2008-05-22

John Fogerty í Laugardalshöll

Tónleikarnir hans John Fogerty í Laugardalshöllinni 21. maí 2008 voru meiriháttar! Hann lét svolítið bíða eftir sér strákurinn, sirka þrjú korter eða svo, en svo kom hann á svið með þetta líka dúndur band og síðan var ekki slegið af en keyrt á fullu í tvo tíma stanslaust. Á þeim tíma tók hann mörg af gömlu góðu CCR lögunum, Bad moon rising, Susie Q, Who’ll stop the rain, Commotion, Down on the corner, Travelin’ band, Run through the jungle, Lookin’ out my back door, I heard it through the grapewine (með löngum og dásamlegum impróvision kafla), Good Golly Miss Molly, Wrote a song for everyone, Cotton fields, ofl ofl. Þegar hann taldi í Have you ever seen the rain ætlaði allt að verða vitlaust í höllinni og hann fylgdi því eftir með fleiri góðum lögum eins og The Midnight special. Þegar hann var klappaður á svið tók hann Rockin’ all over the world af þrumukrafti sem lyfti þakinu á Laugardalshöllinni.

Bandið hans er stórkostlegt. Baklandið er borið uppi af einhverjum besta trommara sem ég hef heyrt í (Kenny Aronoff, sem hefur reyndar trommað með helstu stórmennum rokksögunnar) og snilldar bassista (Dave Santos). Síðan eru tveir þéttir gítarleikarar (Hunter Perrin og Billy Burnette, sem lék með Fleetwood Mac á árunum 1987-1995) sem spila eins og englar, tveir þúsundþjalasmiðir sem spila á ýmis hljóðfæri eins og hljómborð, kassagítar, rafgítar (NN), slidegítar, mandólín og fiðlu (Jason). Fyrir þessari úrvalssveit fer svo snillingurinn John Fogerty sem aðal sólógítarleikari og söngvari sveitarinnar og sýndi og sannaði að hann er afburða gítarleikari sem hefur sinn sérstaka, dálítið þunglamalega, en hreina og tæra stíl og sánd sem enginn annar nær. Hann sagði víst einhvern tímann að rödd hans væri einstakt hljóðfæri og mér finnst að það hljóðfæri sé eins og Stradivarius og batni bara með aldrinum. Hann er einhver besti söngvari rokksögunnar að mínu mati. Tímaritið Rolling Stone hefur sett hann í 40. sæti yfir bestu gítarleikara allra tíma. Það var því enginn aukvisi sem steig á svið Laugardalshallarinnar klukkan 21:50 miðvikudagskvöldið 21. maí 2008.

Líf John Fogerty hefur ekki alltaf verið dans á rósum þó að það hann dansaði með hvern gítarinn á fætur öðrum um sviðið í Laugardalshöllinni í kvöld eins og unglingur. Í bláköflóttri skyrtu og gallabuxum, grannur og spengilegur, spilaði hann eins og sá sem valdið hefur og stjórnaði hljómsveitinni eins og herforingi. Eftir slétta viku heldur hann upp á 63 ára afmælið sitt og hefur á þeim tíma marga fjöruna sopið.

John fæddist í Berkeley í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum 28. maí 1945. Seint á sjötta áratugnum stofnaði hann hljómsveit ásamt eldri bróður sínum, Tom Fogerty (1941-1990), Doug Clifford og Stu Cook. Hljómsveitin hét upphaflega Tommy Fogerty and the Blue Velvets, breytti um nafn 1965 og kallaðist The Golliwogs. Árið 1968 sló sveitin loks í gegn með laginu Susie Q eftir John Fogerty og hafði þá fengið nafnið Creedence Clearwater Revival (CCR). Síðan kom hver smellurinn eftir annan úr smiðju John Fogerty þar til sveitin leystist upp um 1972, aðallega vegna óánægju hljómsveitarmeðlima með velgengni John Fogerty.

Ári seinna hóf John sólóferil sem hefur staðið allar götur síðan. Sá ferill hefur alls ekki verið sléttur og felldur og John hefur marga hildi háð, m.a. í réttarsölum vegna laga sinna. Ágreiningur reis með þeim bræðrum, John og Tom, sem aldrei jafnaðist og lagðist þetta ástand þungt á John ekki síst þegar Tom bróðir hans andaðist úr berklum árið 1990. Árið 1993, þegar CCR tekin inn í Rock and Roll Hall of Fame, neitaði John að spila með fyrrum félögum sínum úr CCR, Stu Cook og Doug Clifford, en lék þess í stað þrjú CCR lög, Who'll Stop The Rain, Born On The Bayou og Green River með Don Was (á bassa), Robbie Robertson (á gítar), Jim Keltner (á trommur) og Bruce Springsteen (söngur og gítar). Þetta segir kannski meira en mörg orð um samkomulagið í CCR undir það síðasta.

Á sólóferli sínum hefur John Fogerty a.m.k. tvisvar sinnum átt frábærar innkomur á rokksviðið og á allra síðustu árum hefur hann notið mikillar velgengni. Nýjasta platan hans, Revival, kom út 2. október 2007 og var hún tilvefnd til Grammy verðlauna 2008. Fogerty hefur fylgt henni eftir með hjómleikaferð um Ástralíu og núna um Evrópu. Á fimmtudaginn spilar hann í Stokkhólmi og þaðan geysist þessi hæfileikaríki reynslubolti um Evrópu þvera og endilanga, heldur síðan til Bandaríkjanna og telur í síðasta lagið í Aspen, Colorado, 31. ágúst 2008.

John Fogerty og Grímur Atlason: hjartans þakkir frá okkur Stebba.