndbirtingu. Það getur verið erfitt fyrir mann að snúa sig út úr slíkri stöðu. Og hvað þá með sannleikann? Myndi Jónas Kristjánsson og DV slá því upp með viðlíka hætti að maðurinn hafi verið saklaus og fréttaflutningurinn ótímabær og tilhæfulaus? Það væri þá sannleikurinn í málinu — yrði hann látinn kyrr liggja? Samkvæmt siðareglunum snilldarlegu gæti það ekki gengið upp.

Engum heilvita manni dettur í hug að Jónas Kristjánsson eða DV séu handhafar sannleikans í þessu órannsakaða máli eða í öðrum málum sem DV hefur slegið upp með viðlíka hætti. Því fer víðsfjarri. Þeir eru heldur engir sérstakir talsmenn meintra þolenda, þeir eru fyrst og síðast að selja blaðið sitt með þessum ófyrirleitna hætti. Sannleikurinn getur verið snúinn og erfiður viðfangs. Að byggja siðareglur og ritstjórnarstefnu á að þykjast vera handhafi sannleikans er rugl. Enginn hefur bréf upp á algildan sannleika eða er þess umkominn að tala einn í nafni hans.

Einhvern tímann var sagt að ástæða væri til að óttast Grikkina þegar þeir kæmu gjöfum hlaðnir. Þegar menn eins og Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason mæta með sannleikann upp á vasann er sannarlega ástæða til að hafa varann á.

2005-12-31

Arfaslakt áramótaskaup

Ég man ekki eftir verra áramótaskaupi en því sem ég var að horfa á rétt í þessu. Þetta var bara ekkert fyndið. Það vantaði tengingu við atburði ársins sem er að líða að mestu leyti. Og atriðin þegar Laddi elti Eddu Björgvins í Kringlunni er hundgamall Gervabælishúmor sem bókstaflega stinkar. Mér fannst þetta vera aðallega einkaflipp leikstýrunnar — fátt um uppgjör atburða síðasta árs þó af nógu væri að taka.

Annað dæmi um smekkleysu liðins árs er val NFS á manni ársins. Að velja Davíð Odddson er ekki bara smekklaust, heldur hnefi í andlit íslensku þjóðarinnar. Er hægt að leggjast lægra í undirlægjuhætti og smjaðri og tilraunum til þess að þykjast vera óháður eigandanum — hvað haldiði að við séum?

2005-10-18

Götustrákur gengur á dyr

Davíð Oddsson lét formlega af embætti formanns Sjálfstæðisflokksins s.l. sunnudag. Þó að samherjar hafi mært hann af mikili kurteisi þá er öllum ljóst að þungu fargi er af mönnum létt. Það gildir bæði um samherja og andstæðinga.

Davíð Oddsson byrjaði stjórnmálaafskipti sín á götum úti og tileinkaði sér fljótt orðbragð og framgöngu götustráksins. Viðhlæjendur hans í borgarstjórn komu þeirri grillu í hausinn á honum að hann væri óskaplega orðheppinn; gott ef ekki fyndinn. Það var óþurftarverk því síðan hafa vandræðalegir tilheyrendur iðulega mátt tvístíga og rembast við kreista upp úr sér hláturlíki þegar aulafyndnin hefur bunað út úr Davíð. Það gerðist helst þegar hann var í góðu skapi. Þegar illa stóð í bælið hans hreytti hann fúkyrðum í allt og alla. Sérstaklega var honum uppsigað við fjölmiðla. Það kom til löngu áður en Baugur fór að kaupa hlutabréf í fjölmiðlum. Þegar R-listinn vann Reykjavíkurborg í annað sinn þá var það fjölmiðlunum að kenna og götustrákurinn jós úr skálum reiði sinnar yfir blásaklausan fréttamann ríkissjónvarps sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Nærri má geta hvaða áhrif þessi framkoma hafði á fjölmiðlamenn yfirleitt, enda voru refirnir til þess skornir.

