2007-05-14

Nú reynir á Geir

Nú er spennandi kosninganótt að baki og niðurstaðan liggur fyrir: stjórnin hélt velli með mjög nauman meirihluta og sú staða skrifast aðallega á meingallað og óréttlátt kosningakerfi.

Sigurvegarar kosninganna eru Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð, en Samfylking og Framsókn biðu ósigra. Samfylkingin tapaði í öllum kjördæmum og hlýtur það að vera áhyggjuefni, jafnvel þó benda megi á að flokkurinn hafi stöðugt unnið á undir lok kosningabaráttunnar. Lexía Samfylkingarinnar hlýtur að vera sú að nú eigi menn að snúa bökum saman og vinna vel saman sem órofa heild allt næsta kjörtímabil.

Útreið Framsóknar hefur tæpast verið verri frá upphafi vega. Fyrir kosningarnar höfðu ýmsir framsóknarmenn, m.a. tveir ráðherrar flokksins (Guðni og Valgerður) talað mjög skýrt um að flokkurinn yrði að fá góða útkomu úr kosningum til að geta haldið áfram stjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokknum. Það kom því ekki á óvart á kosninganótt að formaður Framsóknarflokksins talaði í þá veru að það væri tæpast lýðræðislegt fyrir flokkinn að setjast í stjórn eftir þá útreið sem var að birtast í tölum næturinnar. Hitt var býsna undarlegt að heyra bæði hann og Guðna varaformann hringsnúast í afstöðu sinni og tala í þveröfuga átt eftir að ljóst var að stjórnin félli ekki. Þetta er auðvitað afskaplega ótrúverðugt og sýnir niðurlægingu Framsókn hvað skýrast. Þar er engin reisn eftir og því er kannski bara best að Framsókn renni sitt skeið á enda og minnki enn meira eða hverfi alveg í næstu kosningum.

Mér finnst ekki koma til greina að mynda vinstri stjórn (Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar) við þessar aðstæður. Framsókn var hafnað og á ekki að taka þátt í stjórn. Samfylking og Vinstri grænir gagnrýndu Framsókn réttilega og eiga því ekkert að biðla til þeirra með eitt eða neitt. Sterkasta stjórnin yrði auðvitað stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og ef rétt væri á spilum haldið gæti slík stjórn orðið býsna farsæl. Forspár Ögmundar Jónassonar um slíka stjórn eru fráleitar og með öllu órökstuddar.

Eitt er víst: Geir er með trompin á hendi og nú reynir fyrst verulega á hæfni hans sem stjórnmálaleiðtoga. Hvernig spilar hann úr þessari stöðu? Reynist hann skarpskyggn eða glámskyggn á framtíðina? Sér hann óvænta möguleika og snjalla leiki í stöðunni? Ég bíð spenntur eftir ákvörðun Geirs Hilmars.

2007-05-12

Alþingiskosningar 2007


Þá er komið að því; kosningadagurinn er runninn upp og komið að því að kjósa. Það vefst auðvitað ekki fyrir mér.

Kosningabaráttan hefur ekki verið af því tagi að menn gangi að kjörborði blóðugir upp til axla eftir hatrömm átök og það kannski eins gott. Samt eru ýmsar rósir sem finna má í fjólugarði kosningabaráttunnar, eða eigum við kannski að segja arfaklær. Heimskulegasta orðræða þessa tímabils var án efa bloggfærsla Ástu Möller um forseta Íslands. Úreldingarverðlaunin fær Geir Haarde fyrir klisjuna um að vinstri stjórn væri það versta sem fyrir gæti komið. Þessi orð virka sérstaklega ankannalega úr munni Geirs sem öðrum fremur ber ábyrgð á háum vöxtum, mikilli verðbólgu og skattpíningu okkar minnstu bræðra. Hann hefur ekki einu sinni menntunarskort sér til afbötunar því hann er hagfræðingur - en stóð að þessu samt! Svo spyr hann í heilsíðuauglýsingum hverjum sé treystandi. Svarið liggur í augum uppi: ekki honum, sem hafði tækifærin og nýtti þau ekki.

Nei, það vefst ekki fyrir mér hvað á að kjósa. Ég er stoltur jafnaðarmaður og kýs þess vegna Samfylkinguna. Hér að ofan er raunsæ spá mín um úrslit kosninganna, en ég vona að Samfylkingin fái jafnvel meira fylgi en þarna er sýnt og að útreið Framsóknar verði sýnu verri en hér er spáð.

2007-04-17

Vinir Kára

Óli Björn Kárason bloggar um viðtal Ólafs Teits Guðnasonar við Kára Stefánsson sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Í viðtalinu gagnrýnir Kári ríkisstjórnina harðlega og segir orðrétt: „Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda.“

Bragð er að þá barnið finnur. Kári segir ríkisstjórnina hafa misst kjark til að standa að gerð miðlægs gagnagrunns og einnig lofað ríkisábyrgð á skuldabréfum, sem síðan „dróst bara og dróst og dróst“ segir Kári og á endanum seldi ÍE sín eigin skuldabréf án ríkisábyrgðar.

Þessi mál voru auðvitað umdeild á sínum tíma og fróðlegt að vita loks lyktir þeirra beggja eins og Kári túlkar þær. En er ekki augljóst af þessari atburðarás hvernig Davíð ætlaði að hygla sínum gamla skólabróður en kom því ekki í gegn þrátt fyrir allt. Ekki er ólíklegt að arftaki hans hafi staðið á bremsunni og haft betur þegar upp var staðið. En hvernig sem því kann að vera varið, eru þetta þó ágæt dæmi um hringlandahátt ríkisstjórnarinnar. Það er vissulega vafasamt að gefa einkafyrirtækjum fyrirheit um ríkisábyrgð á lánum. En verða menn ekki að standa við það sem þeir lofa? Allir vita reyndar að stjórnmálamenn rísa sjaldnast undir þeirri kröfu. Þeir eru alltaf stikkfrí.

2007-04-15

........ í lauginni

Þá er auglýsingaherferð Framsóknar hafin. Í blöðunum sjást litlar auglýsingar, sem síðan eiga vafalaust eftir að stækka þegar nær dregur kosningum. Í þeirri auglýsingu sem spiluð hefur verið í sjónvarpi að undanförnu er megináhersla lögð á formanninn. Auglýsingin er hefðbundin og frekar hallærisleg. Þegar formaðurinn damlaði í Laugardalslauginni kom strax upp í hugann blúslag sem dúettinn Súkkat flutti eftirminnilega hér fyrir nokkrum árum. Ég er viss um að þeir félagar myndu leyfa Framsóknarmönnum að leika það undir sundæfingum formannsins - sem væri auðvitað mjög viðeigandi.

2007-04-13

Mbl.is er áróðursvefur

Landsfundur Samfylkingarinnar var settur kl 16:00 í dag. Um klukkutíma síðar var hvergi á hann minnst á fréttaforsíðu Mbl.is. Á sama tíma var bein útsending frá fundinum á Vísir.is. Þessu til sönnunar má sjá hér skjámyndir af fréttaforsíðum beggja vefjanna (Mbl.is og Vísir.is) sem teknar voru með forritinu url2bmp kl 16:58 og 17:00 í dag.

Það hefur löngum verið sagt að Morgunblaðið ljúgi með þögninni og fréttavefur blaðsins sannar þetta núna eftirminnilega. Það er gengið svo langt í áróðrinum (þögn er líka áróður) að fréttamatið er lagt til hliðar ásamt fagmennskunni. ISS!

2007-04-07

Íbúakosningarnar í Hafnarfirði

Nýlega fór fram kosning meðal íbúa Hafnarfjarðar um tiltekna deiliskipulagstillögu. Bæjarstjórnin hafði djörfung og dug til að brjóta blað og gefa íbúunum kost á að láta álit sitt í ljós á máli sem vitað var að skipti þá miklu. Könnun sýndi að um 90% íbúanna kunnu vel að meta þessa ákvörðun og ég trúi því að Hafnfirðingar muni sýna þann félagsþroska að taka niðurstöðunni með stóískri ró.

Það hefur talsvert borið á því í þjóðfélagsumræðunni að menn fari fram með þvætting sem hver étur svo eftir öðrum eins og um heilagan sannleik væri að ræða. Þannig var því haldið fram hér um árið að ákvörðun forseta Íslands um að neita að samþykkja umdeild fjölmiðlalög myndi leiða af sér stjórnarkreppu. Þó að margir legðu sér þessi orð í munn á þeim tíma, vita nú allir að þetta var bull.

