2004-12-10

Bull, ergelsi og firra

Torfi Kristjánsson ritar pistil á Deigluna um ákvörðun Þjóðarhreyfingarinnar um að birta auglýsingu um stuðning tveggja Íslendinga við innrásina í Írak. Nokkur orð um þessi skrif.

Í fyrsta lagi mun það koma skýrt fram í auglýsingunni að Þjóðarhreyfingin standi að birtingunni. Í henni eru Íslendingar. Allir sæmilega skynsamir menn skilja að þegar um „hreyfingu“ af einhverju tagi er að ræða, þá er ekki átt við heila þjóð. Norðmenn hafa birt auglýsingu með svipuðum hætti og varla trúir Torfi því að þar sé öll norska þjóðin á bak við. Ég trúi því ekki. Af hverju ættu aðrir að hugsa öðruvísi um auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar?

Í öðru lagi er það erkidæmi um ólýðræðisleg vinnubrögð að tveir menn (hugsanlega einn) taki ákvörðun um stuðning heillar þjóðar við árásarstríð í fjarlægu landi. Ef það var yfirleitt nokkurn tímann ætlunin, þá tókst ákvörðunartakendum ekki alls kostar að ráða í hug þjóðar sinnar í þessu máli, því allar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti hennar er á móti því. Auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar er hinsvegar í mun betri takti við þjóðarviljann. Ef Torfa er umhugað um lýðræði, þá er hann í besta falli óheppinn að taka dæmi af auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar, þegar annað miklu nærtækara bauðst.

„Hér eru klárlega stjórnarandstæðingar á ferð...“. Er þetta þar með tóm della? Auðvitað hljóta að vera einhverjir stjórnarandstæðingar í Þjóðarhreyfingunni. En hverjir eru þar annars? Hvar er félagatalið? Er Ólafur Hannibalsson stjórnarandstæðingur, svo dæmi sé tekið? Síðast þegar ég vissi var hann í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann hefur setið á þingi fyrir þann flokk. Það er alkunna að hann var á móti fjölmiðlalögunum og er andvígur stuðningi við innrásina í Írak – en er þar með sagt að hann sé stjórnarandstæðingur? Þannig mætti halda áfram að grandskoða félagatalið, ef það væri til. Og ef fjórir af hverjum fimm Íslendingum eru andvígir innrásinni í Írak, þá er ekki fráleitt að ætla að stuðningsmenn auglýsingarinnar gætu verið fleiri en stjórnarandstæðingar í landinu. Niðurstaða: innistæðulaus, ósönnuð fullyrðing, sem varpar ekki ljósi á eitt eða neitt!

Innihaldsleysið og málefnafátæktin nær svo hámarki í ergilegum fúkyrðaflaumi, sem er kannski að verða tíska á sumum bæjum í grennd við núverandi utanríkisráðherra, sem kannski er upphafsmaður þessa alls. Torfi veltir vöngum yfir því að birting auglýsingarinnar sé „sýndarhvöt“ nokkurra „skoffín[a]“ eða „vanhugsað einkaflipp nokkurra manna“. Maður fær bara í hnén af þessum andlegu yfirburðum! Vonandi verður skríbentnum launað við hæfi á æðstu stöðum, svo ekki hafi verið til einskis barist.

Kjarni málsins er sá að tveir menn fóru á svig við þing og þjóð og tóku heimskulega ákvörðun sem þjóðin situr síðan uppi með. Þetta liggur fyrir og ekkert fært því breytt. Ekki einu sinni auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar í New York Times. Líklega telja liðsmenn að þeim leyfist ekki að viðurkenna þetta.

2004-11-19

Holhljómur hræsnarans

Einar Oddur Kristjánsson birtist landsmönnum í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöldi froðufellandi af bræði yfir nýundirrituðum kjarasamningi kennara við launanefnd sveitarfélaganna. Enn er eftir að greiða atkvæði um samninginn þannig að hann er ekki fugl í hendi. Samt bölsótaðist þingmaðurinn yfir þessari niðurstöðu, sem allir hafa beðið eftir, og hótaði verðbólgu og öllu illu.

Skömmu síðar stóð svo spámaður þessi fyrir framan sjónvarpsmyndavélar í viðtali við fréttamann og sagði, hélugrár af vandlætingu, að kennarar ættu sko ekkert að fá meiri kauphækkun en aðrir.

Gekk þessi snillingur um með votar granir þegar eftirlaunafrumvarp ráðherra og alþingismanna var samþykkt? Gól þessi hani á sínum hræsnishaug þegar Kjaradómur hækkaði þingfararkaup síðast – meira en hjá öðrum að sjálfsögðu? Ekki minnist ég þess.

Hver var það aftur sem sagði um stjórnmálamann:

„Þögnin var hans bestu samkvæmisföt.
Hann hefði aldrei átt að læra að tala.“

2004-10-05

Fallinn!

