2007-04-17

Vinir Kára

Óli Björn Kárason bloggar um viðtal Ólafs Teits Guðnasonar við Kára Stefánsson sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Í viðtalinu gagnrýnir Kári ríkisstjórnina harðlega og segir orðrétt: „Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda.“

Bragð er að þá barnið finnur. Kári segir ríkisstjórnina hafa misst kjark til að standa að gerð miðlægs gagnagrunns og einnig lofað ríkisábyrgð á skuldabréfum, sem síðan „dróst bara og dróst og dróst“ segir Kári og á endanum seldi ÍE sín eigin skuldabréf án ríkisábyrgðar.

Þessi mál voru auðvitað umdeild á sínum tíma og fróðlegt að vita loks lyktir þeirra beggja eins og Kári túlkar þær. En er ekki augljóst af þessari atburðarás hvernig Davíð ætlaði að hygla sínum gamla skólabróður en kom því ekki í gegn þrátt fyrir allt. Ekki er ólíklegt að arftaki hans hafi staðið á bremsunni og haft betur þegar upp var staðið. En hvernig sem því kann að vera varið, eru þetta þó ágæt dæmi um hringlandahátt ríkisstjórnarinnar. Það er vissulega vafasamt að gefa einkafyrirtækjum fyrirheit um ríkisábyrgð á lánum. En verða menn ekki að standa við það sem þeir lofa? Allir vita reyndar að stjórnmálamenn rísa sjaldnast undir þeirri kröfu. Þeir eru alltaf stikkfrí.

2007-04-15

........ í lauginni

Þá er auglýsingaherferð Framsóknar hafin. Í blöðunum sjást litlar auglýsingar, sem síðan eiga vafalaust eftir að stækka þegar nær dregur kosningum. Í þeirri auglýsingu sem spiluð hefur verið í sjónvarpi að undanförnu er megináhersla lögð á formanninn. Auglýsingin er hefðbundin og frekar hallærisleg. Þegar formaðurinn damlaði í Laugardalslauginni kom strax upp í hugann blúslag sem dúettinn Súkkat flutti eftirminnilega hér fyrir nokkrum árum. Ég er viss um að þeir félagar myndu leyfa Framsóknarmönnum að leika það undir sundæfingum formannsins - sem væri auðvitað mjög viðeigandi.

2007-04-13

Mbl.is er áróðursvefur

Landsfundur Samfylkingarinnar var settur kl 16:00 í dag. Um klukkutíma síðar var hvergi á hann minnst á fréttaforsíðu Mbl.is. Á sama tíma var bein útsending frá fundinum á Vísir.is. Þessu til sönnunar má sjá hér skjámyndir af fréttaforsíðum beggja vefjanna (Mbl.is og Vísir.is) sem teknar voru með forritinu url2bmp kl 16:58 og 17:00 í dag.

Það hefur löngum verið sagt að Morgunblaðið ljúgi með þögninni og fréttavefur blaðsins sannar þetta núna eftirminnilega. Það er gengið svo langt í áróðrinum (þögn er líka áróður) að fréttamatið er lagt til hliðar ásamt fagmennskunni. ISS!

2007-04-07

Íbúakosningarnar í Hafnarfirði

Nýlega fór fram kosning meðal íbúa Hafnarfjarðar um tiltekna deiliskipulagstillögu. Bæjarstjórnin hafði djörfung og dug til að brjóta blað og gefa íbúunum kost á að láta álit sitt í ljós á máli sem vitað var að skipti þá miklu. Könnun sýndi að um 90% íbúanna kunnu vel að meta þessa ákvörðun og ég trúi því að Hafnfirðingar muni sýna þann félagsþroska að taka niðurstöðunni með stóískri ró.

Það hefur talsvert borið á því í þjóðfélagsumræðunni að menn fari fram með þvætting sem hver étur svo eftir öðrum eins og um heilagan sannleik væri að ræða. Þannig var því haldið fram hér um árið að ákvörðun forseta Íslands um að neita að samþykkja umdeild fjölmiðlalög myndi leiða af sér stjórnarkreppu. Þó að margir legðu sér þessi orð í munn á þeim tíma, vita nú allir að þetta var bull.

Í aðdraganda íbúakosninganna í Hafnarfirði gáfu bæjafulltrúar Samfylkingarinnar ekki upp afstöðu sína til fyrirliggjandi skipulagstillögu. Það var auðvitað afskaplega eðlilegt og hefði farið betur á að aðrir bæjarfulltrúar hefðu fylgt fordæmi þeirra því hlutverk bæjaryfirvalda var eingöngu að koma kosningunni á og setja um hana leikreglur og það var gert. Atkvæðisbærir Hafnfirðingar voru síðan einfærir um að mynda sér skoðun á álitaefninu út frá sínum hagsmunum og þurftu auðvitað ekki á hjálparhönd frá bæjarfulltrúum að halda til að ljúka því verkefni. Þetta sér hver meðalgreindur maður. Samt kemur einhver bullukollurinn og fer að fimbulfamba um kjarkleysi, hjásetu, að „skýla sér á bak við íbúalýðræði“ og ég veit ekki hvað. Og áður en við er litið étur þetta hver upp eftir öðrum án þess að reynt sé að styðja þessar staðhæfingar með rökum. Svona orðræða er auðvitað ekki boðleg og dæmir sig sjálf – úr leik. Þeir sem hana stunda gera ekki miklar andlegar kröfur til sjálfra sín.