Í aðdraganda íbúakosninganna í Hafnarfirði gáfu bæjafulltrúar Samfylkingarinnar ekki upp afstöðu sína til fyrirliggjandi skipulagstillögu. Það var auðvitað afskaplega eðlilegt og hefði farið betur á að aðrir bæjarfulltrúar hefðu fylgt fordæmi þeirra því hlutverk bæjaryfirvalda var eingöngu að koma kosningunni á og setja um hana leikreglur og það var gert. Atkvæðisbærir Hafnfirðingar voru síðan einfærir um að mynda sér skoðun á álitaefninu út frá sínum hagsmunum og þurftu auðvitað ekki á hjálparhönd frá bæjarfulltrúum að halda til að ljúka því verkefni. Þetta sér hver meðalgreindur maður. Samt kemur einhver bullukollurinn og fer að fimbulfamba um kjarkleysi, hjásetu, að „skýla sér á bak við íbúalýðræði“ og ég veit ekki hvað. Og áður en við er litið étur þetta hver upp eftir öðrum án þess að reynt sé að styðja þessar staðhæfingar með rökum. Svona orðræða er auðvitað ekki boðleg og dæmir sig sjálf – úr leik. Þeir sem hana stunda gera ekki miklar andlegar kröfur til sjálfra sín.

2007-03-01

Allt er vænt sem vel er grænt

Í tilefni af forsíðu Moggans fyrir skemmstu:

Kosningar nálgast og nú þarf að brýna brandinn
og búast þeim klæðum sem helst geta fylgi rænt.
Það hvítnar í báru og eggjaður gerist nú andinn
og illfyglið smælar á forsíðu Moggans - grænt.

2007-02-23

Klámhundar á Sögu

Hollenski klámvefurinn FreeOnes.com hugðist halda vetrarhátíð (Snowgathering) á Íslandi 7.-11. mars 2007 og hafði fengið inni á Hótel Sögu fyrir þá sem hugðust þaka þátt. Fréttablaðið í dag (2007.02.23, bls 36) greinir frá því að um 60 hafi bókað þar gistingu.

Í gær tók stjórn Bændasamtakanna, en bændur eiga Hótel Sögu (Bændahöllina), þá ákvörðun að hætta við þessi viðskipti og rökstuddi ákvörðun sína með tilvísun til harðrar umræðu gegn fyrirhugaðri vetrarhátið frá stjórnmálamönnum, einkum borgarstjóranum í Reykjavík.

Þetta mál er dæmigert fyrir umræður í íslensku samfélagi þar sem mál eru rædd og rekin af tilfinningalegum trúarhita fremur en af yfirvegun og rökhyggju. Þessu hefur enginn lýst betur en hinn snjalli rithöfundur Halldór Laxness (Innansveitarkróníka, 9. kafli):

Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.

Margar áreiðanlegar vísbendingar eru til um að í skjóli kláms þrífist alls konar viðbjóður, eins og nauðung og mansal, sem öll samfélög vilja vera laus við. Þó er engin leið að fullyrða að þessi starfsemi sé öll þannig og enn síður að þeir sem vildu vera gistivinir Sögu séu fantar og glæpamenn upp til hópa. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessi hópur hefði neina ólöglega starfsemi í hyggju og það er grundvallaratriði í okkar réttarkerfi að menn eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir „ferðaiðnaðinum mikill vandi á höndum ef nauðsynlegt reynist að kanna bakgrunn hvers einasta ferðalangs sem hingað kemur en þeir eru um 400 þúsund á ári“ og spyr „hvort von sé á reglugerð frá stjórnvöldum um hverjir séu æskilegir hér á landi og hverjir ekki?“ (Fréttablaðið, 2007.02.23, bls 36). Þannig lítur málið út í augum venjulegs fólks sem stendur báðum fótum á jörðinni og er ekki heltekið af hysteríu.

Það sem er hlægilegt við þessa ákvörðun stjórnar Bændasamtakanna er að á hóteli þeirra eiga gestir kost á að velja klámrás í sjónvarpinu og gætu þess vegna horft á hina burtreknu gesti FreeOnes.com vinna vinnuna sína. Svo ætla bændur, NÚNA, að spyrja Radisson-SAS hvort ekki megi loka klámrásinni! Af hverju gengust þessir heilögu menn inn á þetta fyrirkomulag í upphafi?

