2008-02-12

Einn (en ekki aleinn)

Einn. Gamli góði Villi mætti fjölmiðlamönnum í gær einn síns liðs. Sexmenningarnir fræknu, sem segjast þó styðja hann, læðupokuðust út um hinar og þessar útgönguleiðir Valhallar og forðuðu sér frá áleitnum og erfiðum spurningum fréttamanna. Skildu gamla manninn eftir einan hjá úlfunum.

Einn. Þegar gengið var á þá sjálfstæðismenn sem í náðist eftir Valhallarfundinn í gær örlaði hvergi á stuðningi við verðandi borgarstjóra Reykjavíkur. Þeirra á meðal var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Einn. Úr leiðurum blaðanna, Morgunblaðið ekki undanskilið, barst heldur ekki neinn stuðningur.

Einn. Á bloggsíðunum fór ekki mikið fyrir stuðningsyfirlýsingum, ekki einu sinni frá sjálfstæðismönnum.

Ekki aleinn. Einn vill þó bera blak af Vilhjálmi: Árni Johnsen. Hann treystir gamla góða Villa og er búinn að átta sig á því að hann hefur bara verið valinn sem fórnarlamb; svona rétt eins og Árni sjálfur forðum daga. Þeir Villi gerðu ekki neitt rangt; einhver ákvað bara að leiða þá til slátrunar – líklega fjölmiðlamenn.

Þeir eiga það sameiginlegt flokksbræðurnir að þeir lentu í þessu.

Að velta röngu og svíkja lit

Stundum er umgengni manna um staðreyndir með miklum ólíkindum. Þeir mega vart sannleikskorn sjá á förnum vegi án þess að þurfa að rangsnúa því, teygja það, toga og afbaka. Þetta er að verða sérstök listgrein hjá vissum hópi sjálfstæðismanna.

Þannig fer Pétur Blöndal með sömu tugguna hvað eftir annað í fjölmiðlum. Að Tjarnarkvartettinn hafi sótt Binga inn í raðir þess meirihluta sem myndaður var eftir kosningarnar 2006 og því sé enginn munur á meirihlutaskiptum í haust og núna í janúar. Það liggur hins vegar fyrir og má lesa í fjölmiðlum að upp kom ágreiningur á milli Sjálfstæðismanna, sem vildu selja REI, og Binga sem ekki vildi selja. Hanna Birna orðaði þetta einhvern veginn þannig á tröppunum hjá Villa að Bingi hefði ekki viljað fallast á þeirra sjónarmið. Hún virtist ekki hafa áttað sig á því í tíma að staðan var ekki sjö gegn einum, heldur hafði Bingi fjöregg meirihlutans í hendi sér. Að lesa ekki stöðuna betur en þetta getur ekki verið ávísun á forystuhlutverk í stjórnmálum.

Á hinn bóginn fór Ólafur Friðrik yfir til Sjálfstæðismanna í janúar án nokkurs ágreinings við þann meirihluta sem hann var guðfaðir að. Sjálfstæðismenn buðu honum hins vegar borgarstjórastól og rýmdu fúslega fyrir málefnalista Ólafs með því að ýta sínum eigin út af borðinu. Hanna Birna mátti til dæmis éta ofan í sig skipulagsmálin og Gísli Marteinn flugvöllinn. Allt til að ná völdum á ný. En hvílíkur Phyrrosarsigur!

Það sér auðvitað hver maður að þarna er allnokkur munur á og ég er viss um að Pétur Blöndal sér það líka, því mér dettur ekki í hug að frýja honum vits. En þess meira gruna ég hann um gæsku sem ég heyri hann oftar tönnlast á sínum heimatilbúnu öfugmælum um þessa atburðarás.

Og svo er það garmurinn hann Villi. Lánlausari mann getur vart í íslenskri pólitík. Þetta er eiginlega átakanlegt upp á að horfa; eftir langan og nokkuð farsælan, en átakalítinn, feril sem borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga þá er hann skyndilega á berangri með allt niðrum sig. Ekki verður betur séð en að hann sé skólabókardæmi um Péturslögmálið (The Peter’s Principle) um að sérhver maður hafi tilhneigingu til að stefna hærra og fara fram úr getu sinni. Vilhjálmur hefur vafalaust verið ágætur borgarfulltrúi, en hann var afleitur borgarstjóri og það væri glapræði að hleypa honum í þann stól aftur.

En það er ekki nóg með að vesalings Villi hafi augljóslega farið fram úr getu sinni. Dómgreindin og siðferðiskenndin hafa algjörlega yfirgefið hann.  Hann fer með ósannindi í fjölmiðla og heldur því fram í fullri alvöru að hann hafi axlað ábyrgð með því að missa borgarstjóra-stólinn síðastliðið haust. Ég treysti mér ekki til að lýsa þessari frammistöðu betur en sjálfstæðismaðurinn Dharma.

Nei, Villi, þetta kallast EKKI að axla ábyrgð, álfurinn þinn...

Það að þú skulir hafa misst borgarstjórastólinn er ekki dæmi um hvernig þú axlaðir ábyrgð.  Þú misstir borgarstjórastólinn því samráðsmaðurinn hljóp í fangið á sósjalistunum!  Þú hefðir glaður viljað sitja áfram. 
Þú skilur þetta ekki.  Ég stórefast hreinlega um að þú hafir gáfnafarið til að vera yfirhöfuð í stjórnmálum! 
Það að þú skyldir missa borgarstjórasætið er AFLEIÐING þess sem þú gerðir.  Þú axlaðir ekki eitt né neitt.  Þú bara vældir og laugst í fjölmiðlum. 
Það að AXLA ÁBYRGÐ hefði verið ef þú hefðir sagt af þér strax í október.  Þá hefði frumkvæðið verið þitt.  Það hefði verið að axla ábyrgð. 
Þú getur EKKI sagt að þú hafir axlað ábyrgð þegar þér var sparkað úr stólnum í hvern þú áttir í sjálfu sér ekkert erindi til að byrja með.  Þú hafðir hreinlega ekkert um málið að segja. 
Þú ert í vinnu fyrir kjósendur, þú brást vinnuveitanda þínum og lýgur svo að honum til að hylja eigin spor.  Slíkt er brottrekstrarsök, en því miður höfum við engin úrræði til að reka þig, önnur en að biðja þig um að segja af þér. 
Þú ert líklegast mesti skúrkur íslenskra stjórnmála fyrr eða síðar.  Þú ert valdasjúkur og veruleikafirrtur, þú berð nákvæmlega ekkert skynbragð á stjórnmál.  Þú ert lítill kerfiskall sem skilur ekki hvert umboð þitt er.  Mikil er skömm þín og þú átt enga, nákvæmlega enga, samúð skylda.


2008-02-03

Björn vill dæma óþægilega umræðu úr leik

Björn Bjarnason var í Silfri Egils í gær og þar barst m.a. skipun dómara norðan og austan í tal.  Björn segir um þessi orðaskipti á bloggsíðu sinni að Sigurður Líndal hafi...

„skrifað sig frá málinu, þegar hann hafi tekið til við að líkja stjórnarathöfn Árna M. Mathiesens við stjórnarhætti nasista – með slíku gerðu menn sig einfaldlega marklausa og þannig væri komið fyrir Sigurði Líndal í þessu máli.“

Í framhaldinu vitnar Björn síðan í mál Daniel Hannan, þingmanns á Evrópuþinginu fyrir breska íhaldsmenn, sem hafði „verið vikið úr þingflokki European People’s Party (EPP) á Evrópuþinginu fyrir ummæli, sem voru túlkuð á þann veg, að hann líkti gjörðum þingforseta við valdatöku nasista.“ Augljóst er að Björn leggur þessi mál að jöfnu þó að hann hirði það eitt upp af vefsíðu Hannan sem hentar hans málflutningi og þess vegna sleppir hann t.d. þessu:

My own Chief Whip, Den Dover, was kind enough to see me afterwards and reassure me that nothing I had said was against Conservative policy, that our party is strongly in favour of a referendum and that, in any case, we are all pledged to leave the EPP next year. If the EPP excluded me, he added, that was their business. As far as he was concerned, I would sit as a Conservative and a member of the Conservative delegation, in receipt of the Tory Whip and as a re-selected Tory candidate.

Með öðrum orðum: sínum augum lítur hver á silfrið; menn eru ekki á einu máli um réttmæti brottvikningar Hannan úr EPP. Og ekki eru íhaldsmenn á þeim buxunum að skipta út sínum manni.

En hvað sagði Sigurður Líndal? Í grein í Fréttablaðinu 15. janúar 2008 (bls 16) ræðir hann um leiðara Morgunblaðsins frá 10. janúar 2008 þar sem því er hafnað að tilvist dómnefndar setji veitingarvaldinu einhver takmörk, það komi ekki fram í lagatextum og nefndin sé að draga til sín vald sem hún hefur ekki. Um þetta segir Sigurður svo:

„Nærtækast væri að líta á þessi orð sem merkingarlaust rugl, en ef taka á mark á þeim eru lög ekki annað en tæki valds sem lýtur engum takmörkunum. Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930.“

Hér verður að ítreka að Sigurður er að ræða leiðara Morgunblaðsins og þau sjónarmið sem þar eru sett fram, en ekki gjörðir Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra. Það er því rangt og útúrsnúningur hjá Birni að Sigurður sé að líkja stjórnarathöfnum Árna Mathisen við stjórnarhætti nasista.

Hins vegar er á það að líta að það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Ef valdsmenn ganga fram með svipuðum hætti og nasistar gerðu á fjórða áratug síðustu aldar, þá er ekkert að því að segja það og það getur ekki dæmt neinn frá neinni umræðu, þó að Björn segi að svo skuli vera. Björn er hvorki hlutlaus né óskeikull dómari þar um og hefur ekkert umboð til að kveða upp slíkan dóm. Fullyrðingar hans í þá veru eru því með öllu marklausar og að engu hafandi. Hann er auðvitað að reyna að kveða niður óþægilega gagnrýni sem erfitt er að verjast með öðrum aðferðum en þeim bolabrögðum sem hann beitir.