2010-01-05

Synjun forsetans

Hinn 30. desember 2009 samþykkti Alþingi Íslendinga með 33 atkvæðum gegn 30 lög um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Í morgun neitaði forseti Íslands að staðfesta þessi nýju lög.

Persónulega er ég afar ósáttur við þessa ákvörðun forsetans, þótt ég véfengi ekki að 26. gr. stjórnarskrár Íslands veiti honum rétt til að taka slíka ákvörðun, enda mun það orðið óumdeilt meðal fræðimanna í stjórnskipunarrétti eftir því sem Eiríkur Tómasson lagaprófessor sagði í sjónvarpinu í morgun.

Að mínu viti tók forsetinn ranga ákvörðun og í yfirlýsingu hans eru mikilvægir veikleikar að mínu mati.

Það er ekki ástæða til þess að vísa öllum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og milliríkjasamningur af þessu tagi er ekki til þess fallinn. Þetta hafa ýmsir bent á og síðast Eiríkur Tómasson í morgun. Þetta hefði forsetinn mátt íhuga og taka afstöðu til í yfirlýsingu sinni.

Mér finnst forsetinn gera of mikið úr þeim áskorunum sem InDefence hefur safnað, þar sem framkvæmd þeirrar söfnunar hefur verið vægast sagt vafasöm. Þá var spurningin sem lögð var fyrir fólk villandi því gefið var í skyn að tekist væri á um hvort borga ætti Icesave skuldir eða ekki. Slíkir valkostir eru raunverulega ekki í boði. Með því að taka mark á svona framkvæmd er forsetinn að gera óvönduðum vinnubrögðum óþarflega hátt undir höfði og skapa slæmt fordæmi sem lýðskrumarar gætu vísað til og nýtt sér.

Í yfirlýsingu forseta segir: „Þá sýna yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafa borist frá einstökum þingmönnum að vilji meirihluta alþingismanna er að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.“ Þetta er tvímælalaust veikasti hlekkurinn í röksemdafærslu forsetans. Alþingi hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í sérstakri atkvæðagreiðslu. Það er því fráleitt að taka óljósar yfirlýsingar einstakra þingmanna fram yfir þá samþykkt sem liggur fyrir.

Og hver er þá staðan eftir synjun forsetans? Við sitjum uppi með lausn (lög nr 96/2009) sem viðsemjendur okkar (Bretar og Hollendingar) hafa hafnað; með öðrum orðum: enga lausn. Við munum ekki sækja gull í greipar Breta sem eru að fara í kosningar og myndu fagna því að fara í slag við okkur um Icesave. Hollendingar eru ekki árennilegir heldur. Og Icesave hverfur ekki, eins og fjármálaráðherra hefur margsagt.

Synjun forsetans hefur því sett endurreisnarstarf réttkjörinnar ríkisstjórnar landsins í mikið uppnám að ástæðulausu og gert leiðina út úr kreppunni erfiðari en hún hefði þurft að vera. Það var mikið óþurftarverk.

Ég er sammála Eiríki Tómassyni um að í þessari stöðu væri best að ríkisstjórnin drægi lögin til baka og leitaði eftir að fá traustan erlendan aðila til að gerast sáttasemjari í þessari deilu. Og þá getum við bara vonað að kostir okkar verði ekki verri en okkur stóðu til boða fyrir klukkan ellefu í morgun.