Að hætti götustráksins kom Davíð sér upp gengi. Einn helsti vinurinn hafði traustatök á flokksapparatinu. Síðan voru helstu skrafskjóðurnar í vinahópnum munstraðar í hlutverk blóðhunda, sem þeir tóku fúsir að sér að glefsa í hvern þann sem lét í ljós ótilhlýðilegar skoðanir, var ekki foringjanum nógsamlega undirdánugur eða efaðist um orð hans og gerðir. Sjálfur tók höfuðpaurinn að sér að lemja nokkra óþekktaranga leiftursnöggt í hausinn og vílaði jafnvel ekki fyrir sér að leggja niður heilu stofnanirnar sem voru honum ekki að skapi. Þessar aðfarir sköpuðu ótta sem lagðist eins og mara yfir þjóðfélagið.

Eins og aðrir götustrákar var hann hvað breiðastur þegar hann var með genginu sínu. Á hallelújasamkomum í flokknum var hann örlátur á fimmaurabrandarana og hreytti ónotum í andstæðingana. Hann þorði hins vegar ekki að mæta þeim í kappræðum í fjölmiðlum; lét sér nægja að senda mönnum tóninn og hlustaði ekki eftir andsvörum. Rétt eins og götustrákurinn sem æpir ókvæðisorð að vegfarendum, en mætir ekki á fundi eða kappræður.

Fyrir tilverknað Davíðs varð pólitíkin harðari og ómálefnalegri. Hann neytti aflsmunar hvenær sem færi gafst og lét kné fylgja kviði. Reynt var að lemja rétttrúnaðinn í gegn sem víðast. Þegar gengi foringjans varð uppvíst að afglöpum þá var þrætt fram í rauðan dauðann og öllu snúið á hvolf - svart varð hvítt og öfugt.

Enn einn eiginleiki götustráksins sem einkennir Davíð ríkulega er ósvífnin. Þannig hefur hann iðulega haldið fram alls konar dellu og komist upp með það af því að enginn hefur þorað að reka ofan í hann þvæluna. Hámarki ósvífninnar náði Davíð áreiðanlega með bolludagsbulli sínu og hlýtur að vera fáheyrt að forsætisráðherra þjóðar þylji slíka einkabrandara í ríkisútvarp. Einnig einkenndist öll framganga hans í fjölmiðlamálinu á síðasta ári af ósvífni og offorsi.

Það er því engin furða þó að götustrákurinn haldi sér við sinn leist þó hann yfirgefi samkvæmið og snúi sér jafnvel við í dyrunum til að þeyta úr sér beiskum glósum. Að stíga fæti á þröskuld veldur ekki eðlisbreytingum hjá nokkrum manni. Eðlilega er engin reisn yfir slíkum endalokum, enda ekki við því að búast. Menn varpa öndu léttara og lofta út þegar dóninn er farinn.

Nú hefur götustrákurinn gengið á dyr eftir að hafa undir það síðasta skarað eldi að sinni eigin köku með fáheyrðri græðgi. Hann heldur keikur leiðar sinnar með hendurnar djúpt í vösum almennings.

2005-10-07

Orð og ábyrgð

Jón Ólafsson hefur unnið meiðyrðamál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í Bretlandi. Málsatvikum er lýst í frétt á Mbl.is með svofelldum hætti:

Enskur dómstóll hefur dæmt Hannes Hólmstein Gissurarson til að greiða Jóni Ólafssyni, kenndum við Skífuna, um 11 milljónir króna vegna ummæla sem Hannes Hólmsteinn lét falla á ráðstefnu norræna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og birti síðan á heimasíðu sinni. Fjárnámskrafa Jóns til fullnustu dómsins verður tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík í dag.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það lykilatriði í málaferlum Jóns ytra að útdráttur úr erindinu var birtur á ensku á heimasíðu Hannesar Hólmsteins og af þeim sökum hefði myndast grundvöllur fyrir málaferlum í Englandi.

Alls hljóðar krafa Jóns Ólafssonar upp á 11 milljónir með kostnaði.

Af hálfu Hannesar Hólmsteins er kröfunni mótmælt og má gera ráð fyrir að málið verði útkljáð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn þarf m.a. að taka afstöðu til þess hvort skilyrði Lugano-samningsins séu uppfyllt en hann kveður á um að dómar í einkamálum í aðildarríkjum séu viðurkenndir á milli landa. Bæði Ísland og Bretland eru aðilar að sáttmálanum.

