2005-12-31

Arfaslakt áramótaskaup

Ég man ekki eftir verra áramótaskaupi en því sem ég var að horfa á rétt í þessu. Þetta var bara ekkert fyndið. Það vantaði tengingu við atburði ársins sem er að líða að mestu leyti. Og atriðin þegar Laddi elti Eddu Björgvins í Kringlunni er hundgamall Gervabælishúmor sem bókstaflega stinkar. Mér fannst þetta vera aðallega einkaflipp leikstýrunnar — fátt um uppgjör atburða síðasta árs þó af nógu væri að taka.

Annað dæmi um smekkleysu liðins árs er val NFS á manni ársins. Að velja Davíð Odddson er ekki bara smekklaust, heldur hnefi í andlit íslensku þjóðarinnar. Er hægt að leggjast lægra í undirlægjuhætti og smjaðri og tilraunum til þess að þykjast vera óháður eigandanum — hvað haldiði að við séum?

2005-10-18

Götustrákur gengur á dyr

Davíð Oddsson lét formlega af embætti formanns Sjálfstæðisflokksins s.l. sunnudag. Þó að samherjar hafi mært hann af mikili kurteisi þá er öllum ljóst að þungu fargi er af mönnum létt. Það gildir bæði um samherja og andstæðinga.

Davíð Oddsson byrjaði stjórnmálaafskipti sín á götum úti og tileinkaði sér fljótt orðbragð og framgöngu götustráksins. Viðhlæjendur hans í borgarstjórn komu þeirri grillu í hausinn á honum að hann væri óskaplega orðheppinn; gott ef ekki fyndinn. Það var óþurftarverk því síðan hafa vandræðalegir tilheyrendur iðulega mátt tvístíga og rembast við kreista upp úr sér hláturlíki þegar aulafyndnin hefur bunað út úr Davíð. Það gerðist helst þegar hann var í góðu skapi. Þegar illa stóð í bælið hans hreytti hann fúkyrðum í allt og alla. Sérstaklega var honum uppsigað við fjölmiðla. Það kom til löngu áður en Baugur fór að kaupa hlutabréf í fjölmiðlum. Þegar R-listinn vann Reykjavíkurborg í annað sinn þá var það fjölmiðlunum að kenna og götustrákurinn jós úr skálum reiði sinnar yfir blásaklausan fréttamann ríkissjónvarps sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Nærri má geta hvaða áhrif þessi framkoma hafði á fjölmiðlamenn yfirleitt, enda voru refirnir til þess skornir.

Að hætti götustráksins kom Davíð sér upp gengi. Einn helsti vinurinn hafði traustatök á flokksapparatinu. Síðan voru helstu skrafskjóðurnar í vinahópnum munstraðar í hlutverk blóðhunda, sem þeir tóku fúsir að sér að glefsa í hvern þann sem lét í ljós ótilhlýðilegar skoðanir, var ekki foringjanum nógsamlega undirdánugur eða efaðist um orð hans og gerðir. Sjálfur tók höfuðpaurinn að sér að lemja nokkra óþekktaranga leiftursnöggt í hausinn og vílaði jafnvel ekki fyrir sér að leggja niður heilu stofnanirnar sem voru honum ekki að skapi. Þessar aðfarir sköpuðu ótta sem lagðist eins og mara yfir þjóðfélagið.

Eins og aðrir götustrákar var hann hvað breiðastur þegar hann var með genginu sínu. Á hallelújasamkomum í flokknum var hann örlátur á fimmaurabrandarana og hreytti ónotum í andstæðingana. Hann þorði hins vegar ekki að mæta þeim í kappræðum í fjölmiðlum; lét sér nægja að senda mönnum tóninn og hlustaði ekki eftir andsvörum. Rétt eins og götustrákurinn sem æpir ókvæðisorð að vegfarendum, en mætir ekki á fundi eða kappræður.

Fyrir tilverknað Davíðs varð pólitíkin harðari og ómálefnalegri. Hann neytti aflsmunar hvenær sem færi gafst og lét kné fylgja kviði. Reynt var að lemja rétttrúnaðinn í gegn sem víðast. Þegar gengi foringjans varð uppvíst að afglöpum þá var þrætt fram í rauðan dauðann og öllu snúið á hvolf - svart varð hvítt og öfugt.

