2004-08-23

Fætingur í flórnum

Helst vildi ég að Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út. Kannski er það þess vegna sem ég nenni varla að velta fyrir mér innantökum flokksins um þessar mundir. Fyrst fannst mér næsta augljóst að fyrst ákveðið var að gefa umhverfisráðuneytið eftir til Sjálfstæðisflokkksins 15. september, þá yrði Siv að víkja úr ráðherrastól; ekki gæti talist sanngjarnt að aðrir ráðherrar tækju pokann sinn bara til að hún geti setið áfram. Hún hefur í engu skarað fram úr öðrum ráðherrum Framsóknar, en heldur ekki staðið þeim að baki. Hvað sem um hana má segja, hefur hún alla vega verið einarður liðsmaður og það ætti stelpan Dagný að kunna að meta, þó að það henti athyglissýki hennar og framapoti betur að gera það ekki.

En svo gerðist það að Framsóknarkonur létu til sín heyra. Fyrst hélt ég að það væri bara lágvært óánægjunöldur annars sauðtryggra flokksmanna, en fljótlega varð ljóst að meira bjó að baki. Þær hafa meira að segja ýjað að sérframboði. Og þegar að er gáð eru röksemdir þeirra fráleitt léttvægar.

Þær hafa bent á að sú ákvörðun að víkja Siv úr ríkisstjórn gangi gegn ýmsum reglum og jafnréttisáætlun flokksins og fari í berhögg við viðurkenndar aðferðir við val á ráðherrum. Gleymum ekki því að þó að umræðan hafi snúist um stólaskipti, og þá kannski fyrst og fremst þeirra Davíðs og Halldórs, þá er í reynd verið að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar. Framundan eru þrjú ár eftir af kjörtímabilinu. Það er því alveg tilefni til uppstokkunar í ráðherraliðinu.

Hvers vegna eru reglur flokksins og hefðbundnar aðferðir við val á ráðherrum ekki hafðar í heiðri? Samkvæmt þeim ætti líklega Árni Magnússon að hypja sig sem síðasti maður inn. En hann er einmitt handvalinn erfðaprins Halldórs sem tryggði honum ráherrastól eftir að Árni skreið naumlega inn á þing sem jöfnunarmaður í síðustu kosningum. Og Halldór ætlar að troða honum á tróninn með góðu eða illu.

Það er raunar eðlilegt að Halldór íhugi eftirmann. Hans tími er senn liðinn. Hann hefur verið sporgöngumaður Davíðs í níu ár og reynt að vera harður nagli eins og hann. En Davíð er bara miklu harðari stjórnandi og margfalt klókari. Hann getur verið sveigjanlegur til að láta fléttu ganga upp. En Dóri er einfaldur þumbari og það dugði honum á meðan hann var í sambandi við flokkinn sinn, sem er reyndar dálítið þumbaralegur líka. En svo mikið hefur reynt á það samband að undanförnu að nú spyrja mæddir framsóknarmenn hvenær Halldór muni hætta. Og það er ekki nema von. Þumbarinn virðist hafa misst jarðsambandið og heldur að hann geti leitt hjá sér óánægju framsóknarkvennanna með því að stinga höfðinu í sandinn.

Það er alls ekki gefið að hinn almenni Framsóknarmaður deili ást formannsins á dillibossunum tveimur, Árna Magnússyni og Birni Hrafni. Árni er að vísu geðþekkur maður, en lítt reyndur og greinilega ekki óumdeildur innan flokksins. Björn skortir alla lýðhylli þó hann sé Halldóri þarfur augnaþjónn þessa stundina. Hann mun seint hafa þétta fylkingu á bak við sig og framavonir hans eru mjög tengdar Halldóri.

Framsóknarkonur hafa sýnt að þær ætla sér ekki að vera hornkerlingar innan flokksins og gætu jafnvel hugsað sér að yfirgefa hann ef þörf krefur. Þær gætu reynst Halldóri skeinuhættar takist honum ekki að sættast við þær. Hinn almenni Framsóknarmaður mun ekki sætta sig við Davíðska stjórnarhætti formannsins og setti honum raunar stólinn fyrir dyrnar þegar fjölmiðlafrumvarpið var á dagskrá. Sambandsleysi Halldórs við sitt fólk mun reynast honum því meiri fjötur um fót sem hann fjarlægist það meira. Og augnaþjónarnir eru af annarri kynslóð sem bindur ekki trúss sitt við Halldór lengur en nauðsynlegt reynist.