Heimild: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1161947

Í fréttinni segir Hannes að hefði hann „ákveðið að taka til varna í Englandi hefði hann að sjálfsögðu verið sýknaður enda hefði hann einungis sagt það sem væri satt og rétt; því hefði margoft verið haldið fram að Jón Ólafsson hefði auðgast á vafasaman hátt.“

Hefur Hannes, eða einhver annar, nokkurn tímann sýnt fram á með traustum rökum að Jón Ólafsson hafi auðgast á vafasaman hátt, að ekki sé minnst á haldgóðar sannanir? Nei alls ekki, enda vísar Hannes í einhvern óskilgreindan almannaróm. Það eru hvorki traust rök né haldgóðar sannanir. Því eru þessi ummæli Hannesar auðvitað dylgjur og rógburður. Það ætti Hannes best að sjá þar sem hann hefur, ásamt ýmsum lagsbræðrum sínum, verið duglegur að tala um dylgjur hjá öðrum; oftast af minna tilefni og á veikari forsendum. Fullyrðing Hannesar um að hann hefði unnið málið hefði hann tekið til varna er því líklega óskhyggja eða blekking til að slá ryki í augu fólks. Auk þess má spyrja: hefði verið kostnaðarsamt fyrir Hannes að vinna málið þar ytra? Hefði þá málskostnaðurinn ekki fallið á Jón Ólafsson?

Hannes segir að „sér fyndist fráleitt að hægt væri að draga hann fyrir dóm í Englandi fyrir ummæli sem hann lét falla hér á landi.“ Í fréttinni á Mbl.is segir að ummælin hafi verið látin falla á ráðstefnu norrænna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og síðan birt á ensku á heimasíðu Hannesar. Birting á veraldarvefnum er alþjóðleg. Augljóst er því að ummælin féllu og voru birt á opinberum og alþjóðlegum vettvangi á alþjóðlegu tungumáli og því var grundvöllur fyrir málssókn Jóns á hendur Hannesi, enda hefði Hannes ella ekki verið dæmdur. Með því að gefa í skyn að það sé á einhvern hátt ranglátt að dæma Hannes í Bretlandi fyrir ummæli sem féllu á Íslandi er aftur reynt að slá ryki í augu fólks.

Í títtnefndri frétt Mbl.is segir að hin stefndu ummæli hafi verið á heimasíðu Hannesar á tímabilinu 1999 til 2004 þegar Hannes lokaði síðunni „til að losna við þetta stríð við Jón Ólafsson“. Þetta eru sérkennileg ummæli í ljósi þess að Það er fyrst og fremst Hannes sem hefur verið óþreytandi að tjá sig um Jón Ólafsson opinberlega og þá yfirleitt til að útmála hann sem skúrk með einum eða öðrum hætti. Ég minnist þess ekki að hafa séð Jón tjá sig um Hannes opinberlega með viðlíka hætti eða að sambærilegu umfangi, þó að það kunni að hafa farið fram hjá mér.

Hannesi finnist skrýtið að Jón höfði málið í Bretlandi, en þar býr Jón reyndar, samkvæmt fréttum. Það sem upp úr stendur er að niðurstaða málsins er fengin samkvæmt gildandi leikreglum, þ.e. breskum lögum og niðurstöðum þarlendra dómstóla sem Ísland hefur skuldbundið sig með samningum til að hlíta og við það situr.

Þegar kjarni málsins hefur verið greindur frá hisminu sem Hannes þyrlar upp, þá stendur þetta eftir: Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur farið með málflutning á hendur Jóni Ólafssyni án þess að geta stutt hann traustum rökum eða haldgóðum sönnunum. Fyrir þetta athæfi hefur hann hlotið dóm sem gæti verið aðfararhæfur að íslenskum lögum.

Hannesi hefur oft orðið tíðrætt um frelsið og örugglega einnig um að því fylgi ábyrgð. Hann hefur sannarlega nýtt sér frelsið með sínum hætti og verið einna ófyrirleitnastur manna í opinberri orðræðu á seinni árum. Þarna er einmitt mergur þessa máls. Hannesi er frjálst að tjá sig eins og honum sýnist, en hann ber líka ábyrgð á orðum sínum. Nú hefur reynt á slíka ábyrgð.

