2008-01-28

Strámann og Grámann

Styrmir Morgunblaðsritstjóri, sem hefur líklega aldrei náð sér eftir kalda stríðið, stundar í hverjum leiðaranum eftir annan leik sem sumir Sjálfstæðismenn hafa gert að viðteknum vinnubrögðum sínum síðustu misserin. Þessi leikur, sem má kannski best lýsa með orðtakinu „við skulum frekar en verða bit, velta röngu og svíkja lit“, hófst til sérstakrar virðingar í valdatíð Davíðs Oddssonar, sem lýsti einu afbrigði hans í sjónvarpsviðtali.  Eftir það viðtal var komið nafn á þetta afbrigði: smjörklípuaðferð.  Finnur Vilhjálmsson bregður nýju ljósi á þessa eftirlætisiðju Styrmis og hans nóta í athyglisverðri grein og þar kemur í ljós að aðferðin er þekkt úr úr rök- eða mælskulist og kallast að búa til strámann.

Styrmir hefur ítrekað haldið því fram að Samfylkingin standi á bak við sérstaka aðför sem hann segir gerða að Ólafi F. Magnússyni án þess að hann geri minnstu tilraun til að rökstyðja þessar fullyrðingar sem eru auðvitað algjörlega tilhæfulausar.  Engir hafa verið duglegri að gera veikindi Ólafs að umræðuefni en einmitt Sjálfstæðismenn.  Engu að síður situr Styrmir úti í móa og mótar sinn strámann af hatramri elju.

En það sitja fleiri við strámannsgerð en nátttröllið í Hádegismóum. Í öðru garðshorni situr Björn Bjarnason og tekur strámanni Styrmis fagnandi og gerir að sínum; grámanni. Björn reynir heldur ekki að styðja grámann sinn rökum, en fimbulfambar og fullyrðir út í eitt út frá þessum uppvakningi þeirra Styrmis. Þetta er heldur grátt gaman hjá þeim félögum og sýnir hversu ómerkilegur málflutningur þeirra er.  Tilgangurinn helgar meðalið.  Ég snýti mér í forakt.
 

2008-01-24

Setjum stjórnmálamönnum siðareglur

Sífellt er talað um að stjórnmál snúist um traust og það get ég sannarlega tekið undir. En eru stjórnmálamenn trúverðugir og getum við treyst þeim? Hér eru fáein nýleg dæmi sem benda ekki til þess:

  • Rannsókn Center for Public integrity hefur leitt í ljós að George Bush og hans nótar létu frá sér fara 935 rangar yfirlýsingar á tveggja ára tímabili eftir 11. september 2001. Þessar yfirlýsingar snerust um hættu sem átti að stafa af Írak á valdatíma Saddam Hussain (sjá einnig hér). Stuðningur íslenskra stjórnvalda var m.a. rökstuddur með þessum röngu staðhæfingum.
  • Það hefur komið fram að Ólafur F. Magnússon, sem nýlega myndaði nýjan meirihluta í Reykjavík með Sjálfstæðisflokknum, fullyrti margsinnis bæði við Dag B. Eggertsson og Margréti Sverrisdóttur að ekkert væri til í sögusögnum um að hann stæði í meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn mánudaginn 21. janúar s.l. Nú er öllum ljóst að þar fór hann ekki með rétt mál.
  • Því hefur verið haldið fram að Vilhjálmur Vilhjálmsson og Kjartan Magnússon hafi sagt Ólafi að ef hann makkaði ekki með þeim, myndu þeir mynda meirihluta með VG. Vilhjálmur hefur neitað þessu (hver trúir honum eftir það sem á undan er gengið?), en Ólafur hefur sagt að hann hafi skilið umræðuna þannig að fleiri ættu möguleika á meirihlutamyndun með Sjálfstæðisflokknum en hann einn.
  • Skipun héraðsdómara fyrir norðan og austan hefur verið varin af dæmafárri ósvífni. Settur dómsmálaráherra hefur ráðist á dómnefndina í fjölmiðlum og forsætisráðherra segir á Alþingi Íslendinga að gagnrýni Sigurðar Líndal á þessa ráðstöfun sé honum til minnkunar. Er ekki verið að snúa öllu á hvolf hérna, rétt eina ferðina? Á sama tíma og lögfræðimenntaður Sjálfstæðismaður, Sigríður Andersen, segir á háskólafundi að best væri að draga dómnefndina inn í dómsmálaráðuneytið kemur í ljós að á öðrum Norðurlöndum er vægi dómnefnda miklu meira en hér tíðkast. Svipaða sögu er að segja af öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Hér erum við Íslendingar aftarlega á merinni og þurfum að taka okkur á. Hugmyndir Sigríðar eru augljóslega fjarstæða og greinilega eingöngu hugsaðar til að auka enn áhrif dómsmálaráðherra á skipun dómara. Dómarafélag Íslands hefur ályktað „að ráðherra beri við skipun í dómaraembætti að hafa hliðsjón af umsögn dómnefndar þótt hann sé ekki bundinn af henni.“ Í sama streng hafa tekið fjölmargir lögmenn og fræðimenn. Samt er þverskallast.
Við þetta verður ekki unað lengur. Almenningur í landinu verður að rísa upp og taka stjórnmálamennina á beinið. Það þarf að fara fram endurmat á pólitískri starfsemi í landinu og treysta stoðir lýðræðisins. Stjórnmálamenn hafa ítrekað hagað sér með þeim hætti að þeim er ekki lengur treystandi. Kjósendur þurfa að setja stjórnmálamönnum strangar siðareglur og sjá til þess að þeir hafi þær í heiðri.

Fulltrúar mínir á Alþingi, í ríkisstjórn eða í sveitarstjórn eiga ekki að ljúga, hafa rangt við, þjóna einkavinum, snúa út úr og stunda orðhengilshátt í orðræðu, beita bellibrögðum og fara á svig við vandaða stjórnsýslu. Ég hafna valdabrölturum, þeir hafa ekki mitt umboð til skrípaláta og oflátungsháttar. Mínir fulltrúar eiga að vinna fyrir fólkið sem kaus þá - fyrir almenning í landinu og ekki sinna öðrum hagsmunum. Verði þeim á í messunni eiga þeir að segja af sér og aðrir fulltrúar að koma í þeirra stað.