2004-08-20

Sigurvilji óskast

Það var afskaplega dapurlegt að horfa á Íslendinga tapa fyrir Kóreumönnum í morgun, en sigur Kóreumanna var verðskuldaður.

Íslenska liðið lék ekki vel. Alltof margar sóknir runnu út í sandinn og hvað eftir annað gekk boltinn úr greipum okkar manna í gírugar hendur Kóreumanna sem refsuðu okkur grimmilega með því að auka markamuninn. Þeir voru öruggari í hraðaupphlaupum og skoruðu úr öllum sem þeir fengu (5/5) á meðan okkar menn skoruðu aðeins úr helmingi sinna færa (3/6). Markvarslan var slök okkar megin. Guðmundur og Roland vörðu aðeins 6 skot af þeim 40 sem þeir fengu á sig (15%) á meðan kóresku markverðirnir, Han og Lee, vörðu ríflega tvöfalt betur eða 15 skot af 45 (33%).

Ólafur Stefánsson, sem skoraði 10 mörk í 11 tilraunum, var bestur okkar manna, en Sigfús og Garcia stóðu sig einnig vel. Guðjón Valur fann sig ekki og er kannski orðinn þreyttur, en hann og Gylfi stóðu sig þó betur en kóresku hornamennirnir (57% skotnýting á móti 50%). Aðrir létu minna fara fyrir sér.

Það er auðvitað alltaf hægara um að tala en í að komast, en mér finnst fyrst og fremst vanta einbeittan sigurvilja í íslenska landsliðið. Þetta eru allt saman flinkir handboltamenn og flestir með mikla reynslu. Þeir þurfa hins vegar að ganga fram grenjandi af sigurvilja sem slakar aldrei á fyrr en boltinn er úr leik. Íslenska knattspyrnulandsliðið sýndi einmitt slíkan sigurvilja í fyrrakvöld og uppskar samkvæmt því. Hinir ítölsku mótherjar þeirra, sem kunna örugglega allt sem hægt er að kunna í fótbolta, vantaði sigurviljann og urðu því að lúta í gras. Hér sannast hið fornkveðna að vilji er allt sem þarf.

Leikurinn í tölum


2004-08-18

Feginsdagur fíra

Þessi dagur, sem senn er genginn, hefur verið einkar ánægjulegur og sigursæll fyrir Íslendinga. Rétt áðan voru Íslendingar að sigra Ítali 2:0 á Laugardalsvelli og í morgun sigruðu Íslendingar Slóvena 30:25 í handknattleik á Ólympíuleikunum í Aþenu. Veðrið hefur verið frábært, reyndar í marga undanfarna daga. Og Reykjavíkurborg fagnaði 118 ára fmæli sínu í dag m.a. með því að bjóða upp á skúffuköku í fjölskyldugarðinum í Laugardal.

Það voru vonbrigði að tapa fyrir Króötum í fyrsta leik Íslendinga á Ólympíuleikunum og enn sárara var að tapa nokkuð jöfnum leik gegn Spánverjum niður í 8 marka tap (31:23) á tíu síðustu mínútunum eða svo. Það var því sætt að vinna Slóvena með fimm marka mun í morgun. Ekki má gleyma því að Króatar rétt mörðu eins marks sigur á Slóvenum (27:26) í fyrradag.

Það var haft á orði í fjölmiðlum fyrir vináttuleik Íslendinga og Ítala í kvöld að Ítalir sættu sig ekki við neitt minna en að þeirra menn völtuðu yfir Íslendinga. Það gekk ekki eftir. Íslendingar gerðu út um leikinn á fyrstu tuttugu mínútunum með mörkum Eiðs Smára Guðjohnsen (17. mín) og Gylfa Einarssonar (19. mín). Ítalir áttu ekkert svar við einbeittum Íslendingum sem léku allan tímann eins og sá sem valdið hefur. Þeir 20.204 áhorfendur sem keyptu sig inn á leikinn fengu svo sannarlega eitthvað fyrir aurana sína því, auk sigusins, var leikurinn afar spennandi og skemmtilegur.

Veðurguðirnir, sem hafa hossað okkur undanfarna daga, létu ekki sitt eftir liggja og léku við hvern sinn fingur.

Svona var Ísland í dag.