2005-10-18

Götustrákur gengur á dyr

Davíð Oddsson lét formlega af embætti formanns Sjálfstæðisflokksins s.l. sunnudag. Þó að samherjar hafi mært hann af mikili kurteisi þá er öllum ljóst að þungu fargi er af mönnum létt. Það gildir bæði um samherja og andstæðinga.

Davíð Oddsson byrjaði stjórnmálaafskipti sín á götum úti og tileinkaði sér fljótt orðbragð og framgöngu götustráksins. Viðhlæjendur hans í borgarstjórn komu þeirri grillu í hausinn á honum að hann væri óskaplega orðheppinn; gott ef ekki fyndinn. Það var óþurftarverk því síðan hafa vandræðalegir tilheyrendur iðulega mátt tvístíga og rembast við kreista upp úr sér hláturlíki þegar aulafyndnin hefur bunað út úr Davíð. Það gerðist helst þegar hann var í góðu skapi. Þegar illa stóð í bælið hans hreytti hann fúkyrðum í allt og alla. Sérstaklega var honum uppsigað við fjölmiðla. Það kom til löngu áður en Baugur fór að kaupa hlutabréf í fjölmiðlum. Þegar R-listinn vann Reykjavíkurborg í annað sinn þá var það fjölmiðlunum að kenna og götustrákurinn jós úr skálum reiði sinnar yfir blásaklausan fréttamann ríkissjónvarps sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Nærri má geta hvaða áhrif þessi framkoma hafði á fjölmiðlamenn yfirleitt, enda voru refirnir til þess skornir.

Að hætti götustráksins kom Davíð sér upp gengi. Einn helsti vinurinn hafði traustatök á flokksapparatinu. Síðan voru helstu skrafskjóðurnar í vinahópnum munstraðar í hlutverk blóðhunda, sem þeir tóku fúsir að sér að glefsa í hvern þann sem lét í ljós ótilhlýðilegar skoðanir, var ekki foringjanum nógsamlega undirdánugur eða efaðist um orð hans og gerðir. Sjálfur tók höfuðpaurinn að sér að lemja nokkra óþekktaranga leiftursnöggt í hausinn og vílaði jafnvel ekki fyrir sér að leggja niður heilu stofnanirnar sem voru honum ekki að skapi. Þessar aðfarir sköpuðu ótta sem lagðist eins og mara yfir þjóðfélagið.

Eins og aðrir götustrákar var hann hvað breiðastur þegar hann var með genginu sínu. Á hallelújasamkomum í flokknum var hann örlátur á fimmaurabrandarana og hreytti ónotum í andstæðingana. Hann þorði hins vegar ekki að mæta þeim í kappræðum í fjölmiðlum; lét sér nægja að senda mönnum tóninn og hlustaði ekki eftir andsvörum. Rétt eins og götustrákurinn sem æpir ókvæðisorð að vegfarendum, en mætir ekki á fundi eða kappræður.

Fyrir tilverknað Davíðs varð pólitíkin harðari og ómálefnalegri. Hann neytti aflsmunar hvenær sem færi gafst og lét kné fylgja kviði. Reynt var að lemja rétttrúnaðinn í gegn sem víðast. Þegar gengi foringjans varð uppvíst að afglöpum þá var þrætt fram í rauðan dauðann og öllu snúið á hvolf - svart varð hvítt og öfugt.

Enn einn eiginleiki götustráksins sem einkennir Davíð ríkulega er ósvífnin. Þannig hefur hann iðulega haldið fram alls konar dellu og komist upp með það af því að enginn hefur þorað að reka ofan í hann þvæluna. Hámarki ósvífninnar náði Davíð áreiðanlega með bolludagsbulli sínu og hlýtur að vera fáheyrt að forsætisráðherra þjóðar þylji slíka einkabrandara í ríkisútvarp. Einnig einkenndist öll framganga hans í fjölmiðlamálinu á síðasta ári af ósvífni og offorsi.

Það er því engin furða þó að götustrákurinn haldi sér við sinn leist þó hann yfirgefi samkvæmið og snúi sér jafnvel við í dyrunum til að þeyta úr sér beiskum glósum. Að stíga fæti á þröskuld veldur ekki eðlisbreytingum hjá nokkrum manni. Eðlilega er engin reisn yfir slíkum endalokum, enda ekki við því að búast. Menn varpa öndu léttara og lofta út þegar dóninn er farinn.

Nú hefur götustrákurinn gengið á dyr eftir að hafa undir það síðasta skarað eldi að sinni eigin köku með fáheyrðri græðgi. Hann heldur keikur leiðar sinnar með hendurnar djúpt í vösum almennings.

2005-10-07

Orð og ábyrgð

Jón Ólafsson hefur unnið meiðyrðamál gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni í Bretlandi. Málsatvikum er lýst í frétt á Mbl.is með svofelldum hætti:

Enskur dómstóll hefur dæmt Hannes Hólmstein Gissurarson til að greiða Jóni Ólafssyni, kenndum við Skífuna, um 11 milljónir króna vegna ummæla sem Hannes Hólmsteinn lét falla á ráðstefnu norræna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og birti síðan á heimasíðu sinni. Fjárnámskrafa Jóns til fullnustu dómsins verður tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík í dag.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það lykilatriði í málaferlum Jóns ytra að útdráttur úr erindinu var birtur á ensku á heimasíðu Hannesar Hólmsteins og af þeim sökum hefði myndast grundvöllur fyrir málaferlum í Englandi.