Hitt er svo annað mál að sú upphæð sem Hannesi er gert að greiða er svívirðilega há og hver sá sem þarf að greiða slíka upphæð fyrir ummæli, þó dæmd hafi verið ómerk, á alla samúð mína. Miðað við málsatvik finnst mér að Hannes hafi verið réttilega dæmdur, en tyftaður af óþarfri hörku.

Sjá einnig grein Magnúsar Norðdahl hrl á Djöflaeyjunni.

2005-04-13

Megatöffari sextugur

Það eru bara til tveir töffarar í þessum heimi: Clint Eastwood og Rúnar Júlíusson. Sá síðarnefndi á sextugsafmæli í dag og færi ég honum hugheilar hamingjuóskir með þann merka áfanga.

Það er ekkert auðvelt að skilgreina hvers vegna Rúnar er svona mikill töffari – hann bara er það; í orðsins bestu merkingu. Það segir kannski sína sögu að sá sem segir skilið við fótbolta og afneitar landsliðssæti til að gerast tónlistarmaður er ekki alveg meðaljóninn holdi klæddur. Slíkur maður þekkir sína köllun – og gegnir kallinu.

Rúnar var hetja minna unglingsára allar götur frá því að ég sá hann fyrst á sviði með Hljómum í Menntaskólanum á Laugarvatni á áttunda áratug síðustu aldar og hann hefur staðið í fararbroddi í rokkinu allar götur síðan og aldrei látið deigan síga.

Menn eins og Rúnar Júlíusson auðga tilveruna og gefa lífinu lit - hlýjan lit. Áfram Rúnar!

2005-03-16

Rökleysur spunakerlinganna

Í siðmenntuðu ríki hefði Pétur Gunnarsson, af öllum mönnum, örugglega talist vanhæfur til að greiða atkvæði um fréttastjóra útvarps. Er þetta ekki sami maðurinn og sendi settum fréttastjóra og einum umsækjendanna, Friðriki Páli Jónssyni, argvítugt skammarbréf fyrir skömmu af því að honum fannst fréttastofan þjarma of mikið að forsætisráðherra? Jú, sá er maðurinn – mætti gleiður til atkvæðagreiðslu, enda stund hefndarinnar upp runnin.

Trúir því einhver að ríkisútvarpið hafi nauðsynlega þurft að fá rekstrarmann í stöðu fréttastjóra útvarps? Sagt er að fréttastofan hafi farið fram úr fjárheimildum. Hverjir ættu að bera ábyrgð á því? Fréttastofa útvarps heyrir undir svonefnt fréttasvið sem Bogi Ágústsson stýrir. Ber hann ekki ábyrgð? Var rekstrarreynsla hans lykilatriði þegar hann var ráðinn? Undir sama svið heyrir fréttastofa sjónvarps sem stýrt er af nýlega ráðinni Elínu Hirst? Er hún rekstrarmaður? Það var þó öllu meiri áhersla lögð á rekstrarþáttinn í auglýsingu þegar hún var ráðin.

Skipulega séð væri auðvitað eðlilegast að yfirstjórn fréttasviðsins sýslaði með rekstrarþáttinn fyrir báðar fréttastofurnar svo að fréttastjórar og fréttamenn hefðu frið til að segja okkur fréttir. Eða var það aldrei meiningin? Starfar ekki framkvæmdastjóri fjármáladeildar á RÚV? Hvað er hann að sýsla? Ber hann enga ábyrgð á neikvæðum rekstrartölum? Svo mun vera sérstakur framkvæmdastjóri útvarps, handvalinn af núverandi valdhöfum. Spyrja má um ábyrgð hans á rekstri útvarpsins. Og loks er það æðsti strumpur, Markús Örn útvarpsstjóri. Er honum ekki borgað fyrir að bera ábyrgð á öllu saman? Hvaða rekstrarreynslu hafði hann þegar honum var plantað í stól útvarpsstjóra? Hvernig hefur hann brugðist við þessum mikla rekstrarvanda fréttastofu útvarps sem nú er allt í einu aðalatriði máls? Þarna er hver silkihúfan upp af annarri og allir eiga að sýsla í rekstri. Er þá nauðsynlegt að ráða fréttastjóra útvarps úr röðum rekstrarmanna?

