2004-12-10

Bull, ergelsi og firra

Torfi Kristjánsson ritar pistil á Deigluna um ákvörðun Þjóðarhreyfingarinnar um að birta auglýsingu um stuðning tveggja Íslendinga við innrásina í Írak. Nokkur orð um þessi skrif.

Í fyrsta lagi mun það koma skýrt fram í auglýsingunni að Þjóðarhreyfingin standi að birtingunni. Í henni eru Íslendingar. Allir sæmilega skynsamir menn skilja að þegar um „hreyfingu“ af einhverju tagi er að ræða, þá er ekki átt við heila þjóð. Norðmenn hafa birt auglýsingu með svipuðum hætti og varla trúir Torfi því að þar sé öll norska þjóðin á bak við. Ég trúi því ekki. Af hverju ættu aðrir að hugsa öðruvísi um auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar?

Í öðru lagi er það erkidæmi um ólýðræðisleg vinnubrögð að tveir menn (hugsanlega einn) taki ákvörðun um stuðning heillar þjóðar við árásarstríð í fjarlægu landi. Ef það var yfirleitt nokkurn tímann ætlunin, þá tókst ákvörðunartakendum ekki alls kostar að ráða í hug þjóðar sinnar í þessu máli, því allar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti hennar er á móti því. Auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar er hinsvegar í mun betri takti við þjóðarviljann. Ef Torfa er umhugað um lýðræði, þá er hann í besta falli óheppinn að taka dæmi af auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar, þegar annað miklu nærtækara bauðst.

„Hér eru klárlega stjórnarandstæðingar á ferð...“. Er þetta þar með tóm della? Auðvitað hljóta að vera einhverjir stjórnarandstæðingar í Þjóðarhreyfingunni. En hverjir eru þar annars? Hvar er félagatalið? Er Ólafur Hannibalsson stjórnarandstæðingur, svo dæmi sé tekið? Síðast þegar ég vissi var hann í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann hefur setið á þingi fyrir þann flokk. Það er alkunna að hann var á móti fjölmiðlalögunum og er andvígur stuðningi við innrásina í Írak – en er þar með sagt að hann sé stjórnarandstæðingur? Þannig mætti halda áfram að grandskoða félagatalið, ef það væri til. Og ef fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru andvígir innrásinni í Írak, þá er ekki fráleitt að ætla að stuðningsmenn auglýsingarinnar gætu verið fleiri en stjórnarandstæðingar í landinu. Niðurstaða: innistæðulaus, ósönnuð fullyrðing, sem varpar ekki ljósi á eitt eða neitt!

Innihaldsleysið og málefnafátæktin nær svo hámarki í ergilegum fúkyrðaflaumi, sem er kannski að verða tíska á sumum bæjum í grennd við núverandi utanríkisráðherra, sem kannski er upphafsmaður þessa alls. Torfi veltir vöngum yfir því að birting auglýsingarinnar sé „sýndarhvöt“ nokkurra „skoffín[a]“ eða „vanhugsað einkaflipp nokkurra manna“. Maður fær bara í hnén af þessum andlegu yfirburðum! Vonandi verður skríbentnum launað við hæfi á æðstu stöðum, svo ekki hafi verið til einskis barist.

Kjarni málsins er sá að tveir menn fóru á svig við þing og þjóð og tóku heimskulega ákvörðun sem þjóðin situr síðan uppi með. Þetta liggur fyrir og ekkert fært því breytt. Ekki einu sinni auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar í New York Times. Líklega telja liðsmenn að þeim leyfist ekki að viðurkenna þetta.