Alls hljóðar krafa Jóns Ólafssonar upp á 11 milljónir með kostnaði.

Af hálfu Hannesar Hólmsteins er kröfunni mótmælt og má gera ráð fyrir að málið verði útkljáð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn þarf m.a. að taka afstöðu til þess hvort skilyrði Lugano-samningsins séu uppfyllt en hann kveður á um að dómar í einkamálum í aðildarríkjum séu viðurkenndir á milli landa. Bæði Ísland og Bretland eru aðilar að sáttmálanum.

Heimild: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1161947

Í fréttinni segir Hannes að hefði hann „ákveðið að taka til varna í Englandi hefði hann að sjálfsögðu verið sýknaður enda hefði hann einungis sagt það sem væri satt og rétt; því hefði margoft verið haldið fram að Jón Ólafsson hefði auðgast á vafasaman hátt.“

Hefur Hannes, eða einhver annar, nokkurn tímann sýnt fram á með traustum rökum að Jón Ólafsson hafi auðgast á vafasaman hátt, að ekki sé minnst á haldgóðar sannanir? Nei alls ekki, enda vísar Hannes í einhvern óskilgreindan almannaróm. Það eru hvorki traust rök né haldgóðar sannanir. Því eru þessi ummæli Hannesar auðvitað dylgjur og rógburður. Það ætti Hannes best að sjá þar sem hann hefur, ásamt ýmsum lagsbræðrum sínum, verið duglegur að tala um dylgjur hjá öðrum; oftast af minna tilefni og á veikari forsendum. Fullyrðing Hannesar um að hann hefði unnið málið hefði hann tekið til varna er því líklega óskhyggja eða blekking til að slá ryki í augu fólks. Auk þess má spyrja: hefði verið kostnaðarsamt fyrir Hannes að vinna málið þar ytra? Hefði þá málskostnaðurinn ekki fallið á Jón Ólafsson?

Hannes segir að „sér fyndist fráleitt að hægt væri að draga hann fyrir dóm í Englandi fyrir ummæli sem hann lét falla hér á landi.“ Í fréttinni á Mbl.is segir að ummælin hafi verið látin falla á ráðstefnu norrænna blaðamanna í Reykholti í október 1999 og síðan birt á ensku á heimasíðu Hannesar. Birting á veraldarvefnum er alþjóðleg. Augljóst er því að ummælin féllu og voru birt á opinberum og alþjóðlegum vettvangi á alþjóðlegu tungumáli og því var grundvöllur fyrir málssókn Jóns á hendur Hannesi, enda hefði Hannes ella ekki verið dæmdur. Með því að gefa í skyn að það sé á einhvern hátt ranglátt að dæma Hannes í Bretlandi fyrir ummæli sem féllu á Íslandi er aftur reynt að slá ryki í augu fólks.

Í títtnefndri frétt Mbl.is segir að hin stefndu ummæli hafi verið á heimasíðu Hannesar á tímabilinu 1999 til 2004 þegar Hannes lokaði síðunni „til að losna við þetta stríð við Jón Ólafsson“. Þetta eru sérkennileg ummæli í ljósi þess að Það er fyrst og fremst Hannes sem hefur verið óþreytandi að tjá sig um Jón Ólafsson opinberlega og þá yfirleitt til að útmála hann sem skúrk með einum eða öðrum hætti. Ég minnist þess ekki að hafa séð Jón tjá sig um Hannes opinberlega með viðlíka hætti eða að sambærilegu umfangi, þó að það kunni að hafa farið fram hjá mér.

Hannesi finnist skrýtið að Jón höfði málið í Bretlandi, en þar býr Jón reyndar, samkvæmt fréttum. Það sem upp úr stendur er að niðurstaða málsins er fengin samkvæmt gildandi leikreglum, þ.e. breskum lögum og niðurstöðum þarlendra dómstóla sem Ísland hefur skuldbundið sig með samningum til að hlíta og við það situr.

Þegar kjarni málsins hefur verið greindur frá hisminu sem Hannes þyrlar upp, þá stendur þetta eftir: Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur farið með málflutning á hendur Jóni Ólafssyni án þess að geta stutt hann traustum rökum eða haldgóðum sönnunum. Fyrir þetta athæfi hefur hann hlotið dóm sem gæti verið aðfararhæfur að íslenskum lögum.

Hannesi hefur oft orðið tíðrætt um frelsið og örugglega einnig um að því fylgi ábyrgð. Hann hefur sannarlega nýtt sér frelsið með sínum hætti og verið einna ófyrirleitnastur manna í opinberri orðræðu á seinni árum. Þarna er einmitt mergur þessa máls. Hannesi er frjálst að tjá sig eins og honum sýnist, en hann ber líka ábyrgð á orðum sínum. Nú hefur reynt á slíka ábyrgð.

Hitt er svo annað mál að sú upphæð sem Hannesi er gert að greiða er svívirðilega há og hver sá sem þarf að greiða slíka upphæð fyrir ummæli, þó dæmd hafi verið ómerk, á alla samúð mína. Miðað við málsatvik finnst mér að Hannes hafi verið réttilega dæmdur, en tyftaður af óþarfri hörku.

Sjá einnig grein Magnúsar Norðdahl hrl á Djöflaeyjunni.