2004-07-14

Stríðsæsingamenn

Það er er að koma æ betur í ljós að hinn almenni framsóknarmaður er sáróánægður með hundstryggð flokksforystunnar við fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar og ekki síst þá ofbeldisbrellu að taka málið úr eðlilegum farvegi þjóðaratkvæðagreiðslu. Formaður Framsóknarfélags Bolungarvíkur hefur tjáð sig opinberlega með skýrum hætti og framsóknarmenn í Reykjavík suður hafa fundað um málið og þeim er ekki jafn skemmt yfir þessu og forsætisráðherranum sem hlær með öllum kjaftinum yfir snilli sinni. Óánægja framsóknarmanna er auðvitað skiljanleg þar sem fylgið hrynur af þeim þessa dagana. Þetta máttu þeir þó vita því Framsókn hefur ævinlega goldið samstarf við íhaldið dýru verði. Þeim mátti líka vera ljóst að þeir voru að binda ráð sitt við refshala þar sem Davíð Oddsson er annars vegar. Ekki vakir hann yfir velferð Framsóknarflokksins, svo mikið er víst. Og nú hefur Davíð - með fulltingi formanns Framsóknarflokksins - efnt til ófriðar með íslensku þjóðinni sem ekki sér fyrir endann á. Þetta er framsóknarmönnum fullljóst þó að formaður þeirra telji sig hafa vægt, vitinu meiri, og varaformaður flokksins tali fjálglega um útrétta sáttahönd ríkisstjórnarinnar. Flokkssystkin þeirra sjá hins vegar sáttahöndina í réttu ljósi og þeim líkar greinilega ekki hvert viskustykkið Halldór Ásgrímsson er að fara með flokkinn.

Það er ástæða fyrir framsóknarmenn og landsmenn alla að gleyma ekki öðru óhæfuverki þeirra Davíðs og Halldórs. Það er stuðningur þeirra við stríðsrekstur Bandaríkjastjórnar og Bretlands í Írak gegn vilja yfirgnæfandi meirihluta íslensku þjóðarinnar. Það er kaldhæðnislegt að líklega fær Davíð ekkert annað en létt klapp á bakið frá Bush fyrir stuðninginn. Bandaríkjamenn munu halda sínu striki og draga saman seglin á Miðnesheiði hvað sem þeir stríðsbræður hafa fundið sér til að flissa yfir í Washington.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli