2006-12-21

Erindisleysa Ísafoldar

Reynir Traustason sendi blaðakonu inn á vistheimilið Grund undir fölsku flaggi og birti síðan grein blaðakonunnar í tímariti sínu Ísafold. Skemmst er frá því að segja að uppátækið vakti að vonum hörð viðbrögð stjórnenda Grundar. Reynir varði ritsmíðina og aðferðafræðina með nokkrum þjósti og talaði m.a. um að almenningur ætti rétt á að vita hvernig væri að gamla fólkinu á Grund búið. Þessi lumma er kunnugleg (man einhver eftir tveimur ritstjórum DV sem lummulegir þurftu að taka pokann sinn?) og í rauninni bull. Ónákvæmar og rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Á vef Morgunblaðsins er greint frá athugun Landlæknisembættisins á aðstæðum vistmanna á Grund og sjónum beint að nokkrum atriðum sem sérstaklega voru gagnrýnd í umfjöllun Ísafoldar. Skemmst er frá því að segja að næsta fá ef nokkur af sannleikskornum Ísafoldargreinarinnar standa eftir óhrakin. Frásögnin af beinbroti gömlu konunnar er „augljóslega röng“, fullyrðingar um skort á hreinlæti og að vistmenn „gangi um í slitnum og skítugum fötum“ eru rangar og hjal um erfiðleika í samskiptum við starfsmenn af erlendu bergi brotna á ekki við rök að styðjast.

Landlæknisembættið kannaði skrifleg gögn, kom í fyrirvaralausar heimsóknir á Grund og ræddi við starfsmenn, vistmenn og einn aðstandanda. Eina athugasemd embættisins var ábending um að starfsmenn væru látnir undirrita trúnaðaryfirlýsingu áður en þeir væru ráðnir.

Reynir Traustason er ágætur og vel meinandi blaðamaður, en í þessu máli lenti hann á villigötum. Vonandi lærir hann af því að seilast ekki aftur í vafasamar aðferðir sorpblaðamennskunnar. Hann þarf ekkert á því að halda.

 

2006-12-13

Fúl smjörklípa

Björn Ingi Hrafnsson átti verulega erfitt í Kastljósi kvöldsins. Hann gat með engu móti rætt efnislega um afar hæpnar ráðningar á ýmsum Framsóknarmönnum í verkefni tengdum Reykjavíkurborg í skjóli hans sjálfs að undanförnu. Þess í stað reyndi hann alls kyns undanbrögð. Hvernig varst þú ráðinn Helgi? Hvernig var þetta hjá R-listanum? Þetta á ekkert skylt við efnislega umræðu, eða verða óhæfuverk Framsóknarflokksins réttmæt ef einhver annar hefur gert svipaða hluti?

Björn Ingi sýndi nú sitt rétta andlit. Á bak við smælið og vatnsgreiðsluna glitti í kaldrifjaðan framapotara og tækifærissinna sem vílar ekki fyrir sér að beita dónaskap, útúrsnúningum, orðhengilshætti og smjörklípuaðferð til að fela málefnafátæktina og getuleysið til að ræða hæpnar aðgerðir sínar efnislega. Ítrekað greip hann fram í fyrir Degi til að trufla málflutning hans, af því að hann gat ekki mætt honum með efnislegum rökum. Hvílík eymd!

En einn maður var ánægður með frammistöðu Björns Inga, nefnilega Björn Bjarnason enda er þetta orðræða í hans anda. Sá lét nú ekki lögin þvælast fyrir sér þegar hann stóð í ráðningum í Hæstarétt (sjá einnig hér). Með vísun til almennrar málvenju má segja að Birni Inga hafi því tekist að skemmta skrattanum. Þeir sem hafa áhuga á efnislegri umræðu og leiðast pólitísk fíflalæti hafa ekki skemmt sér að sama skapi.

Ég spái því að pólitískt líf Björns Inga nái til loka kjörtímabils hans sem borgarfulltrúa Framsóknar í Reykjavík – og væri það vel. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á öðrum smjörklípumanni að halda.

Hér sýnir smjörklípumaðurinn sitt rétta andlit


2006-12-03

Listasmíð

Umræðan um Íraksmálið eftir ræðu Jón Sigurðssonar hefur verið mjög undarleg af hálfu stjórnarflokkanna, enda eru þeir með allt niðrum sig í þessu máli. Í næsta pistli hér á undan var bent á bullið í Birni Bjarnasyni og afbökun staðreynda. Formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lét sér sæma að viðhafa svipaðan málflutning á Alþingi. Fyrir utan það að Íraksmálið hefur aldrei snúist um hvort einhverju máli skipti hvort Íslendingar styddu innrás eður ei, þá hafa þeir Guðmundur Steingrímsson og Egill Helgason báðir bent á hversu ótrúverðugur málflutningur það sé að þylja þessa fráleitu þulu og segja svo í hinu orðinu að Ísland eigi fullt erindi inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Svona málflutningur er auðvitað ekki nokkrum bjóðandi og hneisa að ráðherrar fari fram með þessum hætti.

Jón Sigurðsson talaði í ræðunni góðu um að svonefndur listi um „staðfastar þjóðir“ væri „einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás.“ Þetta henti varaformaður Framsóknar, Guðni Ágústsson á lofti og sagði við fréttamenn að Bandaríkjamenn ættu að biðja Íslendinga afsökunar á þessu athæfi. Fleiri hafa talað á þeim nótum að listinn sé verk Bandaríkjamanna og hafi ekkert með íslensk stjórnvöld að gera. Þetta er hlægilega heimskulegur málflutningur.

Listann yfir hinar staðföstu þjóðir má sjá á vef Hvíta hússins og einnig stuðningsyfirlýsingar umræddra þjóða. Þeirra á meðal má lesa eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu frá Davíð Oddssyni:

“The United States now considers its security to be gravely endangered by the actions and attacks of terrorists and because of various threats from countries governed by dictators and tyrants. It believes that support from this small country makes a difference... The declaration issued by the Icelandic Government on the Iraq dispute says that we intend to maintain the close cooperation we have had with our powerful ally in the West.

First of all, this involves flyover authorization for the Icelandic air control area. Secondly, the use of Keflavik Airport, if necessary. In third place, we will take part in the reconstruction of Iraq after the war ends. Fourthly, we expressed political support for Resolution 1441 being enforced after four months of delays."
-- Prime Minister Oddsson, March 18, 2003
Eins og sjá má er þarna heitið stuðningi Íslands sem m.a. felst í flugi inn í lofthelgi Íslands, heimild til afnota af Keflavíkurflugvelli, loforð um þátttöku í endurreisnarstarfi í Írak og loks pólitískum stuðningi við framkvæmd ályktunar Öryggisráðsins númer 1441, sem Bandaríkjamenn túlkuðu sem heimild til innrásar í Írak. Sú túlkun er afar umdeild eins og menn vita.

Það sjá auðvitað allir að það er ákvörðunin um stuðninginn sem skiptir máli. Samsetning listans er eingöngu skipulagsatriði til að halda utan um þjóðirnar 49 sem hétu stuðningi í einhverju formi. Að skamma Bandaríkjamenn fyrir listasmíð er að hengja bakara fyrir smið.

2006-11-26

Björn afbakar

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag og gerði m.a. að umtalsefni ákvarðanir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímsonar um stuðning Íslands við innrásina í Írak. „Þær byggðust á röngum upplýsingum. Forsendur voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar eða mistök. Svonefndur listi um „staðfastar þjóðir" var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás," sagði Jón. Það er lofsvert af Jóni að tala hreint út um þetta og færi betur að Sjálfstæðisflokkurinn gerði það líka. Undirlægja Halldórs Ásgrímsonar, Valgerður Sverrisdóttir, sagði þó að hún hefði tekið sömu ákvarðanir ef hún hefði verið í sporum Halldórs. Í reynd er því kannski ekki alveg til staðar sú viðhorfsbreyting innan flokksins sem ræða formannsins gaf fyrirheit um.

Björn Bjarnason bloggar um þessi orð Jóns og er greinilega ekki á sömu buxum og formaður Framsóknarflokksins. Hann iðrast einskis og er forhertur sem fyrr, enda varla við öðru að búast. Hann er líka nýbúinn að lýsa því yfir að hann ætli sko ekki að mýkja ímynd sína og er staðfastur í þeirri fyrirætlan sinni. Björn segir m.a.:

„Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið. Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.“
Hver hefur talið sér trú um að „ afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak“? Getur Björn nefnt einhvern sem hefur gert það opinberlega? Þetta er auðvitað útúrsnúningur og bull. Gagnrýnt hefur verið að Ísland skyldi styðja innrásina og hvernig gengið var framhjá utanríkismálanefnd við þessa dæmalausu ákvarðanatöku. Engum hefur dottið í hug að afstaða Íslands hefði skipt neinu nema fyrir Íslendinga sjálfa. Hér er málflutningur gagnrýnenda þessarar afdrifaríku ákvörðunar afbakaður og affluttur að hætti Valhallarmanna. Er því eðlilegt að segja að í málflutningi Björns sé „valhallað“ réttu máli.

Hvernig stendur annars á því að ekki er boðið upp á að rita athugasemdir við málflutning Björns Bjarnasonar á bloggsíðu hans?  Þetta þykir sjálfsagður hlutur á bloggsíðum.  En kannski líkar honum eintalið best.


2006-09-24

Götustrákurinn með smjörklípuna

Þegar Eva María sneri aftur í Kastljósið eftir útivist í öðrum sóknum valdi hún Davíð Oddsson, af öllum mönnum, sem sinn fyrsta viðmælanda. Við skulum vona að það hafi ekki verið skipun að ofan.

Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta viðtal, enda var viðmælandinn innihaldsrýr eins og vænta mátti. Eitt vakti athygli mína í þessu viðtali. Davíð staðfesti rækilega það sem ég skrifaði hér í pistli fyrir nokkru. Hann útskýrði smjörklípuaðferðina. Var góður með sig og þóttist ofboðslega fyndinn og snjall.

Smjörklípuaðferðin er komin frá frænku Davíðs sem klíndi smjörklípu í feld kattar síns þegar hann var henni erfiður, eftir því sem Davíð sagði. Kötturinn varð þá að taka til við að þrífa feld sinn og fór ekki hamförum á meðan. Það væri, út af fyrir sig, fróðlegt að heyra álit Dýraverndunarfélags Íslands á þessu athæfi, sem ber ekki vott um mikla hjartagæsku. Efnislega sagðist Davíð hafa notað þessa aðferð þegar pólitískir andstæðingar sóttu að honum í erfiðum málum; hann reyndi að snúa athygli þeirra að öðru.

Þetta þekkja reyndar allir þeir sem eitthvað hafa fylgst með pólitík á liðnum árum og að því leyti eru þetta ekki ný tíðindi; það sem er nýtt er að Davíð viðurkennir þetta opinberlega. Davíð er ekki tækur í málefnalega umræðu og hefur aldrei verið, enda mætti hann bara í drottningarviðtöl þegar hann var forsætisráðherra. Hann er auðvitað alltaf sami götustrákurinn sem kýs frekar að segja aulabrandara og sprengja fýlusprengjur en að tala málefnalega um erfið mál. Hans stærsta fýlusprengja var náttúrulega stóra bolludagsbomban, en þær voru margar fleiri. Vafalaust tekur einhvern tíma að hreinsa skítalyktina eftir Davíð úr íslenskri pólitík.

Hitt er svo annað mál að öfugt við frænkuna þá tókst Davíð sjaldnast ætlunarverk sitt, þó hann kunni að halda annað. Hin mannlegu viðbrögð við smjörklípuaðferðinni reyndust vera önnur en hjá ketti frænkunnar. Þegar Davíð hafði sitt fram var það með afli meirihlutans, en ekki smjörklípuaðferðinni.

 

2006-05-24

Bleiki pardusinn

Allt er nú sem orðið nýtt
ærnar, kýr og smalinn.

Svo kvað Jónas.
Ekki fer hjá því að þessar kunnuglegu ljóðlínur þjóti um hugann núna á kosningavori þegar Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík skartar bleiku og dregur yfir sig félagshyggjufeld. Það virðist gefast honum vel. En ef menn eru ekki grunnhyggnir, þá sjá þeir í gegnum blekkinguna þó að villti tryllti Villi virðist busy – eða þannig:

Varla festir Villi blund
í vorsins lofti tæru.
Um Vonarstæti og Veltusund
vappar í sauðargæru.

2006-05-19

Ekki treysta Framsókn!

Fyrir síðustu alþingiskosningar lofaði Framsókn ungu fólki 90% húsnæðislánum. Fagmenn á markaði vöruðu við þessu, en Framsókn lét sér ekki segjast og vonarstjarna þeirra, Árni Magnússon, lét til skarar skríða eftir kosningar. Þetta athæfi átti að höfða til ungs fólks — kaupa atkvæði þeirra. Það er skemmst frá því að segja að þetta skítatrix virkaði svo vel að Árni Magg rétt marði þingsetu og hófst handa við að framkvæma.

Í dag eru vextir af húsnæðislánum 4,9%. Við þá má bæta verðbólgunni og samanlagt verða til hærri raunvextir en giltu áður en Framsókn hjólaði í atkvæðakaupin og óreyndir létu glepjast. Aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að eignast húsnæði og margir hafa orðið illa úti í þessari harðvítugu baráttu. Hliðaráhrifin af ruglinu eru þau að þensla hefur aukist verulega og var þó varla á bætandi með stórvirkjana- og álverssyndrómi Framsóknarlúðanna. Samanlagt hefur þessi della valdið Íslendingum stórum vandræðum og seilst djúpt í pyngjur almennings.

Þegar þetta er nefnt er ekki verið að tíunda gripdeildir Framsóknarflokksins í einkavæðingunni. Gleymið ekki glottinu á Finni Ingólfssyni, sem er púkinn sem hefur aldeilis fitnað á fjósbita Framsóknar. Gleymið heldur ekki arfinum hans Halldórs. Hvar í veröldinni hefði það verið látið viðgangast átölulaust að stjórnmálamaður hafi komið upp kerfi sem gerði hann og ættmenni hans filhty rich?

Lærið af þessu, landar góðir, og látið ekki Framsókn glepja ykkur. Í komandi sveitarstjórnarkosningum er ykkur boðið upp á mann sem er huggulegri en Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson samanlagt. Ekki láta glepjast. Hann er ekkert betri en þeir, þrátt fyrir smælið og huggulegheitin. Maðurinn sem borgar (með einum eða öðrum hætti) er Finnur Ingólfsson. Núna gefst sögulegt tækifæri til að leggja Framsókn niður og moka flórinn, sem er eina rökrétta niðurstaðan. Framhaldið er svo auðvitað að kasta rekunum á hræið í næstu alþingiskosningum og jarða þar með mestu tímaskekkju Íslandssögunnar.

Eftir að kúrsinn hefur verið leiðréttur með þessum hætti er hægt að halda áfram til framtíðar.

2006-01-12

Harðsnúin hræsni

Þriðjudaginn 10. janúar 2006 birti DV forsíðufrétt um meint kynferðisbrot Gísla Hjartarsonar fyrrverandi grunnskólakennara á Ísafirði gegn tveimur drengjum sem hann hafði tekið í stuðningskennslu. Fréttinni fylgdi stór mynd af Gísla sem var birt bæði á forsíðu blaðsins og inni í blaðinu. Daginn eftir svipti Gísli sig lífi og sagði í bréfi sem hann skildi eftir sig að ásakanirnar væru ósannar og að hann hefði ekki treyst sér til að horfast í augu við afleiðingar fréttaflutnings DV.

Fréttin um andlát Gísla barst eins og eldur í sinu um allt þjóðfélagið og viðbrögð almennings voru á eina lund. Hvarvetna var fréttaflutningur og ritstjórnarstefna DV harðlega fordæmd. Hafin var undirskriftasöfnun á vefsíðu Deiglunnar að frumkvæði ungliðasamtaka allra stjórnmálaflokka og stúdenta við Háskóla Íslands auk annarra aðila. Seinni part dagsins höfðu ríflega þrettán þúsund manns skráð sig og þá brast vefurinn. Upp úr klukkan eitt eftir miðnætti var talan komin upp í tuttugu þúsund. Þegar hæst hóaði skráði sig einn einstaklingur á hverri sekúndu. Í Kastljósi í gærkvöldi var farið ítarlega yfir málið og rætt við fjölmarga aðila, fólk á förnum vegi, dómkirkjuprest, þingmenn, blaðamenn og báða ritstjóra DV. Að ritstjórunum frátöldum sýndu allir aðilar sterk viðbrögð gegn umræddum fréttaflutningi DV.

Hvers vegna þessi sterku viðbrögð? Það er yfirlýst ritstjórnarstefna DV að birta nöfn og myndir af fólki sem blaðið fjallar um án tillits til niðurstaðna rannsókna eða dóma. Í því efni telja ritstjórar blaðsins sig vera að þjóna sannleikanum og að sú þjónkun leyfi enga tillitssemi í umfjöllun. Þetta kom skýrt fram í máli Jónasar Kristjánssonar í áðurnefndum Kastljósþætti. Blaðið fylgir eigin siðareglum sem annar ritstjóri þess hefur samið og stangast þær að einhverju leyti á við siðareglur Blaðamannafélags Íslands, þó að blaðamenn DV séu þar félagar. DV hefur birt hverja fréttina á fætur annarri sem fjallar um fólk sem er nafngreint og birtar af því myndir án þess að rannsókn mála sé lokið eða dómur fallinn. Þannig hafa margir verið meiddir og margir hafa lýst þessum fréttaflutningi sem röngum, fullum af meinfýsni eða í besta falli ónákvæmum og villandi. Fréttin um Gísla Hjartarson virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn, hugsanlega vegna þeirra afleiðinga sem birting hennar hafði.

Þegar spurt er um ábyrgð hafa flestir bent á ritstjóra, eigendur og jafnvel kaupendur DV. Undir þetta má taka, en þó sýnist mér hlutur ritstjóranna vega þyngst, enda er þeim beinlínis borgað fyrir að bera ritstjórnarlega ábyrgð og málið snýst um ritstjórnarstefnu sem byggir á siðareglum sem annar þeirra, Jónas Kristjánsson, hefur samið sérstaklega fyrir blaðið. Sú staðreynd gerir ábyrgð hans í raun mesta; hinn ritstjórinn er kornungur maður sem virðist reyndar sérstakur áhugamaður um sora og lágkúru og fylgir ákafur línu sem hinn reynslumeiri Jónas hefur lagt. Í Kastljósviðtalinu við Mikael Torfason bergmálaði hann það sem Jónas hafði sagt í spjalli í sama þætti. Og hvað sagði Jónas? Hnípinn og hærugrár barðist hann við að snúa út úr spurningum sem fyrir hann voru lagðar og hanga í því hálmstrái að hann væri að þjóna sannleikanum og það væri góð blaðamennska. Einhverju sinni muldraði hann að allir þeir sem höfðu skrifað undir áðurnefnda áskorun hefðu „einkennilegar skoðanir“. Þúsundir manna hafa „einkennilegar skoðanir“ á þessu máli — en ekki Jónas Kristjánsson! Þetta var átakanlegt dæmi um sjálfumgleði, siðblinda þráhyggju og harðsnúna hræsni.

