2004-07-06

Geir í vondum málum

Allt frá því að fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddsonar leit dagsins ljós hafa ýmsir málsvarar Sjálfstæðisflokksins farið með marga þuluna sem síðan hefur reynst vera bull, ergelsi og firra. Það hefur reyndar gerst oft áður, en nú hefur keyrt um þverbak. Kannski ber þar hæst ruglanda Davíðs um vanhæfi forseta Íslands til að beita stjórnarskrárvörðum málskotsrétti. Því ákvæði hefur nú verið beitt án þess að öðrum sögum fari af meintu vanhæfi en óskiljanlegu þrugli Davíðs þar um og svo þeirra skósveina hans sem átu upp eftir honum gagnrýnislaust.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sá prúði maður Geir Haarde, hefur haldið sér til hlés í þessari umræðu svo eftir hefur verið tekið. En nú hefur hann orðið að ganga undir hið fjallþunga ok sem formaðurinn hefur lagt samstarfsmönnum sínum á herðar. Í gærkvöldi sat hann með Steingrími J. Sigfússyni í Íslandi í dag og reyndi að verja vondan málstað Davíðs, sem ríkisstjórnin hefur gert að sínum. Ekki brann sannfæringareldur úr augum varaformannsins í þeim umræðum, svo mikið er víst.

Í dag mætti svo Geir á fund flokksbræðra sinna í Verði og fór þar með undarlegar staðhæfingar svo ekki sé meira sagt. Þar sagði hann, samkvæmt frásögn mbl.is, „að hann teldi að með þeim breytingum sem ætlunin sé að gera á lögunum, einkum með því að skjóta gildistöku aftur fyrir næstu þingkosningar, hafi botninum verið kippt undan málflutningi forseta Íslands, þegar hann ákvað að undirrita ekki lögin frá því í maí.“ Mér vitanlega hefur forsetinn ekki tekið til máls um það frumvarp sem nú liggur fyrir sumarþingi, þannig að ekki er hægt að kippa botninum undan því sem ekkert er. Þegar forsetinn ákvað að skjóta fyrra fjölmiðlafrumvarpi til þjóðarinnar, lágu þær breytingar sem nú hafa verið kynntar ekki fyrir, að minnsta kosti ekki í opinberri umræðu. Þess vegna gátu þessar óframkomnu breytingar varla kippt fótunum undan málflutningi forsetans á þeim tíma.

Auðvitað kemst Geir óheppilega að orði. Sjálfsagt er hann þeirrar skoðunar að forsetinn geti ekki notað fyrri rök sín til að synja fyrirliggjandi frumvarpi staðfestingar og það hefur hann trúlega viljað segja. En útkoman varð svona dæmalaust klaufaleg og vitlaus. Er það ekki líka dálítil fljótfærni að gefa sér að forsetinn endurtaki röksemdafærslu sína óbreytta komi til þess að hann synji núverandi fjölmiðlafrumvarpi staðfestingar, sem engan veginn er víst? Það er ekki fráleitt að gera því skóna að ástæða þessa klaufaskapar Geirs sé einmitt sú að breytingarnar, sem kynntar voru á sunnudaginn, voru gerðar með hliðsjón af röksemdafærslu forseta Íslands frá 2. júní s.l. og með það fyrir augum að gera honum erfitt fyrir að beita sömu rökum gegn þeirri smíð sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi Íslendinga.

Það er dapurlegt að horfa upp á hinn geðþekka Geir Haarde bætast í hóp bullaranna og sjá hann svitna og stama á Varðarfundi fyrir málstað sem hann ætlaði aldrei að verja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli