2004-11-19

Holhljómur hræsnarans

Einar Oddur Kristjánsson birtist landsmönnum í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi froðufellandi af bræði yfir nýundirrituðum kjarasamningi kennara við launanefnd sveitarfélaganna. Enn er eftir að greiða atkvæði um samninginn þannig að hann er ekki fugl í hendi. Samt bölsótaðist þingmaðurinn yfir þessari niðurstöðu, sem allir hafa beðið eftir, og hótaði verðbólgu og öllu illu.

Skömmu síðar stóð svo spámaður þessi fyrir framan sjónvarpsmyndavélar í viðtali við fréttamann og sagði, hélugrár af vandlætingu, að kennarar ættu sko ekkert að fá meiri kauphækkun en aðrir.

Gekk þessi snillingur um með votar granir þegar eftirlaunafrumvarp ráðherra og alþingismanna var samþykkt? Gól þessi hani á sínum hræsnishaug þegar Kjaradómur hækkaði þingfararkaup síðast – meira en hjá öðrum að sjálfsögðu? Ekki minnist ég þess.

Hver var það aftur sem sagði um stjórnmálamann:

„Þögnin var hans bestu samkvæmisföt.
Hann hefði aldrei átt að læra að tala.“

2 ummæli:

  1. Nafnlaus11:54

    Er þetta ekki eftir Jón úr Vör?

    Andrés

    SvaraEyða