Enn einn eiginleiki götustráksins sem einkennir Davíð ríkulega er ósvífnin. Þannig hefur hann iðulega haldið fram alls konar dellu og komist upp með það af því að enginn hefur þorað að reka ofan í hann þvæluna. Hámarki ósvífninnar náði Davíð áreiðanlega með bolludagsbulli sínu og hlýtur að vera fáheyrt að forsætisráðherra þjóðar þylji slíka einkabrandara í ríkisútvarp. Einnig einkenndist öll framganga hans í fjölmiðlamálinu á síðasta ári af ósvífni og offorsi.

Það er því engin furða þó að götustrákurinn haldi sér við sinn leist þó hann yfirgefi samkvæmið og snúi sér jafnvel við í dyrunum til að þeyta úr sér beiskum glósum. Að stíga fæti á þröskuld veldur ekki eðlisbreytingum hjá nokkrum manni. Eðlilega er engin reisn yfir slíkum endalokum, enda ekki við því að búast. Menn varpa öndu léttara og lofta út þegar dóninn er farinn.

Nú hefur götustrákurinn gengið á dyr eftir að hafa undir það síðasta skarað eldi að sinni eigin köku með fáheyrðri græðgi. Hann heldur keikur leiðar sinnar með hendurnar djúpt í vösum almennings.

2005-10-07

Orð og ábyrgð

Jón Ólafsson hefur unnið meiðyrðamál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í Bretlandi. Málsatvikum er lýst í frétt á Mbl.is með svofelldum hætti:

Enskur dómstóll hefur dæmt Hannes Hólmstein Gissurarson til að greiða Jóni Ólafssyni, kenndum við Skífuna, um 11 milljónir króna vegna ummæla sem Hannes Hólmsteinn lét falla á ráðstefnu norræna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og birti síðan á heimasíðu sinni. Fjárnámskrafa Jóns til fullnustu dómsins verður tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík í dag.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það lykilatriði í málaferlum Jóns ytra að útdráttur úr erindinu var birtur á ensku á heimasíðu Hannesar Hólmsteins og af þeim sökum hefði myndast grundvöllur fyrir málaferlum í Englandi.

Alls hljóðar krafa Jóns Ólafssonar upp á 11 milljónir með kostnaði.

Af hálfu Hannesar Hólmsteins er kröfunni mótmælt og má gera ráð fyrir að málið verði útkljáð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn þarf m.a. að taka afstöðu til þess hvort skilyrði Lugano-samningsins séu uppfyllt en hann kveður á um að dómar í einkamálum í aðildarríkjum séu viðurkenndir á milli landa. Bæði Ísland og Bretland eru aðilar að sáttmálanum.

Heimild: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1161947

Í fréttinni segir Hannes að hefði hann „ákveðið að taka til varna í Englandi hefði hann að sjálfsögðu verið sýknaður enda hefði hann einungis sagt það sem væri satt og rétt; því hefði margoft verið haldið fram að Jón Ólafsson hefði auðgast á vafasaman hátt.“

Hefur Hannes, eða einhver annar, nokkurn tímann sýnt fram á með traustum rökum að Jón Ólafsson hafi auðgast á vafasaman hátt, að ekki sé minnst á haldgóðar sannanir? Nei alls ekki, enda vísar Hannes í einhvern óskilgreindan almannaróm. Það eru hvorki traust rök né haldgóðar sannanir. Því eru þessi ummæli Hannesar auðvitað dylgjur og rógburður. Það ætti Hannes best að sjá þar sem hann hefur, ásamt ýmsum lagsbræðrum sínum, verið duglegur að tala um dylgjur hjá öðrum; oftast af minna tilefni og á veikari forsendum. Fullyrðing Hannesar um að hann hefði unnið málið hefði hann tekið til varna er því líklega óskhyggja eða blekking til að slá ryki í augu fólks. Auk þess má spyrja: hefði verið kostnaðarsamt fyrir Hannes að vinna málið þar ytra? Hefði þá málskostnaðurinn ekki fallið á Jón Ólafsson?

