2005-03-16

Rökleysur spunakerlinganna

Í siðmenntuðu ríki hefði Pétur Gunnarsson, af öllum mönnum, örugglega talist vanhæfur til að greiða atkvæði um fréttastjóra útvarps. Er þetta ekki sami maðurinn og sendi settum fréttastjóra og einum umsækjendanna, Friðriki Páli Jónssyni, argvítugt skammarbréf fyrir skömmu af því að honum fannst fréttastofan þjarma of mikið að forsætisráðherra? Jú, sá er maðurinn – mætti gleiður til atkvæðagreiðslu, enda stund hefndarinnar upp runnin.

Trúir því einhver að ríkisútvarpið hafi nauðsynlega þurft að fá rekstrarmann í stöðu fréttastjóra útvarps? Sagt er að fréttastofan hafi farið fram úr fjárheimildum. Hverjir ættu að bera ábyrgð á því? Fréttastofa útvarps heyrir undir svonefnt fréttasvið sem Bogi Ágústsson stýrir. Ber hann ekki ábyrgð? Var rekstrarreynsla hans lykilatriði þegar hann var ráðinn? Undir sama svið heyrir fréttastofa sjónvarps sem stýrt er af nýlega ráðinni Elínu Hirst? Er hún rekstrarmaður? Það var þó öllu meiri áhersla lögð á rekstrarþáttinn í auglýsingu þegar hún var ráðin.

Skipulega séð væri auðvitað eðlilegast að yfirstjórn fréttasviðsins sýslaði með rekstrarþáttinn fyrir báðar fréttastofurnar svo að fréttastjórar og fréttamenn hefðu frið til að segja okkur fréttir. Eða var það aldrei meiningin? Starfar ekki framkvæmdastjóri fjármáladeildar á RÚV? Hvað er hann að sýsla? Ber hann enga ábyrgð á neikvæðum rekstrartölum? Svo mun vera sérstakur framkvæmdastjóri útvarps, handvalinn af núverandi valdhöfum. Spyrja má um ábyrgð hans á rekstri útvarpsins. Og loks er það æðsti strumpur, Markús Örn útvarpsstjóri. Er honum ekki borgað fyrir að bera ábyrgð á öllu saman? Hvaða rekstrarreynslu hafði hann þegar honum var plantað í stól útvarpsstjóra? Hvernig hefur hann brugðist við þessum mikla rekstrarvanda fréttastofu útvarps sem nú er allt í einu aðalatriði máls? Þarna er hver silkihúfan upp af annarri og allir eiga að sýsla í rekstri. Er þá nauðsynlegt að ráða fréttastjóra útvarps úr röðum rekstrarmanna?

Markús Örn er einn af þeim sem trúir á nauðsyn þess fá rekstrarmann sem fréttastjóra útvarps og lýsti því fjálglega í Kastljósi að þar stæði Auðunn Georg öðrum framar. Í dag fjallar Fréttablaðið um rekstrarreynslu hans og virðist hún helst hafa falist í umsjón með sölustarfi nokkurra umboðsfyrirtækja í Suðaustur-Asíu. Hann hafði engin mannaforráð og fór ekki með rekstur fyrirtækisins. Í munni Markúsar hafði Auðunn Georg „verið forstöðumaður eins framsæknasta fyrirtækis á Íslandi“ og „Auðun Georg hefur verið að stýra þessari starfsemi fyrir þetta stóra fyrirtæki sem er orðið alþjóðlegt fyrirtæki og hefur verið að sækja út á erlendum mörkuðum, fyrir nátttúrlega hönd forystu þess,“ Hvað vissi Markús Örn um raunverulega rekstrar- og stjórnunarreynslu Auðuns? Hvað stóð í umsókn Auðuns? Las Markús hana?

Kannski voru þau sýndarrök Markúsar hlægilegust að Auðunn Georg væri ungur og sprækur en fimmmenningarnir, sem Bogi valdi úr hópi umsækjenda, á miðjum aldri og kannski rúmlega það. Menn eldast við að öðlast reynslu og það er erfitt að komast hjá því. En hver ætlar að stýra RÚV þegar það gengur í endurnýjun lífdaganna í takt við ný útvarpslög? Enginn annar en Markús Örn, sem er að vísu bráðum 62 ára gamall, en samt ótrúlega ferskur! Og sérlega rökfastur.

2005-03-14

Fréttastjóraspuninn

Ráðning fréttastjóra útvarps virðist ætla að draga dilk á eftir sér og kemur það tæpast á óvart eins og að málum var staðið.