Ég heyrði einu sinni sagða sögu af Guðna Guðmundssyni rektor Menntaskólans í Reykjavík. Sagan var eitthvað á þá leið að sögumaður sat á skrifstofu Guðna þegar nemandi bankaði þar á dyr og spurði um árangur sinn á einhverju prófi. Guðni kannaði það og sneri sér síðan að nemandanum og sagði: „Þér eru sko glæsilega fallinn!“

Geir Haarde féll einnig á sínu prófi, sem getið var um í síðasta bloggpistli, en yfir því falli var enginn glæsibragur. Það var aumkunarvert að sjá mannræksnið reyna að bera í bætafláka fyrir vondan verknað sinn.

Nú er morgunljóst að í Geir er enginn leiðtogi falinn og engin von um að réttlæti og góðir siðir dafni í kringum hann. Siðferði hans takmarkast af eigin framavonum og hann lætur fallerast við fyrstu freistingu valds og vina. Slíkum mönnum er ekki trúandi fyrir bréfi yfir bæjarlæk; hvað þá æðstu embættum. En þannig er það nú samt. Í núverandi ríkisstjórn sitja í röðum leirdúfurnar sem verða skotnar niður af framtíðinni.

2004-09-24

Fellur Geir á prófinu?

Nokkrir vinir Jóns Steinars Gunnlaugssonar hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun til stuðnings þess að fjármálaráðherra skipi hann sem hæstaréttardómara. Þeir halda því fram að Jón hafi afburða þekkingu á lögum og eiga það að heita rök fyrir aðgerðinni.

Öll opinber vitneskja bendir til þess að meinta afburðaþekkingu Jóns Steinars sé helst að finna í hugskoti vina hans. Hæstiréttur er, til að mynda, þessu öldungis ósammála og hefur tiltekið a.m.k. þrjá aðra umsækjendur um dómarastarfið hæfari Jóni Steinari. Ekki er annað að sjá en að rétturinn hafi borið sig faglega að útgáfu matsins, enda ekki annars að vænta úr þeirri átt. Þegar þessi niðurstaða er skoðuð skulu menn hafa í huga að það eru ekki vinstri menn sem ráða lögum og lofum í Hæstirétti.

Það er hins vegar öllum ljóst að brigdeklúbbur Davíðs og Jóns Steinars, ásamt nokkrum öðrum einkavinum, hefur mikinn áhuga á að gera hann að hæstaréttardómara. Þeir rembast nú eins og rjúpan við staurinn við að tína til einhver rök til framdráttar vininum. Þeirra málflutningur er þó fráleitt sannfærandi, enda engin haldbær rök fyrir þessari firru.

Jón Steinar Gunnlaugsson á ekkert erindi í Hæstarétt Íslands. Hann er alltof pólitískur, einstrengingslegur og umdeildur til þess. Menn mega ekki láta glepjast af ágengri nærveru hans í fjölmiðlum; þar tróna nú hreint ekki mestu mannvitsbrekkurnar. Verði Jón skipaður hæstaréttardómari mun réttinn setja mikið niður og trúverðugleiki hans mun bíða verulegan hnekki.

Á síðasta ári skipaði Björn Bjarnason frænda Davíðs Oddssonar í embætti hæstaréttardómara og braut þar með lög og reglur. Það athæfi laskaði Björn verulega sem stjórnmálamann, enda kaus hann að gefa boltann á Geir Haarde að þessu sinni. Ég hef þá trú að Geir sé stjórnmálamaður af öðru sauðahúsi en ofstækismaðurin Björn. Því tel ég líklegt að hann virði gildandi lög og reglur varðandi þessa embættaveitingu og fari eftir áliti Hæstaréttar. Kannski hefur aldrei reynt eins mikið á Geir Haarde og einmitt núna. Með ákvörðun sinni getur hann gert sig gildandi sem sá ábyrgi og heiðarlegi stjórnmálamaður sem hann virðist vera – eða svarið sig inn í bridgeklúbbinn.

2004-08-23

Fætingur í flórnum

Helst vildi ég að Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út. Kannski er það þess vegna sem ég nenni varla að velta fyrir mér innantökum flokksins um þessar mundir. Fyrst fannst mér næsta augljóst að fyrst ákveðið var að gefa umhverfisráðuneytið eftir til Sjálfstæðisflokkksins 15. september, þá yrði Siv að víkja úr ráðherrastól; ekki gæti talist sanngjarnt að aðrir ráðherrar tækju pokann sinn bara til að hún geti setið áfram. Hún hefur í engu skarað fram úr öðrum ráðherrum Framsóknar, en heldur ekki staðið þeim að baki. Hvað sem um hana má segja, hefur hún alla vega verið einarður liðsmaður og það ætti stelpan Dagný að kunna að meta, þó að það henti athyglissýki hennar og framapoti betur að gera það ekki.

En svo gerðist það að Framsóknarkonur létu til sín heyra. Fyrst hélt ég að það væri bara lágvært óánægjunöldur annars sauðtryggra flokksmanna, en fljótlega varð ljóst að meira bjó að baki. Þær hafa meira að segja ýjað að sérframboði. Og þegar að er gáð eru röksemdir þeirra fráleitt léttvægar.

Þær hafa bent á að sú ákvörðun að víkja Siv úr ríkisstjórn gangi gegn ýmsum reglum og jafnréttisáætlun flokksins og fari í berhögg við viðurkenndar aðferðir við val á ráðherrum. Gleymum ekki því að þó að umræðan hafi snúist um stólaskipti, og þá kannski fyrst og fremst þeirra Davíðs og Halldórs, þá er í reynd verið að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar. Framundan eru þrjú ár eftir af kjörtímabilinu. Það er því alveg tilefni til uppstokkunar í ráðherraliðinu.

Hvers vegna eru reglur flokksins og hefðbundnar aðferðir við val á ráðherrum ekki hafðar í heiðri? Samkvæmt þeim ætti líklega Árni Magnússon að hypja sig sem síðasti maður inn. En hann er einmitt handvalinn erfðaprins Halldórs sem tryggði honum ráherrastól eftir að Árni skreið naumlega inn á þing sem jöfnunarmaður í síðustu kosningum. Og Halldór ætlar að troða honum á tróninn með góðu eða illu.

Það er raunar eðlilegt að Halldór íhugi eftirmann. Hans tími er senn liðinn. Hann hefur verið sporgöngumaður Davíðs í níu ár og reynt að vera harður nagli eins og hann. En Davíð er bara miklu harðari stjórnandi og margfalt klókari. Hann getur verið sveigjanlegur til að láta fléttu ganga upp. En Dóri er einfaldur þumbari og það dugði honum á meðan hann var í sambandi við flokkinn sinn, sem er reyndar dálítið þumbaralegur líka. En svo mikið hefur reynt á það samband að undanförnu að nú spyrja mæddir framsóknarmenn hvenær Halldór muni hætta. Og það er ekki nema von. Þumbarinn virðist hafa misst jarðsambandið og heldur að hann geti leitt hjá sér óánægju framsóknarkvennanna með því að stinga höfðinu í sandinn.

Það er alls ekki gefið að hinn almenni Framsóknarmaður deili ást formannsins á dillibossunum tveimur, Árna Magnússyni og Birni Hrafni. Árni er að vísu geðþekkur maður, en lítt reyndur og greinilega ekki óumdeildur innan flokksins. Björn skortir alla lýðhylli þó hann sé Halldóri þarfur augnaþjónn þessa stundina. Hann mun seint hafa þétta fylkingu á bak við sig og framavonir hans eru mjög tengdar Halldóri.

Framsóknarkonur hafa sýnt að þær ætla sér ekki að vera hornkerlingar innan flokksins og gætu jafnvel hugsað sér að yfirgefa hann ef þörf krefur. Þær gætu reynst Halldóri skeinuhættar takist honum ekki að sættast við þær. Hinn almenni Framsóknarmaður mun ekki sætta sig við Davíðska stjórnarhætti formannsins og setti honum raunar stólinn fyrir dyrnar þegar fjölmiðlafrumvarpið var á dagskrá. Sambandsleysi Halldórs við sitt fólk mun reynast honum því meiri fjötur um fót sem hann fjarlægist það meira. Og augnaþjónarnir eru af annarri kynslóð sem bindur ekki trúss sitt við Halldór lengur en nauðsynlegt reynist.

2004-08-20

Sigurvilji óskast

Það var afskaplega dapurlegt að horfa á Íslendinga tapa fyrir Kóreumönnum í morgun, en sigur Kóreumanna var verðskuldaður.

Íslenska liðið lék ekki vel. Alltof margar sóknir runnu út í sandinn og hvað eftir annað gekk boltinn úr greipum okkar manna í gírugar hendur Kóreumanna sem refsuðu okkur grimmilega með því að auka markamuninn. Þeir voru öruggari í hraðaupphlaupum og skoruðu úr öllum sem þeir fengu (5/5) á meðan okkar menn skoruðu aðeins úr helmingi sinna færa (3/6). Markvarslan var slök okkar megin. Guðmundur og Roland vörðu aðeins 6 skot af þeim 40 sem þeir fengu á sig (15%) á meðan kóresku markverðirnir, Han og Lee, vörðu ríflega tvöfalt betur eða 15 skot af 45 (33%).

Ólafur Stefánsson, sem skoraði 10 mörk í 11 tilraunum, var bestur okkar manna, en Sigfús og Garcia stóðu sig einnig vel. Guðjón Valur fann sig ekki og er kannski orðinn þreyttur, en hann og Gylfi stóðu sig þó betur en kóresku hornamennirnir (57% skotnýting á móti 50%). Aðrir létu minna fara fyrir sér.

Það er auðvitað alltaf hægara um að tala en í að komast, en mér finnst fyrst og fremst vanta einbeittan sigurvilja í íslenska landsliðið. Þetta eru allt saman flinkir handboltamenn og flestir með mikla reynslu. Þeir þurfa hins vegar að ganga fram grenjandi af sigurvilja sem slakar aldrei á fyrr en boltinn er úr leik. Íslenska knattspyrnulandsliðið sýndi einmitt slíkan sigurvilja í fyrrakvöld og uppskar samkvæmt því. Hinir ítölsku mótherjar þeirra, sem kunna örugglega allt sem hægt er að kunna í fótbolta, vantaði sigurviljann og urðu því að lúta í gras. Hér sannast hið fornkveðna að vilji er allt sem þarf.

Leikurinn í tölum


2004-08-18

Feginsdagur fíra

Þessi dagur, sem senn er genginn, hefur verið einkar ánægjulegur og sigursæll fyrir Íslendinga. Rétt áðan voru Íslendingar að sigra Ítali 2:0 á Laugardalsvelli og í morgun sigruðu Íslendingar Slóvena 30:25 í handknattleik á Ólympíuleikunum í Aþenu. Veðrið hefur verið frábært, reyndar í marga undanfarna daga. Og Reykjavíkurborg fagnaði 118 ára fmæli sínu í dag m.a. með því að bjóða upp á skúffuköku í fjölskyldugarðinum í Laugardal.

Það voru vonbrigði að tapa fyrir Króötum í fyrsta leik Íslendinga á Ólympíuleikunum og enn sárara var að tapa nokkuð jöfnum leik gegn Spánverjum niður í 8 marka tap (31:23) á tíu síðustu mínútunum eða svo. Það var því sætt að vinna Slóvena með fimm marka mun í morgun. Ekki má gleyma því að Króatar rétt mörðu eins marks sigur á Slóvenum (27:26) í fyrradag.

Það var haft á orði í fjölmiðlum fyrir vináttuleik Íslendinga og Ítala í kvöld að Ítalir sættu sig ekki við neitt minna en að þeirra menn völtuðu yfir Íslendinga. Það gekk ekki eftir. Íslendingar gerðu út um leikinn á fyrstu tuttugu mínútunum með mörkum Eiðs Smára Guðjohnsen (17. mín) og Gylfa Einarssonar (19. mín). Ítalir áttu ekkert svar við einbeittum Íslendingum sem léku allan tímann eins og sá sem valdið hefur. Þeir 20.204 áhorfendur sem keyptu sig inn á leikinn fengu svo sannarlega eitthvað fyrir aurana sína því, auk sigusins, var leikurinn afar spennandi og skemmtilegur.

Veðurguðirnir, sem hafa hossað okkur undanfarna daga, létu ekki sitt eftir liggja og léku við hvern sinn fingur.

Svona var Ísland í dag.

2004-07-21

Eitrað peð

Nýgerðar breytingar stjórnvalda á títtnefndu fjölmiðlafrumvarpi er ekki sáttagjörð af neinu tagi, heldur skipulagt undanhald úr vonlausri stöðu.  Það hefði mátt telja það raunverulega sátt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög nr. 48/2004 og hafa ekki uppi annan málatilbúnað þar um en að hnykkja á því að í þeirri atkvæðagreiðslu skyldi einfaldur meirihluti kjósenda ráða úrslitum.
 
Með þeirri lausn sem nú er uppi er forsetinn settur í vanda, eins og Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur bent á.  Samþykki hann þau lög sem núna stendur til að setja, er hann að leggja blessun sína yfir stjórnarskrársniðgöngu ríkisstjórnarinnar.  Synji hann lögunum, þurfa að öllum líkindum að fara fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrst um nýjustu smíðina og síðan um þá sem áður var búið að synja.  Þetta er vissulega snúið álitaefni og gæti reynst eitrað peð fyrir forsetann.  Það er svo annað mál að svona málatilbúnaður er ekki nokkurri ríkisstjórn sæmandi, að ekki sé minnst á þá svívirðu að standa í stöðugum illdeilum við þjóðhöfðingjann, og þarf mjög einbeittan brotavilja til að standa að málum með þessum hætti.  Hann skortir reyndar ekki hjá núverandi ríkisstjórn.
 
Fljótt á litið mætti líta svo á að forsetinn væri hér í stöðu þar sem allir kostir væru slæmir og honum til vandræða.  Svo þarf þó ekki að vera.  Hugsanlega gæti einhver höfðað dómsmál vegna málsmeðferðar stjórnvalda.  Þá væri eðlilegt að forseti héldi sér til hlés á meðan dómstólar – bæði dómstig – fjölluðu um málið og eftir fallinn dóm yrði forsetinn í betri stöðu.  
 

2004-07-20

Aðhalds er þörf

Vísir.is greinir frá því í dagDavíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafi gert með sér samkomulag um að fella öll ákvæði út úr því fjölmiðlafrumvarpi sem hefur legið fyrir Alþingi að undanförnu nema ákvæði um brottfall fyrri laga og breytingu á skipun útvarpsréttarnefndar. „Hluti af niðurstöðum viðræðna Halldórs og Davíðs er að stofnuð verði nefnd um málefni stjórnarskrárinnar. Stefnt verður að því að festa í stjórnarskrá þá framkvæmdahefð sem verið hefur á Íslandi frá stofnun lýðveldisins, það er að segja að forseti framkvæmi einungis vald ráðherra. Forsetinn yrði eftir því valdalaus og málskotsréttur hans til þjóðarinnar, eins og honum var beitt 2. júní , væntanlega afnuminn.“ Mbl.is orðar þetta þannig að búast megi „við að lögð verði fram yfirlýsing eða þings­ályktunar­tillaga þar sem m.a. verður lýst yfir vilja til að endurskoða 26. grein stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta Íslands.“

Gangi þetta eftir, er það í sjálfu sér ágætt að þeir lagsbræður, Davíð og Halldór, hafi loksins séð að sér og dregið ólög sín til baka. Hitt er ískyggilegt að þessir peyjar haldi að þeir komist upp með að semja sín í milli um breytingar á hinum og þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Henni verður ekki breytt eftir geðbrigðum Davíðs Oddssonar eða að undirlægjuhætti Halldórs Ásgrímssonar. Allur ferill þessa svonefnda fjölmiðlamáls, frá upphafi til enda, undirstrikar nauðsyn þess að valdasjúkum stjórnmálamönnum sé veitt aðhald. Gleymum því ekki að hefði forseti Íslands ekki nýtt málskotsréttinn, sætum við uppi með fjölmiðlafrumvarpið eins og Alþingi gekk frá því í vor.  Mér er það mjög til efs að þjóðin sætti sig við að málskotsrétturinn verði afnuminn og pólitíkusar geti valsað um eftirlits- og aðhaldslausir, sérílagi eftir að áðurnefndir radíusbræður íslenskra stjórnmála hafa viðrað gamansemi sína. Ég – fyrir minn hatt – tek það ekki í mál!

2004-07-19

Strengjabrúðan

„Miðað við þau rök sem forsetinn lagði fram við synjun laganna þá er búið að breyta þeirri stjórnskipan sem við höfum haft í 60 ár og það er ekki hægt að stjórna landinu með þeim leikreglum sem hann leggur upp með.  [...]
Það hljóta allir ábyrgir þingmenn að vera að reyna að finna leið út úr þeim ógöng­um sem Ólafur Ragnar Grímsson kom þjóðinni í með því að neita að undirrita þetta dægurmál.“
Þessi orð hefur Fréttablaðið eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni í dag (mánudaginn 19. júlí 2004, forsíðugrein).
 
Það er auðvitað laukrétt að tíðindi gerðust í stjórnskipan Íslendinga þegar forsetinn beitti málskotsréttinum í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins.  En það hefur fleira borið til tíðinda á þessu 60 ára afmælisári lýðveldisins.  Forsætisráðherra hefur gengið fram með þvílíkri ósvífni og óbilgirni að þess finnast engin dæmi a.m.k. frá 1944 og eru menn þó ýmsu vanir frá hans hendi.  Allt frá byrjun þessa árs hefur hann verið með eilíf ónot í garð forsetans og reynt að niðurlægja hann á ýmsa lund.  Síðan fer hann fram með fáheyrða hrákasmíð í formi lagafrumvarps og þvingar í gegnum Alþingi með minnsta mögulega meirihluta.
 
Þjóðinni ofbauð þetta skefjalausa ofbeldi og tugþúsundir manna skoruðu á forsetann að synja þessum lögum staðfestingar.  Óvilhallir og vandaðir lagaprófessorar, sem styðja reyndar ríkisstjórnarflokkana, lýstu yfir miklum efasemdum um að lögin stæðust stjórnarskrá.  Það var því einboðið að forsetinn skyti þessu máli til þjóðarinnar svo sem stjórnarskrá mælir fyrir um skýrum orðum. 
 
Auðvitað sá forsætisráðherrann að málið var tapað.  Skoðanakannanir sýndu ljóslega að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar ætlaði að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu og fella ólögin.  Eftir að hafa íhugað að setja takmarkanir á atkvæðisrétt þeirra sem vildu hafna ólögunum, ákvað hann að leggja fram nýtt frumvarp þar sem hin fyrri fjölmiðlalög voru úr gildi numin og önnur sett sem voru að mestu leyti samhljóða þeim fyrri.  Þetta þótti forsætisráðherra svo fyndið að hann hló dag út og dag inn.  Hann hlær að vísu ekki lengur.
 
Tilvitnuð orð Guðlaugs Þórs segja mest um hann sjálfan. Það er auðvitað bull að ekki sé hægt að stjórna landinu þó að forsetinn skrifi ekki upp á hvaða vitleysu sem hinum gerræðisfulla forsætisráðherra þóknast að leggja fyrir hann til undir­skriftar.  Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, hefur talið líklegt að hægt væri að boða til þjóðaratkvæðisgreiðslu með einfaldri auglýsingu – málið er nú ekki flóknara en það fyrir þá sem vilja fylgja lögum og stjórnarskrá.  Málið verður hins vegar snúnara þegar menn vilja fara á svig við lög þegar þau henta ekki og beita þá hártogunum, útúrsnúningum og þrætubókarstagli.

Guðlaugur Þór kallar þetta dægurmál og endurómar þar máflutning forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, flokksbróðir þeirra, sagði málið stórt og umfangsmikið þegar hann var að verja hik sitt á fundarboðun í allsherjarnefnd á dögunum, sem forsætisráðherra tók svo að sér fyrir hann, óbeðinn.  Mikill meirihluti þjóðarinnar er einnig ósammála Guðlaugi Þór um að þetta sé dægurmál.  Málið snýst um grundvallarréttindi borgaranna, tjáningarfrelsi og eignarréttindi.  Það blasir svo við öllum réttsýnum mönnum að sá maður sem þykir þetta létt í vasa og telur að auki að málskotsréttur til þjóðarinnar leiði menn í ógöngur, hefur ekki mikla ást á lýðræði og frelsi, enda hefur þessi ólánlegi verkamaður í víngarði Davíðs orðið að kokgleypa allan sinn fyrri fagurgala um lýðræði og frelsi, ef einhver meining bjó þar yfirleitt að baki.  Hann hefur komið sér í þá stöðu að þylja á torgum hvaða þá vitleysu sem húsbóndinn réttir honum.  Ófrelsi hans æpir á tilheyrendur, en sjálfur heyrir hann aðeins rödd húsbóndans. 

 

2004-07-15

Höfnum valdastreitumönnum

Framsóknarmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson tjáði sig um erfiðleika flokks síns í Kastljósi í gærkvöldi. Það mátti sjá að megn andstaða flokkssystkina hans við fjölmiðlafrumvarpið hafði haft áhrif á hann á þann veg að hann taldi rétt að skoða málið upp á nýtt. Það er gott að menn rumski af valdavímunni og sjá grilla í raunveruleikann.

Þegar forseti Íslands synjaði gildandi fjölmiðlalögum staðfestingar kom berlega í ljós að mikill meirihluti landsmanna stóð þar þétt við bak hans og var þeirrar skoðunar að málskotsréttur forsetans væri ótvíræður. Óvilhallir lögspekingar eru sömu skoðunar. Posungur Framsóknar í Kastljósi hélt sig hins vegar við leist valdastreitumanna og fannst greinilega fráleitt að fólkið í landinu ætti að hafa nokkuð um þetta mál að segja. Orðbragð Guðjóns um forseta Íslands var honum til skammar og reiknast honum ekki til afbötunar þó að tilgangur hans með dónaskapnum hafi verið sá að sleikja sig upp við valdherrana.

Íslenskir kjósendur ættu nú að þekkja þá einstaklinga sem vilja takmarka vald kjósenda sem mest en auka að sama skapi vald þeirra fáu sem hafa olnbogað sig upp á toppinn með fulltingi ólýðræðislegra leikreglna og eru svo til alls vísir í trausti þess að langt sé í næstu kosningar og minni kjósenda dapurt. Það er áríðandi að hafna valdastreitumönnum og kjósa lýðræðislega þenkjandi menn hvar í flokki sem þeir finnast.

2004-07-14

Stríðsæsingamenn

Það er er að koma æ betur í ljós að hinn almenni framsóknarmaður er sáróánægður með hundstryggð flokksforystunnar við fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar og ekki síst þá ofbeldisbrellu að taka málið úr eðlilegum farvegi þjóðaratkvæðagreiðslu. Formaður Framsóknarfélags Bolungarvíkur hefur tjáð sig opinberlega með skýrum hætti og framsóknarmenn í Reykjavík suður hafa fundað um málið og þeim er ekki jafn skemmt yfir þessu og forsætisráðherranum sem hlær með öllum kjaftinum yfir snilli sinni. Óánægja framsóknarmanna er auðvitað skiljanleg þar sem fylgið hrynur af þeim þessa dagana. Þetta máttu þeir þó vita því Framsókn hefur ævinlega goldið samstarf við íhaldið dýru verði. Þeim mátti líka vera ljóst að þeir voru að binda ráð sitt við refshala þar sem Davíð Oddsson er annars vegar. Ekki vakir hann yfir velferð Framsóknarflokksins, svo mikið er víst. Og nú hefur Davíð - með fulltingi formanns Framsóknarflokksins - efnt til ófriðar með íslensku þjóðinni sem ekki sér fyrir endann á. Þetta er framsóknarmönnum fullljóst þó að formaður þeirra telji sig hafa vægt, vitinu meiri, og varaformaður flokksins tali fjálglega um útrétta sáttahönd ríkisstjórnarinnar. Flokkssystkin þeirra sjá hins vegar sáttahöndina í réttu ljósi og þeim líkar greinilega ekki hvert viskustykkið Halldór Ásgrímsson er að fara með flokkinn.