Hannes segir að „sér fyndist fráleitt að hægt væri að draga hann fyrir dóm í Englandi fyrir ummæli sem hann lét falla hér á landi.“ Í fréttinni á Mbl.is segir að ummælin hafi verið látin falla á ráðstefnu norrænna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og síðan birt á ensku á heimasíðu Hannesar. Birting á veraldarvefnum er alþjóðleg. Augljóst er því að ummælin féllu og voru birt á opinberum og alþjóðlegum vettvangi á alþjóðlegu tungumáli og því var grundvöllur fyrir málssókn Jóns á hendur Hannesi, enda hefði Hannes ella ekki verið dæmdur. Með því að gefa í skyn að það sé á einhvern hátt ranglátt að dæma Hannes í Bretlandi fyrir ummæli sem féllu á Íslandi er aftur reynt að slá ryki í augu fólks.

Í títtnefndri frétt Mbl.is segir að hin stefndu ummæli hafi verið á heimasíðu Hannesar á tímabilinu 1999 til 2004 þegar Hannes lokaði síðunni „til að losna við þetta stríð við Jón Ólafsson“. Þetta eru sérkennileg ummæli í ljósi þess að Það er fyrst og fremst Hannes sem hefur verið óþreytandi að tjá sig um Jón Ólafsson opinberlega og þá yfirleitt til að útmála hann sem skúrk með einum eða öðrum hætti. Ég minnist þess ekki að hafa séð Jón tjá sig um Hannes opinberlega með viðlíka hætti eða að sambærilegu umfangi, þó að það kunni að hafa farið fram hjá mér.

Hannesi finnist skrýtið að Jón höfði málið í Bretlandi, en þar býr Jón reyndar, samkvæmt fréttum. Það sem upp úr stendur er að niðurstaða málsins er fengin samkvæmt gildandi leikreglum, þ.e. breskum lögum og niðurstöðum þarlendra dómstóla sem Ísland hefur skuldbundið sig með samningum til að hlíta og við það situr.

Þegar kjarni málsins hefur verið greindur frá hisminu sem Hannes þyrlar upp, þá stendur þetta eftir: Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur farið með málflutning á hendur Jóni Ólafssyni án þess að geta stutt hann traustum rökum eða haldgóðum sönnunum. Fyrir þetta athæfi hefur hann hlotið dóm sem gæti verið aðfararhæfur að íslenskum lögum.

Hannesi hefur oft orðið tíðrætt um frelsið og örugglega einnig um að því fylgi ábyrgð. Hann hefur sannarlega nýtt sér frelsið með sínum hætti og verið einna ófyrirleitnastur manna í opinberri orðræðu á seinni árum. Þarna er einmitt mergur þessa máls. Hannesi er frjálst að tjá sig eins og honum sýnist, en hann ber líka ábyrgð á orðum sínum. Nú hefur reynt á slíka ábyrgð.

Hitt er svo annað mál að sú upphæð sem Hannesi er gert að greiða er svívirðilega há og hver sá sem þarf að greiða slíka upphæð fyrir ummæli, þó dæmd hafi verið ómerk, á alla samúð mína. Miðað við málsatvik finnst mér að Hannes hafi verið réttilega dæmdur, en tyftaður af óþarfri hörku.

Sjá einnig grein Magnúsar Norðdahl hrl á Djöflaeyjunni.

2005-04-13

Megatöffari sextugur

Það eru bara til tveir töffarar í þessum heimi: Clint Eastwood og Rúnar Júlíusson. Sá síðarnefndi á sextugsafmæli í dag og færi ég honum hugheilar hamingjuóskir með þann merka áfanga.

Það er ekkert auðvelt að skilgreina hvers vegna Rúnar er svona mikill töffari – hann bara er það; í orðsins bestu merkingu. Það segir kannski sína sögu að sá sem segir skilið við fótbolta og afneitar landsliðssæti til að gerast tónlistarmaður er ekki alveg meðaljóninn holdi klæddur. Slíkur maður þekkir sína köllun – og gegnir kallinu.

Rúnar var hetja minna unglingsára allar götur frá því að ég sá hann fyrst á sviði með Hljómum í Menntaskólanum á Laugarvatni á áttunda áratug síðustu aldar og hann hefur staðið í fararbroddi í rokkinu allar götur síðan og aldrei látið deigan síga.

Menn eins og Rúnar Júlíusson auðga tilveruna og gefa lífinu lit - hlýjan lit. Áfram Rúnar!