Markús Örn er einn af þeim sem trúir á nauðsyn þess fá rekstrarmann sem fréttastjóra útvarps og lýsti því fjálglega í Kastljósi að þar stæði Auðunn Georg öðrum framar. Í dag fjallar Fréttablaðið um rekstrarreynslu hans og virðist hún helst hafa falist í umsjón með sölustarfi nokkurra umboðsfyrirtækja í Suðaustur-Asíu. Hann hafði engin mannaforráð og fór ekki með rekstur fyrirtækisins. Í munni Markúsar hafði Auðunn Georg „verið forstöðumaður eins framsæknasta fyrirtækis á Íslandi“ og „Auðun Georg hefur verið að stýra þessari starfsemi fyrir þetta stóra fyrirtæki sem er orðið alþjóðlegt fyrirtæki og hefur verið að sækja út á erlendum mörkuðum, fyrir nátttúrlega hönd forystu þess,“ Hvað vissi Markús Örn um raunverulega rekstrar- og stjórnunarreynslu Auðuns? Hvað stóð í umsókn Auðuns? Las Markús hana?

Kannski voru þau sýndarrök Markúsar hlægilegust að Auðunn Georg væri ungur og sprækur en fimmmenningarnir, sem Bogi valdi úr hópi umsækjenda, á miðjum aldri og kannski rúmlega það. Menn eldast við að öðlast reynslu og það er erfitt að komast hjá því. En hver ætlar að stýra RÚV þegar það gengur í endurnýjun lífdaganna í takt við ný útvarpslög? Enginn annar en Markús Örn, sem er að vísu bráðum 62 ára gamall, en samt ótrúlega ferskur! Og sérlega rökfastur.

2005-03-14

Fréttastjóraspuninn

Ráðning fréttastjóra útvarps virðist ætla að draga dilk á eftir sér og kemur það tæpast á óvart eins og að málum var staðið.

Framsóknarflokkurinn, sem taldi sig eiga fréttatjórastöðuna, leitaði lengi með logandi ljósi að hæfum kandídat uns ein spunakerlingin í hópnum mundi alltíeinu eftir sprækum vini sínum í Asíá og hann fékk hann til að yfirgefa markaðsstjórastarf hjá Marel fyrir þessa þungavigtarstöðu. Sá mun einhvern tíma hafa unnið sem fréttamaður, þó að enginn muni eftir því. Út af fyrir sig vitnar þessi örvæntingarfulli skrípaleikur um mannval flokkskrílisins og kemur heldur ekki á óvart. Síðan hófst spuninn. Á bak við felutjöldin var sett saman auglýsing og afgreiðsluvél ríkisstjórnarinnar í útvarpsráði látin vita um vininn spræka. Og af því að spunakerlingar Framsóknar eru ekki spunakerlingar fyrir ekki neitt þá var sýndarmennskan leikin af faglegri innlifun. Umsækjendur voru kallaðir til viðræðna og látnir taka persónuleikapróf eins og þeir ættu séns í vininn spræka, sem auðvitað var ráðinn.

Freyjustaurinn Páll Magnússon, sem ætlar sér að verða næsti bæjarstjóri Kópavogs, var móður eftir tusk við óþægar samflokkskvinnur í sínum heimabæ og taldi réttilega að sletturnar frá skítverkinu myndu ekki auka hróður hans umtalsvert. Hann kallaði því inn varamann úr hópi spunakerlinganna, Pétur nokkurn Gunnarsson, sem beið ekki boðanna og keifaði ákafur á fund útvarpsráðs í kórréttum atkvæðagreiðsluham. Síðan hefur hann spunnið þráðinn í fjölmiðlum og aðallega lagt út af auglýsingunni, sem átti að vera upphafspunktur plottsins. Ekki reyndist það alls kostar vel því að þar var lögð meiri áhersla á ritstjórnarþátt starfsins en í næstu auglýsingu á undan, eins og Broddi Broddason sýndi fram á í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Það var kannski ekki mjög heppilegt þar sem klæðskerinn hafði ætlað að sníða stakkinn utan um meinta yfirburði Auðuns Georgs á rekstrarsviðinu.