Það sem er ógeðfellt við þessa niðurstöðu er að hún er byggð á hysteríu sem greip um sig í umræðunni og stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum, popúlískur borgarstjóri og hagsmunasamtök í ímyndarvanda glúpnuðu eða ákváðu að fiska í gruggugu vatni. Fyrir þessari ákvörðun liggja engin eðlileg rök. Maður veltir fyrir sér hvort að þetta hefði gerst ef ekki hefðu alþingiskosningar staðið fyrir dyrum eða langur tími væri liðinn frá ákvörðun um stórfelldan stuðning af almannafé við hnignandi atvinnugrein og forsvarsmenn hennar þar af leiðandi ekki með skjálfta í hnjánum. Borgarstjórinn í Reykjavík er hins vegar bara einfaldur popúlisti sem kaupir vinsældir við öll tækifæri og hann sá þarna útsöludæmi sem hann gat meira að segja fengið pólitíska andstæðinga sína til að reikna með sér. En útkoman var röng.

Það getur ekki verið rétt að mismuna fólki eftir því hvað það tekur sér fyrir hendur á meðan sú starfsemi fer ekki í bága við viðurkenndar leikreglur samfélagsins. Á t.d. að banna samkomur homma og lesbía ef þeir sem hafa aðra kynhegðun æsa til andstöðu við slíkar samkomur? Það hefur gerst. Gæti það gerst aftur? Hvað getur ekki gerst þegar hysterían ræður för? Það eru áreiðanlega einhverjir af þeim sem hafa tekið þátt í vetrarhátíðarhysteríunni sem voru á móti meðferðinni á Falun Gong hérna um árið. Sjá þeir ekkert misræmi á ferðinni?

Það er við því að búast að harðsvíruð hagsmunasamtök eins og femínistar hafi hátt undir svona kringumstæðum, en menn mega ekki láta glepjast af hávaðanum. Það verður að vera system í galskapet, það er lágmarkskrafa sem gera verður til stjórnvalda og þeirra sem bjóða sig fram til að fara með almannavald. Það gengur ekki að aðhafast eitthvað tilviljanakennt eftir því sem byrinn blæs hverju sinni. Þetta lið mætti skoða hugleiðingar Tómasar Becket í leikverki T. S. Eliot, Murder in the Cathedral, þegar hann velti fyrir sér hvort aðgerðir hans stjórnuðust af þrá eftir eilífri gloríu sem fælist í píslarvættisdauða:

The last temptation is the greatest treason:
To do the right deed for the wrong reason.
Mig grunar að viljinn til að vera hollur undir meintan pólitískan rétttrúnað augnabliksins hafi hér vegið þyngra en skynsemi, leikreglur og sanngirni í þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir. Ég óttast svona niðurstöður. Þannig gekk þetta fyrir sig í villta vestrinu: múgurinn æpti og einhver var hengdur. En það getur skjótt skipast veður í lofti og æpandi gærdagsins kann að vakna að morgni við að ól herðist að kverk.

2007-01-22

Áfram Ísland!

Ísland sigraði Evrópumeistaralið Frakka í kvöld með átta marka mun (32:24) eftir að hafa verið yfir allan tímann og m.a. komist í 5:0 og liðið náði mest 11 marka forskoti í leiknum. Ísland leiddi með tíu marka mun í hálfleik. Þetta er besti leikur íslensks handboltaliðs frá upphafi vega. Það getur ekki verið nein spurning.

Eftir arfaslakan leik við Úkraínumenn á sunnudaginn var margur maðurinn niðurdreginn og bjóst við hinu versta. Því var fögnuðurinn yfir leik liðsins í kvöld dýpri og kröftugri. Ég ætlaði lengi vel ekki að trúa eigin augum og kveið fyrir seinni hálfleiknum. Það reyndist ástæðulaust. Frakkar komu að vísu ákveðnir til leiks þá, en okkar menn voru bara enn ákveðnari og juku muninn!

Það gekk eiginlega allt upp hjá íslenska liðinu: vörnin hörkugóð, markvarslan frábær og sóknarleikurinn beittur og skilaði hverju markinu á fætur öðru. Frakkar spiluðu vel; þeir eru með frábært lið. Íslendingar spiluðu bara betur og höfðu hjartað á réttum stað. Einbeitnin og baráttuviljinn geislaði af liðinu.

Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland! Ég er að rifna úr stolti og þakka fyrir mig.