2005-03-16

Rökleysur spunakerlinganna

Í siðmenntuðu ríki hefði Pétur Gunnarsson, af öllum mönnum, örugglega talist vanhæfur til að greiða atkvæði um fréttastjóra útvarps. Er þetta ekki sami maðurinn og sendi settum fréttastjóra og einum umsækjendanna, Friðriki Páli Jónssyni, argvítugt skammarbréf fyrir skömmu af því að honum fannst fréttastofan þjarma of mikið að forsætisráðherra? Jú, sá er maðurinn – mætti gleiður til atkvæðagreiðslu, enda stund hefndarinnar upp runnin.

Trúir því einhver að ríkisútvarpið hafi nauðsynlega þurft að fá rekstrarmann í stöðu fréttastjóra útvarps? Sagt er að fréttastofan hafi farið fram úr fjárheimildum. Hverjir ættu að bera ábyrgð á því? Fréttastofa útvarps heyrir undir svonefnt fréttasvið sem Bogi Ágústsson stýrir. Ber hann ekki ábyrgð? Var rekstrarreynsla hans lykilatriði þegar hann var ráðinn? Undir sama svið heyrir fréttastofa sjónvarps sem stýrt er af nýlega ráðinni Elínu Hirst? Er hún rekstrarmaður? Það var þó öllu meiri áhersla lögð á rekstrarþáttinn í auglýsingu þegar hún var ráðin.

Skipulega séð væri auðvitað eðlilegast að yfirstjórn fréttasviðsins sýslaði með rekstrarþáttinn fyrir báðar fréttastofurnar svo að fréttastjórar og fréttamenn hefðu frið til að segja okkur fréttir. Eða var það aldrei meiningin? Starfar ekki framkvæmdastjóri fjármáladeildar á RÚV? Hvað er hann að sýsla? Ber hann enga ábyrgð á neikvæðum rekstrartölum? Svo mun vera sérstakur framkvæmdastjóri útvarps, handvalinn af núverandi valdhöfum. Spyrja má um ábyrgð hans á rekstri útvarpsins. Og loks er það æðsti strumpur, Markús Örn útvarpsstjóri. Er honum ekki borgað fyrir að bera ábyrgð á öllu saman? Hvaða rekstrarreynslu hafði hann þegar honum var plantað í stól útvarpsstjóra? Hvernig hefur hann brugðist við þessum mikla rekstrarvanda fréttastofu útvarps sem nú er allt í einu aðalatriði máls? Þarna er hver silkihúfan upp af annarri og allir eiga að sýsla í rekstri. Er þá nauðsynlegt að ráða fréttastjóra útvarps úr röðum rekstrarmanna?

Markús Örn er einn af þeim sem trúir á nauðsyn þess fá rekstrarmann sem fréttastjóra útvarps og lýsti því fjálglega í Kastljósi að þar stæði Auðunn Georg öðrum framar. Í dag fjallar Fréttablaðið um rekstrarreynslu hans og virðist hún helst hafa falist í umsjón með sölustarfi nokkurra umboðsfyrirtækja í Suðaustur-Asíu. Hann hafði engin mannaforráð og fór ekki með rekstur fyrirtækisins. Í munni Markúsar hafði Auðunn Georg „verið forstöðumaður eins framsæknasta fyrirtækis á Íslandi“ og „Auðun Georg hefur verið að stýra þessari starfsemi fyrir þetta stóra fyrirtæki sem er orðið alþjóðlegt fyrirtæki og hefur verið að sækja út á erlendum mörkuðum, fyrir nátttúrlega hönd forystu þess,“ Hvað vissi Markús Örn um raunverulega rekstrar- og stjórnunarreynslu Auðuns? Hvað stóð í umsókn Auðuns? Las Markús hana?

Kannski voru þau sýndarrök Markúsar hlægilegust að Auðunn Georg væri ungur og sprækur en fimmmenningarnir, sem Bogi valdi úr hópi umsækjenda, á miðjum aldri og kannski rúmlega það. Menn eldast við að öðlast reynslu og það er erfitt að komast hjá því. En hver ætlar að stýra RÚV þegar það gengur í endurnýjun lífdaganna í takt við ný útvarpslög? Enginn annar en Markús Örn, sem er að vísu bráðum 62 ára gamall, en samt ótrúlega ferskur! Og sérlega rökfastur.

2005-03-14

Fréttastjóraspuninn

Ráðning fréttastjóra útvarps virðist ætla að draga dilk á eftir sér og kemur það tæpast á óvart eins og að málum var staðið.