Það er ástæða fyrir framsóknarmenn og landsmenn alla að gleyma ekki öðru óhæfuverki þeirra Davíðs og Halldórs. Það er stuðningur þeirra við stríðsrekstur Bandaríkjastjórnar og Bretlands í Írak gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta íslensku þjóðarinnar. Það er kaldhæðnislegt að líklega fær Davíð ekkert annað en létt klapp á bakið frá Bush fyrir stuðninginn. Bandaríkjamenn munu halda sínu striki og draga saman seglin á Miðnesheiði hvað sem þeir stríðsbræður hafa fundið sér til að flissa yfir í Washington.

2004-07-13

Stórlega ofmetið gæludýr

Jón Steinar Gunnlaugsson er með athyglissjúkari mönnum norðan Alpafjalla og besserwisser par excellence. Undir verndarvæng Davíðs hefur hann fengið að láta ljós sitt skína langt umfram eftirspurn. Sú ákvörðun Háskólans í Reykjavík að dubba þennan þrætubókarstaglara upp í prófessorsembætti sýnir best að stofnunin er reiðubúin að fórna fagmennsku fyrir pólitískan velvilja þegar það þykir henta. Jón Steinar er pólitískasti og hlutdrægasti lögmaður landsins og af þeirri ástæðu einni ættu fjölmiðlar að varast hann eins og heitan eldinn í faglegri umræðu. Því er ekki að heilsa og ber það ekki fjölmiðlunum faglegt vitni. Það væri meira vit í því að setja lög sem skylduðu fjölmiðla til að vinna faglega og láta ekki gæludýrin vitna um húsbændur sína eða vini en að setja þau fáránlegu ólög sem nú er verið að þröngva í gegnum Alþingi Íslendinga með dæmalausu ofbeldi.

2004-07-11

You talk - we die!

Þetta er áletrun af kröfuspjöldum aðgerðasinna gegn alnæmi í Bankok.

Ákaflega beinskeytt ádeila á viljalausa stjórnmálamenn.

2004-07-09

Þrautakóngar þrælsóttans

Björn Bjarnason hitti naglann á höfuðið – að vísu óvart – þegar hann kallaði það brellu að breyta nýsettum fjölmiðlalögum á Alþingi. Þegar honum varð ljóst að brellunni hafði verið hrint í framkvæmd reyndi hann í ofboði að klóra í bakkann og breytti vefsíðu sinni til að fela fyrri skoðun sína á málinu. Það reyndist of seint í rassinn gripið þar sem net- og fjölmiðlar höfðu þá veitt þessu eftirtekt og birt tilvitnanir í upphafleg skrif Björns. Nú liggur það fyrir að Björn vílar ekki fyrir sér að ritskoða pistla á vef sínum eftir því sem pólitískir vindar blása hverju sinni. Það er því ómögulegt að vísa til þessara skrifa nema í vitna viðurvist.

Skýringar Björns á þessum gæsalappaæfingum eru með ólíkindum fáránlegar og það er satt að segja dapurlegt að horfa á vel gefinn mann eins og Björn Bjarnason hrekjast í þá ólánlegu stöðu að eiga sér enga undankomuleið aðra en barnalegt bull. Hann er hins vegar ekki einn um það því samráðherrar hans mega líka þola þessi slæmu örlög. Slíkur er þrælsótti þeirra við Davíð Oddsson að þeir kjósa að fylgja honum út í hvaða forarvilpu sem er gagnrýnislaust. Það sama gildir auðvitað um stjórnarþingmennina alla, nema kannski Kristinn H. Gunnarsson, sem er eini stjórnarþingmaðurinn sem þorir að standa í lappirnar og hafa sjálfstæða skoðun.

Það mætti kannski segja að lítið leggðist fyrir kappana, ef það orð átti þá einhvern tímann við um þetta lið.

2004-07-07

Talað út úr mínu hjarta

Ólafur Mixa, læknir, skrifar frábæra grein í Morgunblaðið í dag um stjórnmálastöðuna. Greining hans er málefnaleg og löngu tímabær. Ég get tekið undir hvert orð í greininni.



Það er líka löngu tímabært að losna við þessa ríkisstjórn, eða í það minnsta forkólfa hennar. Ósvífni Davíðs eykst með hverjum deginum og Halldór virðist vera til í allt fyrir forsætisráðherrastólinn. Niðurlæging hans er mikil og ekki er annað að sjá en að hyldýpisgjá hafi myndast milli hans og Framsóknarflokksins. Í það minnsta eru ungir Framsóknarmenn algjörlega á móti nýjustu brellu hins tvíhöfða ríkisstjórnarþurs, ef marka má frásögn RÚV í morgun. Vonandi er Davíð á förum, en best væri að Halldór færi líka.

Loksins, loksins, loksins!

Eftir mikið stapp og stúss,
stjórnarkrísu, mikið fúss,
druslugang og dufl við sjúss
Dabbi fékk að hitta Búss.

