2007-05-14

Nú reynir á Geir

Nú er spennandi kosninganótt að baki og niðurstaðan liggur fyrir: stjórnin hélt velli með mjög nauman meirihluta og sú staða skrifast aðallega á meingallað og óréttlátt kosningakerfi.

Sigurvegarar kosninganna eru Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð, en Samfylking og Framsókn biðu ósigra. Samfylkingin tapaði í öllum kjördæmum og hlýtur það að vera áhyggjuefni, jafnvel þó benda megi á að flokkurinn hafi stöðugt unnið á undir lok kosningabaráttunnar. Lexía Samfylkingarinnar hlýtur að vera sú að nú eigi menn að snúa bökum saman og vinna vel saman sem órofa heild allt næsta kjörtímabil.

Útreið Framsóknar hefur tæpast verið verri frá upphafi vega. Fyrir kosningarnar höfðu ýmsir framsóknarmenn, m.a. tveir ráðherrar flokksins (Guðni og Valgerður) talað mjög skýrt um að flokkurinn yrði að fá góða útkomu úr kosningum til að geta haldið áfram stjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokknum. Það kom því ekki á óvart á kosninganótt að formaður Framsóknarflokksins talaði í þá veru að það væri tæpast lýðræðislegt fyrir flokkinn að setjast í stjórn eftir þá útreið sem var að birtast í tölum næturinnar. Hitt var býsna undarlegt að heyra bæði hann og Guðna varaformann hringsnúast í afstöðu sinni og tala í þveröfuga átt eftir að ljóst var að stjórnin félli ekki. Þetta er auðvitað afskaplega ótrúverðugt og sýnir niðurlægingu Framsókn hvað skýrast. Þar er engin reisn eftir og því er kannski bara best að Framsókn renni sitt skeið á enda og minnki enn meira eða hverfi alveg í næstu kosningum.

Mér finnst ekki koma til greina að mynda vinstri stjórn (Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar) við þessar aðstæður. Framsókn var hafnað og á ekki að taka þátt í stjórn. Samfylking og Vinstri grænir gagnrýndu Framsókn réttilega og eiga því ekkert að biðla til þeirra með eitt eða neitt. Sterkasta stjórnin yrði auðvitað stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og ef rétt væri á spilum haldið gæti slík stjórn orðið býsna farsæl. Forspár Ögmundar Jónassonar um slíka stjórn eru fráleitar og með öllu órökstuddar.

Eitt er víst: Geir er með trompin á hendi og nú reynir fyrst verulega á hæfni hans sem stjórnmálaleiðtoga. Hvernig spilar hann úr þessari stöðu? Reynist hann skarpskyggn eða glámskyggn á framtíðina? Sér hann óvænta möguleika og snjalla leiki í stöðunni? Ég bíð spenntur eftir ákvörðun Geirs Hilmars.

2007-05-12

Alþingiskosningar 2007


Þá er komið að því; kosningadagurinn er runninn upp og komið að því að kjósa. Það vefst auðvitað ekki fyrir mér.

Kosningabaráttan hefur ekki verið af því tagi að menn gangi að kjörborði blóðugir upp til axla eftir hatrömm átök og það kannski eins gott. Samt eru ýmsar rósir sem finna má í fjólugarði kosningabaráttunnar, eða eigum við kannski að segja arfaklær. Heimskulegasta orðræða þessa tímabils var án efa bloggfærsla Ástu Möller um forseta Íslands. Úreldingarverðlaunin fær Geir Haarde fyrir klisjuna um að vinstri stjórn væri það versta sem fyrir gæti komið. Þessi orð virka sérstaklega ankannalega úr munni Geirs sem öðrum fremur ber ábyrgð á háum vöxtum, mikilli verðbólgu og skattpíningu okkar minnstu bræðra. Hann hefur ekki einu sinni menntunarskort sér til afbötunar því hann er hagfræðingur - en stóð að þessu samt! Svo spyr hann í heilsíðuauglýsingum hverjum sé treystandi. Svarið liggur í augum uppi: ekki honum, sem hafði tækifærin og nýtti þau ekki.

Nei, það vefst ekki fyrir mér hvað á að kjósa. Ég er stoltur jafnaðarmaður og kýs þess vegna Samfylkinguna. Hér að ofan er raunsæ spá mín um úrslit kosninganna, en ég vona að Samfylkingin fái jafnvel meira fylgi en þarna er sýnt og að útreið Framsóknar verði sýnu verri en hér er spáð.