Framsóknarflokkurinn, sem taldi sig eiga fréttatjórastöðuna, leitaði lengi með logandi ljósi að hæfum kandídat uns ein spunakerlingin í hópnum mundi alltíeinu eftir sprækum vini sínum í Asíá og hann fékk hann til að yfirgefa markaðsstjórastarf hjá Marel fyrir þessa þungavigtarstöðu. Sá mun einhvern tíma hafa unnið sem fréttamaður, þó að enginn muni eftir því. Út af fyrir sig vitnar þessi örvæntingarfulli skrípaleikur um mannval flokkskrílisins og kemur heldur ekki á óvart. Síðan hófst spuninn. Á bak við felutjöldin var sett saman auglýsing og afgreiðsluvél ríkisstjórnarinnar í útvarpsráði látin vita um vininn spræka. Og af því að spunakerlingar Framsóknar eru ekki spunakerlingar fyrir ekki neitt þá var sýndarmennskan leikin af faglegri innlifun. Umsækjendur voru kallaðir til viðræðna og látnir taka persónuleikapróf eins og þeir ættu séns í vininn spræka, sem auðvitað var ráðinn.

Freyjustaurinn Páll Magnússon, sem ætlar sér að verða næsti bæjarstjóri Kópavogs, var móður eftir tusk við óþægar samflokkskvinnur í sínum heimabæ og taldi réttilega að sletturnar frá skítverkinu myndu ekki auka hróður hans umtalsvert. Hann kallaði því inn varamann úr hópi spunakerlinganna, Pétur nokkurn Gunnarsson, sem beið ekki boðanna og keifaði ákafur á fund útvarpsráðs í kórréttum atkvæðagreiðsluham. Síðan hefur hann spunnið þráðinn í fjölmiðlum og aðallega lagt út af auglýsingunni, sem átti að vera upphafspunktur plottsins. Ekki reyndist það alls kostar vel því að þar var lögð meiri áhersla á ritstjórnarþátt starfsins en í næstu auglýsingu á undan, eins og Broddi Broddason sýndi fram á í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Það var kannski ekki mjög heppilegt þar sem klæðskerinn hafði ætlað að sníða stakkinn utan um meinta yfirburði Auðuns Georgs á rekstrarsviðinu.

Síðan kemur að þætti útvarpsstjórans, sem lögum samkvæmt hefur vald til að ráða í starfið sem auglýst var. Reynslan sýnir að niðurstaða útvarpsráðs er honum enginn fjötur um fót ef svo ber undir. Þannig réði Markús Örn Antonsson Elínu Hirst sem fréttastjóra sjónvarps þó hún hafi fengið þrjú atkvæði í útvarpsráði en Sigríður Árnadóttir fjögur. En Markús Örn situr ekki á sínum útvarpsstjórastóli vegna hæfileika sinna, menntunar eða gjörvuleika yfirleitt, heldur er hann auðsveipur augnaþjónn stjórnvalda og situr í skjóli þeirra svo lengi sem hann er þægur og gerir eins og fyrir hann er lagt – og það gerði hann nú og ævinlega. Öll framganga hans í fréttastjóramálinu undirstrikar þetta. Fyrst reyndi hann að humma málið fram af sér og síðan kom aum málsvörn í Kastljósi sem byggðist helst á því að svívirða eigin starfsmenn og finna þeim flest til foráttu. Svo hlálegt sem það er, þá finnst honum öllu máli skipta að fá ungan og sprækan fréttastjóra útvarps til að leggja hönd á plóg við ferska uppbyggingu ríkisútvarspins sem hann ætlar sjálfur að stýra, 64 ára gamall maðurinn! Heitir þetta ekki að sjá ekki bjálkann í sínu eigin auga?

Framganga minnihluta útvarpsráðs í málinu er ömurleg og þeim sem um ræðir til skammar. Ef Samfylking og Frjálslyndir vilja ekki taka þátt í verkum útvarpsráðs, hvers vegna eru þeir þá að hafa þar fulltrúa? Og það er ekkert system í galskabet því ekki stóð á þátttöku þeirra í atkvæðagreiðslu um ráðningu Elínar Hirst. Það ber dómgreind formanns Samfylkingarinnar ekki fagurt vitni að hann skuli hafa velþóknun á þessari barnalegu framgöngu og ættu Samfylkingarmenn að hafa það á bak við eyrað við komandi formannskosningar.