2004-07-06

Geir í vondum málum

Allt frá því að fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddsonar leit dagsins ljós hafa ýmsir málsvarar Sjálfstæðisflokksins farið með marga þuluna sem síðan hefur reynst vera bull, ergelsi og firra. Það hefur reyndar gerst oft áður, en nú hefur keyrt um þverbak. Kannski ber þar hæst ruglanda Davíðs um vanhæfi forseta Íslands til að beita stjórnarskrárvörðum málskotsrétti. Því ákvæði hefur nú verið beitt án þess að öðrum sögum fari af meintu vanhæfi en óskiljanlegu þrugli Davíðs þar um og svo þeirra skósveina hans sem átu upp eftir honum gagnrýnislaust.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sá prúði maður Geir Haarde, hefur haldið sér til hlés í þessari umræðu svo eftir hefur verið tekið. En nú hefur hann orðið að ganga undir hið fjallþunga ok sem formaðurinn hefur lagt samstarfsmönnum sínum á herðar. Í gærkvöldi sat hann með Steingrími J. Sigfússyni í Íslandi í dag og reyndi að verja vondan málstað Davíðs, sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum. Ekki brann sannfæringareldur úr augum varaformannsins í þeim umræðum, svo mikið er víst.

Í dag mætti svo Geir á fund flokksbræðra sinna í Verði og fór þar með undarlegar staðhæfingar svo ekki sé meira sagt. Þar sagði hann, samkvæmt frásögn mbl.is, „að hann teldi að með þeim breytingum sem ætlunin sé að gera á lögunum, einkum með því að skjóta gildistöku aftur fyrir næstu þingkosningar, hafi botninum verið kippt undan málflutningi forseta Íslands, þegar hann ákvað að undirrita ekki lögin frá því í maí.“ Mér vitanlega hefur forsetinn ekki tekið til máls um það frumvarp sem nú liggur fyrir sumarþingi, þannig að ekki er hægt að kippa botninum undan því sem ekkert er. Þegar forsetinn ákvað að skjóta fyrra fjölmiðlafrumvarpi til þjóðarinnar, lágu þær breytingar sem nú hafa verið kynntar ekki fyrir, að minnsta kosti ekki í opinberri umræðu. Þess vegna gátu þessar óframkomnu breytingar varla kippt fótunum undan málflutningi forsetans á þeim tíma.

Auðvitað kemst Geir óheppilega að orði. Sjálfsagt er hann þeirrar skoðunar að forsetinn geti ekki notað fyrri rök sín til að synja fyrirliggjandi frumvarpi staðfestingar og það hefur hann trúlega viljað segja. En útkoman varð svona dæmalaust klaufaleg og vitlaus. Er það ekki líka dálítil fljótfærni að gefa sér að forsetinn endurtaki röksemdafærslu sína óbreytta komi til þess að hann synji núverandi fjölmiðlafrumvarpi staðfestingar, sem engan veginn er víst? Það er ekki fráleitt að gera því skóna að ástæða þessa klaufaskapar Geirs sé einmitt sú að breytingarnar, sem kynntar voru á sunnudaginn, voru gerðar með hliðsjón af röksemdafærslu forseta Íslands frá 2. júní s.l. og með það fyrir augum að gera honum erfitt fyrir að beita sömu rökum gegn þeirri smíð sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi Íslendinga.

Það er dapurlegt að horfa upp á hinn geðþekka Geir Haarde bætast í hóp bullaranna og sjá hann svitna og stama á Varðarfundi fyrir málstað sem hann ætlaði aldrei að verja.

2004-07-05

Barbabrella

Sumir kynnu að freistast til að taka undir með sjálfumglöðum Davíð og segja að afturköllun fjölmiðlalaganna væri snjöll lausn. Varla þó Björn Bjarnason sem kallaði slíkar æfingar brellur á vefsíðu sinni 3. júní (sjá deiglan.com). Fróðlegt verður að sjá hvaða nafngift hann kemur með næst. En reyndar er þessi niðurstaða ósigur fyrir ríkisstjórnina og þá fyrst og fremst núverandi oddvita hennar, Davíð Oddsson, sem hugðist þröngva hefndarfrumvarpi sínu upp á þjóðina sem lögum. Forsetinn sló á puttana á honum og nú reynir Davíð að bjarga andlitinu. Hann þorir ekki með málið fyrir þjóðina, enda veit hann sem er að þar tapar hann því endanlega.

Sjálfsagt fær hann þessa frumvarpsnefnu samþykkta á sumarþinginu, rétt eins og fyrri útgáfuna sem smó naumlega í gegnum þingið í vor. Það breytir ekki öllu. Norðurljós fara í mál og dómstólar munu kveða upp dóm. Sagan mun svo kveða upp sinn dóm um Davíð og vinnubrögð hans og hún verður ekki eingöngu skrifuð af vildarvinum. Það er ekki alveg víst að söguritarar framtíðar missi sig í lofgjörð um snilld þessa millileiks.