Auðvitað er DV ákveðin viðskiptahugmynd; að gefa út blað með ákveðnum áherslum sem höfða til persónuáhuga fólks og lægri hvata. Jónas vill svo göfga þessa hugmynd með reglum sem hann segist hafa smíðað að fyrirmynd erlendra sorprita, eins og það sé trygging fyrir einhverjum gæðum. Þetta er hin harðsnúna hræsni.

Fréttin um Gísla Hjartarson getur ekki talist góð blaðamennska frá neinum sjónarhóli, ef frá er talinn siðblindur sjálfbirgingsháttur ritstjóranna. Í fréttinni er talað um að atburðir muni hafa gerst á heimili Gísla og að „sögusagnir af kynferðislegu ofbeldi hans gegn unglingspiltum [hafi] gengið á Ísafirði lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert.“ Auk þess er mikið gert úr því að Gísli hafi verið einhentur, eins og það komi málinu sérstaklega við. Í fréttinni segir orðrétt: „Lögreglan á Ísafirði vildi hvorki játa né neita því að mál Gísla Hjartarsonar væri til rannsóknar.“ Samt er síðar fullyrt að rannsókn í málinu sé komin á „fullt skrið.“ Ef þetta er góð blaðamennska, hvernig er þá vond blaðamennska? Auk þess er framsetning fréttarinnar með stóruppslætti á forsíðu ekki í neinu eðlilegu samræmi við efni máls sem er órannsakað, ósannað og ódæmt. Með þessari framsetningu er verið að fella harðan dóm — þrátt fyrir að Jónas hafi ekki þóst vera að fella dóma í Kastljósinu í gærkvöldi. Sú fullyrðing er hins vegar, eins og annar málflutningur hans þar, vitnisburður um siðblindu og hræsni hans sjálfs.

Hvað hefði orðið upp á teningnum ef mál Gísla hefði verið rannsakað til hlítar og niðurstaðan sú að hann væri saklaus? Þá hefði staðið eftir þessi makalausa frétt DV með nafni og myndbirtingu. Það getur verið erfitt fyrir mann að snúa sig út úr slíkri stöðu. Og hvað þá með sannleikann? Myndi Jónas Kristjánsson og DV slá því upp með viðlíka hætti að maðurinn hafi verið saklaus og fréttaflutningurinn ótímabær og tilhæfulaus? Það væri þá sannleikurinn í málinu — yrði hann látinn kyrr liggja? Samkvæmt siðareglunum snilldarlegu gæti það ekki gengið upp.

Engum heilvita manni dettur í hug að Jónas Kristjánsson eða DV séu handhafar sannleikans í þessu órannsakaða máli eða í öðrum málum sem DV hefur slegið upp með viðlíka hætti. Því fer víðsfjarri. Þeir eru heldur engir sérstakir talsmenn meintra þolenda, þeir eru fyrst og síðast að selja blaðið sitt með þessum ófyrirleitna hætti. Sannleikurinn getur verið snúinn og erfiður viðfangs. Að byggja siðareglur og ritstjórnarstefnu á að þykjast vera handhafi sannleikans er rugl. Enginn hefur bréf upp á algildan sannleika eða er þess umkominn að tala einn í nafni hans.

Einhvern tímann var sagt að ástæða væri til að óttast Grikkina þegar þeir kæmu gjöfum hlaðnir. Þegar menn eins og Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason mæta með sannleikann upp á vasann er sannarlega ástæða til að hafa varann á.