Framsóknarflokkurinn, sem taldi sig eiga fréttatjórastöðuna, leitaði lengi með logandi ljósi að hæfum kandídat uns ein spunakerlingin í hópnum mundi alltíeinu eftir sprækum vini sínum í Asíá og hann fékk hann til að yfirgefa markaðsstjórastarf hjá Marel fyrir þessa þungavigtarstöðu. Sá mun einhvern tíma hafa unnið sem fréttamaður, þó að enginn muni eftir því. Út af fyrir sig vitnar þessi örvæntingarfulli skrípaleikur um mannval flokkskrílisins og kemur heldur ekki á óvart. Síðan hófst spuninn. Á bak við felutjöldin var sett saman auglýsing og afgreiðsluvél ríkisstjórnarinnar í útvarpsráði látin vita um vininn spræka. Og af því að spunakerlingar Framsóknar eru ekki spunakerlingar fyrir ekki neitt þá var sýndarmennskan leikin af faglegri innlifun. Umsækjendur voru kallaðir til viðræðna og látnir taka persónuleikapróf eins og þeir ættu séns í vininn spræka, sem auðvitað var ráðinn.

Freyjustaurinn Páll Magnússon, sem ætlar sér að verða næsti bæjarstjóri Kópavogs, var móður eftir tusk við óþægar samflokkskvinnur í sínum heimabæ og taldi réttilega að sletturnar frá skítverkinu myndu ekki auka hróður hans umtalsvert. Hann kallaði því inn varamann úr hópi spunakerlinganna, Pétur nokkurn Gunnarsson, sem beið ekki boðanna og keifaði ákafur á fund útvarpsráðs í kórréttum atkvæðagreiðsluham. Síðan hefur hann spunnið þráðinn í fjölmiðlum og aðallega lagt út af auglýsingunni, sem átti að vera upphafspunktur plottsins. Ekki reyndist það alls kostar vel því að þar var lögð meiri áhersla á ritstjórnarþátt starfsins en í næstu auglýsingu á undan, eins og Broddi Broddason sýndi fram á í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag. Það var kannski ekki mjög heppilegt þar sem klæðskerinn hafði ætlað að sníða stakkinn utan um meinta yfirburði Auðuns Georgs á rekstrarsviðinu.

Síðan kemur að þætti útvarpsstjórans, sem lögum samkvæmt hefur vald til að ráða í starfið sem auglýst var. Reynslan sýnir að niðurstaða útvarpsráðs er honum enginn fjötur um fót ef svo ber undir. Þannig réði Markús Örn Antonsson Elínu Hirst sem fréttastjóra sjónvarps þó hún hafi fengið þrjú atkvæði í útvarpsráði en Sigríður Árnadóttir fjögur. En Markús Örn situr ekki á sínum útvarpsstjórastóli vegna hæfileika sinna, menntunar eða gjörvuleika yfirleitt, heldur er hann auðsveipur augnaþjónn stjórnvalda og situr í skjóli þeirra svo lengi sem hann er þægur og gerir eins og fyrir hann er lagt – og það gerði hann nú og ævinlega. Öll framganga hans í fréttastjóramálinu undirstrikar þetta. Fyrst reyndi hann að humma málið fram af sér og síðan kom aum málsvörn í Kastljósi sem byggðist helst á því að svívirða eigin starfsmenn og finna þeim flest til foráttu. Svo hlálegt sem það er, þá finnst honum öllu máli skipta að fá ungan og sprækan fréttastjóra útvarps til að leggja hönd á plóg við ferska uppbyggingu ríkisútvarspins sem hann ætlar sjálfur að stýra, 64 ára gamall maðurinn! Heitir þetta ekki að sjá ekki bjálkann í sínu eigin auga?

Framganga minnihluta útvarpsráðs í málinu er ömurleg og þeim sem um ræðir til skammar. Ef Samfylking og Frjálslyndir vilja ekki taka þátt í verkum útvarpsráðs, hvers vegna eru þeir þá að hafa þar fulltrúa? Og það er ekkert system í galskabet því ekki stóð á þátttöku þeirra í atkvæðagreiðslu um ráðningu Elínar Hirst. Það ber dómgreind formanns Samfylkingarinnar ekki fagurt vitni að hann skuli hafa velþóknun á þessari barnalegu framgöngu og ættu Samfylkingarmenn að hafa það á bak við eyrað við komandi formannskosningar.

Allt bendir til að útvarpsráð verði brátt lagt niður, við lítinn orðstí og er það vel. Trúlegast er að Markús Örn fari fljótlega sömu leið, við jafnvel minni orðstí.