Síðan kemur að þætti útvarpsstjórans, sem lögum samkvæmt hefur vald til að ráða í starfið sem auglýst var. Reynslan sýnir að niðurstaða útvarpsráðs er honum enginn fjötur um fót ef svo ber undir. Þannig réði Markús Örn Antonsson Elínu Hirst sem fréttastjóra sjónvarps þó hún hafi fengið þrjú atkvæði í útvarpsráði en Sigríður Árnadóttir fjögur. En Markús Örn situr ekki á sínum útvarpsstjórastóli vegna hæfileika sinna, menntunar eða gjörvuleika yfirleitt, heldur er hann auðsveipur augnaþjónn stjórnvalda og situr í skjóli þeirra svo lengi sem hann er þægur og gerir eins og fyrir hann er lagt – og það gerði hann nú og ævinlega. Öll framganga hans í fréttastjóramálinu undirstrikar þetta. Fyrst reyndi hann að humma málið fram af sér og síðan kom aum málsvörn í Kastljósi sem byggðist helst á því að svívirða eigin starfsmenn og finna þeim flest til foráttu. Svo hlálegt sem það er, þá finnst honum öllu máli skipta að fá ungan og sprækan fréttastjóra útvarps til að leggja hönd á plóg við ferska uppbyggingu ríkisútvarspins sem hann ætlar sjálfur að stýra, 64 ára gamall maðurinn! Heitir þetta ekki að sjá ekki bjálkann í sínu eigin auga?

Framganga minnihluta útvarpsráðs í málinu er ömurleg og þeim sem um ræðir til skammar. Ef Samfylking og Frjálslyndir vilja ekki taka þátt í verkum útvarpsráðs, hvers vegna eru þeir þá að hafa þar fulltrúa? Og það er ekkert system í galskabet því ekki stóð á þátttöku þeirra í atkvæðagreiðslu um ráðningu Elínar Hirst. Það ber dómgreind formanns Samfylkingarinnar ekki fagurt vitni að hann skuli hafa velþóknun á þessari barnalegu framgöngu og ættu Samfylkingarmenn að hafa það á bak við eyrað við komandi formannskosningar.

Allt bendir til að útvarpsráð verði brátt lagt niður, við lítinn orðstí og er það vel. Trúlegast er að Markús Örn fari fljótlega sömu leið, við jafnvel minni orðstí.

2005-01-27

Að berja höfðinu við steininn

Hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.
Stephan G. Stephansson


Það er einkenni þeirra, sem hafa vondan málstað að verja, að beita útúrsnúningi, hálfsannleik, hártogunum og þrætubókarstagli hvenær sem komið er að kjarna slíkra mála. Þetta er löngu orðin viðtekin venja stjórnarherra þessa lands, og þeirra sem helst hoppa í kringum þá. Í hverju málinu á fætur öðru hefur ríkisstjórn landsins misboðið þingi og þjóð með hinum fáránlegasta málatilbúnaði. Og þegar allt er komið í algleyming og aðeins saumað að málflytjendum, þá þeyta þeir bullinu í kringum sig eins og öflugir skítadreifarar. Þannig verður svart iðulega hvítt í málflutningnum og öfugt. Sem dæmi má nefna öryrkjamál, eftirlaunamál þingmanna og ráðherra, fjölmiðlamál og nú síðast Íraksmál. Fáein orð um það síðastnefnda.

Kjarni málsins er þessi:

Bandaríkjamenn sóttust eftir samþykki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að ráðast inn í Írak, en fengu ekki. Til að hrinda sínum staðföstu áformum í framkvæmd, engu að síður, fengu þeir aðrar þjóðir til að styðja stríðsáform sín – söfnuðu liði. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson samþykktu stuðning Íslands við þessi áform án þess að bera þá ákvörðun undir Alþingi eða utanríkismálanefnd þingsins, sem þeim bar þó lagaskylda til. Ákvörðunin var heldur ekki formlega samþykkt í ríkisstjórn, eða í þeim þingflokkum sem standa að ríkisstjórninni. Með því að ákveða stuðninginn, í hverju sem hann fólst, voru menn að skipa sér meðvitað í fylkingu – fara á lista. Það er svo auðvitað framkvæmdaratriði hvort útbúinn er sýnilegur listi yfir þær þjóðir sem gengu til liðs við stríðsáform Bandaríkjanna og hvort hann er settur á vefsíðu hér eða tekinn út þar. Með því að fylla þennan flokk var gengið gegn ákvörðunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þó aðili að. Það er alvarlegt og meiri háttar utanríkismál út af fyrir sig. Í því sambandi má minna á að Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt Íraksstríðið ólöglegt.