Allt bendir til að útvarpsráð verði brátt lagt niður, við lítinn orðstí og er það vel. Trúlegast er að Markús Örn fari fljótlega sömu leið, við jafnvel minni orðstí.

2005-01-27

Að berja höfðinu við steininn

Hálfsannleikur oftast er
óhrekjandi lygi.
Stephan G. Stephansson


Það er einkenni þeirra, sem hafa vondan málstað að verja, að beita útúrsnúningi, hálfsannleik, hártogunum og þrætubókarstagli hvenær sem komið er að kjarna slíkra mála. Þetta er löngu orðin viðtekin venja stjórnarherra þessa lands, og þeirra sem helst hoppa í kringum þá. Í hverju málinu á fætur öðru hefur ríkisstjórn landsins misboðið þingi og þjóð með hinum fáránlegasta málatilbúnaði. Og þegar allt er komið í algleyming og aðeins saumað að málflytjendum, þá þeyta þeir bullinu í kringum sig eins og öflugir skítadreifarar. Þannig verður svart iðulega hvítt í málflutningnum og öfugt. Sem dæmi má nefna öryrkjamál, eftirlaunamál þingmanna og ráðherra, fjölmiðlamál og nú síðast Íraksmál. Fáein orð um það síðastnefnda.

Kjarni málsins er þessi:

Bandaríkjamenn sóttust eftir samþykki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til að ráðast inn í Írak, en fengu ekki. Til að hrinda sínum staðföstu áformum í framkvæmd, engu að síður, fengu þeir aðrar þjóðir til að styðja stríðsáform sín – söfnuðu liði. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson samþykktu stuðning Íslands við þessi áform án þess að bera þá ákvörðun undir Alþingi eða utanríkismálanefnd þingsins, sem þeim bar þó lagaskylda til. Ákvörðunin var heldur ekki formlega samþykkt í ríkisstjórn, eða í þeim þingflokkum sem standa að ríkisstjórninni. Með því að ákveða stuðninginn, í hverju sem hann fólst, voru menn að skipa sér meðvitað í fylkingu – fara á lista. Það er svo auðvitað framkvæmdaratriði hvort útbúinn er sýnilegur listi yfir þær þjóðir sem gengu til liðs við stríðsáform Bandaríkjanna og hvort hann er settur á vefsíðu hér eða tekinn út þar. Með því að fylla þennan flokk var gengið gegn ákvörðunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þó aðili að. Það er alvarlegt og meiri háttar utanríkismál út af fyrir sig. Í því sambandi má minna á að Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt Íraksstríðið ólöglegt.

Forsprakkar Íraksstríðsins, Bush og Blair, báru sín stríðsáform undir þjóðþing landa sinna og fengu samþykki þeirra til framkvæmda. Þetta gerðu þeir Davíð og Halldór ekki þrátt fyrir að ríkisstjórn þeirra styðjist við öruggan og sauðtryggan meirihluta á þingi. Hvers vegna ekki? Voru þeir orðnir svo blindaðir af hroka valdsins að þeim fannst ekki taka því að fara með málið fyrir Alþingi og utanríkismálanefnd þess? Eitt dæmi um bullið úr mykjudreifurum stjórnarliðsins er að gagnrýnendur ákvörðunarinnar séu að hengja sig í formsatriði. Hvaða formsatriði? Lög og reglur um þingsköp, leikreglur lýðræðisins – auðvitað eru það formsatriði. Er allt í lagi að gefa skít í þau þegar henta þykir? Eftir hverju á að dæma þegar búið er að gera lög og reglur að nánast óþörfum formsatriðum?

Í nauðvörn fyrir dæmalausu athæfi sínu og endemis klúðri hafa þeir Davíð og Halldór ásamt nokkrum staðföstum og viljugum undirsátum sínum, hrakist um víðan völl í málflutningi sínum. Í þeirri vörn hafa þessir pótintátar náð nýjum hæðum í bulli ergelsi og firru og var þó langt seilst í þá átt í sumar sem leið. Eftir allan hamaganginn stendur liðið eftir með allt niðrum sig og fálmar út í loftið eftir hálmstráum hér og þar. Haldi þessir menn að íslenskur almenningur trúi þeirra dæmalausu þvælu og sjái ekki í gegnum ruglandann, þá fer því víðsfjarri, eins og skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt. En þessir tréhestar læra aldrei neitt – sennilega af því að þeir eru svo uppteknir við að berja höfðinu við steininn.