Forsprakkar Íraksstríðsins, Bush og Blair, báru sín stríðsáform undir þjóðþing landa sinna og fengu samþykki þeirra til framkvæmda. Þetta gerðu þeir Davíð og Halldór ekki þrátt fyrir að ríkisstjórn þeirra styðjist við öruggan og sauðtryggan meirihluta á þingi. Hvers vegna ekki? Voru þeir orðnir svo blindaðir af hroka valdsins að þeim fannst ekki taka því að fara með málið fyrir Alþingi og utanríkismálanefnd þess? Eitt dæmi um bullið úr mykjudreifurum stjórnarliðsins er að gagnrýnendur ákvörðunarinnar séu að hengja sig í formsatriði. Hvaða formsatriði? Lög og reglur um þingsköp, leikreglur lýðræðisins – auðvitað eru það formsatriði. Er allt í lagi að gefa skít í þau þegar henta þykir? Eftir hverju á að dæma þegar búið er að gera lög og reglur að nánast óþörfum formsatriðum?

Í nauðvörn fyrir dæmalausu athæfi sínu og endemis klúðri hafa þeir Davíð og Halldór ásamt nokkrum staðföstum og viljugum undirsátum sínum, hrakist um víðan völl í málflutningi sínum. Í þeirri vörn hafa þessir pótintátar náð nýjum hæðum í bulli ergelsi og firru og var þó langt seilst í þá átt í sumar sem leið. Eftir allan hamaganginn stendur liðið eftir með allt niðrum sig og fálmar út í loftið eftir hálmstráum hér og þar. Haldi þessir menn að íslenskur almenningur trúi þeirra dæmalausu þvælu og sjái ekki í gegnum ruglandann, þá fer því víðsfjarri, eins og skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt. En þessir tréhestar læra aldrei neitt – sennilega af því að þeir eru svo uppteknir við að berja höfðinu við steininn.

2004-12-10

Bull, ergelsi og firra

Torfi Kristjánsson ritar pistil á Deigluna um ákvörðun Þjóðarhreyfingarinnar um að birta auglýsingu um stuðning tveggja Íslendinga við innrásina í Írak. Nokkur orð um þessi skrif.

Í fyrsta lagi mun það koma skýrt fram í auglýsingunni að Þjóðarhreyfingin standi að birtingunni. Í henni eru Íslendingar. Allir sæmilega skynsamir menn skilja að þegar um „hreyfingu“ af einhverju tagi er að ræða, þá er ekki átt við heila þjóð. Norðmenn hafa birt auglýsingu með svipuðum hætti og varla trúir Torfi því að þar sé öll norska þjóðin á bak við. Ég trúi því ekki. Af hverju ættu aðrir að hugsa öðruvísi um auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar?

Í öðru lagi er það erkidæmi um ólýðræðisleg vinnubrögð að tveir menn (hugsanlega einn) taki ákvörðun um stuðning heillar þjóðar við árásarstríð í fjarlægu landi. Ef það var yfirleitt nokkurn tímann ætlunin, þá tókst ákvörðunartakendum ekki alls kostar að ráða í hug þjóðar sinnar í þessu máli, því allar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti hennar er á móti því. Auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar er hinsvegar í mun betri takti við þjóðarviljann. Ef Torfa er umhugað um lýðræði, þá er hann í besta falli óheppinn að taka dæmi af auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar, þegar annað miklu nærtækara bauðst.

„Hér eru klárlega stjórnarandstæðingar á ferð...“. Er þetta þar með tóm della? Auðvitað hljóta að vera einhverjir stjórnarandstæðingar í Þjóðarhreyfingunni. En hverjir eru þar annars? Hvar er félagatalið? Er Ólafur Hannibalsson stjórnarandstæðingur, svo dæmi sé tekið? Síðast þegar ég vissi var hann í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann hefur setið á þingi fyrir þann flokk. Það er alkunna að hann var á móti fjölmiðlalögunum og er andvígur stuðningi við innrásina í Írak – en er þar með sagt að hann sé stjórnarandstæðingur? Þannig mætti halda áfram að grandskoða félagatalið, ef það væri til. Og ef fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru andvígir innrásinni í Írak, þá er ekki fráleitt að ætla að stuðningsmenn auglýsingarinnar gætu verið fleiri en stjórnarandstæðingar í landinu. Niðurstaða: innistæðulaus, ósönnuð fullyrðing, sem varpar ekki ljósi á eitt eða neitt!

Innihaldsleysið og málefnafátæktin nær svo hámarki í ergilegum fúkyrðaflaumi, sem er kannski að verða tíska á sumum bæjum í grennd við núverandi utanríkisráðherra, sem kannski er upphafsmaður þessa alls. Torfi veltir vöngum yfir því að birting auglýsingarinnar sé „sýndarhvöt“ nokkurra „skoffín[a]“ eða „vanhugsað einkaflipp nokkurra manna“. Maður fær bara í hnén af þessum andlegu yfirburðum! Vonandi verður skríbentnum launað við hæfi á æðstu stöðum, svo ekki hafi verið til einskis barist.

Kjarni málsins er sá að tveir menn fóru á svig við þing og þjóð og tóku heimskulega ákvörðun sem þjóðin situr síðan uppi með. Þetta liggur fyrir og ekkert fært því breytt. Ekki einu sinni auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar í New York Times. Líklega telja liðsmenn að þeim leyfist ekki að viðurkenna þetta.

2004-11-19

Holhljómur hræsnarans

Einar Oddur Kristjánsson birtist landsmönnum í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi froðufellandi af bræði yfir nýundirrituðum kjarasamningi kennara við launanefnd sveitarfélaganna. Enn er eftir að greiða atkvæði um samninginn þannig að hann er ekki fugl í hendi. Samt bölsótaðist þingmaðurinn yfir þessari niðurstöðu, sem allir hafa beðið eftir, og hótaði verðbólgu og öllu illu.

Skömmu síðar stóð svo spámaður þessi fyrir framan sjónvarpsmyndavélar í viðtali við fréttamann og sagði, hélugrár af vandlætingu, að kennarar ættu sko ekkert að fá meiri kauphækkun en aðrir.

Gekk þessi snillingur um með votar granir þegar eftirlaunafrumvarp ráðherra og alþingismanna var samþykkt? Gól þessi hani á sínum hræsnishaug þegar Kjaradómur hækkaði þingfararkaup síðast – meira en hjá öðrum að sjálfsögðu? Ekki minnist ég þess.

Hver var það aftur sem sagði um stjórnmálamann:

„Þögnin var hans bestu samkvæmisföt.
Hann hefði aldrei átt að læra að tala.“

2004-10-05

Fallinn!

Ég heyrði einu sinni sagða sögu af Guðna Guðmundssyni rektor Menntaskólans í Reykjavík. Sagan var eitthvað á þá leið að sögumaður sat á skrifstofu Guðna þegar nemandi bankaði þar á dyr og spurði um árangur sinn á einhverju prófi. Guðni kannaði það og sneri sér síðan að nemandanum og sagði: „Þér eru sko glæsilega fallinn!“

Geir Haarde féll einnig á sínu prófi, sem getið var um í síðasta bloggpistli, en yfir því falli var enginn glæsibragur. Það var aumkunarvert að sjá mannræksnið reyna að bera í bætafláka fyrir vondan verknað sinn.

Nú er morgunljóst að í Geir er enginn leiðtogi falinn og engin von um að réttlæti og góðir siðir dafni í kringum hann. Siðferði hans takmarkast af eigin framavonum og hann lætur fallerast við fyrstu freistingu valds og vina. Slíkum mönnum er ekki trúandi fyrir bréfi yfir bæjarlæk; hvað þá æðstu embættum. En þannig er það nú samt. Í núverandi ríkisstjórn sitja í röðum leirdúfurnar sem verða skotnar niður af framtíðinni.