2004-07-19

Strengjabrúðan

„Miðað við þau rök sem forsetinn lagði fram við synjun laganna þá er búið að breyta þeirri stjórnskipan sem við höfum haft í 60 ár og það er ekki hægt að stjórna landinu með þeim leikreglum sem hann leggur upp með.  [...]
Það hljóta allir ábyrgir þingmenn að vera að reyna að finna leið út úr þeim ógöng­um sem Ólafur Ragnar Grímsson kom þjóðinni í með því að neita að undirrita þetta dægurmál.“
Þessi orð hefur Fréttablaðið eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni í dag (mánudaginn 19. júlí 2004, forsíðugrein).
 
Það er auðvitað laukrétt að tíðindi gerðust í stjórnskipan Íslendinga þegar forsetinn beitti málskotsréttinum í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins.  En það hefur fleira borið til tíðinda á þessu 60 ára afmælisári lýðveldisins.  Forsætisráðherra hefur gengið fram með þvílíkri ósvífni og óbilgirni að þess finnast engin dæmi a.m.k. frá 1944 og eru menn þó ýmsu vanir frá hans hendi.  Allt frá byrjun þessa árs hefur hann verið með eilíf ónot í garð forsetans og reynt að niðurlægja hann á ýmsa lund.  Síðan fer hann fram með fáheyrða hrákasmíð í formi lagafrumvarps og þvingar í gegnum Alþingi með minnsta mögulega meirihluta.
 
Þjóðinni ofbauð þetta skefjalausa ofbeldi og tugþúsundir manna skoruðu á forsetann að synja þessum lögum staðfestingar.  Óvilhallir og vandaðir lagaprófessorar, sem styðja reyndar ríkisstjórnarflokkana, lýstu yfir miklum efasemdum um að lögin stæðust stjórnarskrá.  Það var því einboðið að forsetinn skyti þessu máli til þjóðarinnar svo sem stjórnarskrá mælir fyrir um skýrum orðum. 
 
Auðvitað sá forsætisráðherrann að málið var tapað.  Skoðanakannanir sýndu ljóslega að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar ætlaði að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu og fella ólögin.  Eftir að hafa íhugað að setja takmarkanir á atkvæðisrétt þeirra sem vildu hafna ólögunum, ákvað hann að leggja fram nýtt frumvarp þar sem hin fyrri fjölmiðlalög voru úr gildi numin og önnur sett sem voru að mestu leyti samhljóða þeim fyrri.  Þetta þótti forsætisráðherra svo fyndið að hann hló dag út og dag inn.  Hann hlær að vísu ekki lengur.
 
Tilvitnuð orð Guðlaugs Þórs segja mest um hann sjálfan. Það er auðvitað bull að ekki sé hægt að stjórna landinu þó að forsetinn skrifi ekki upp á hvaða vitleysu sem hinum gerræðisfulla forsætisráðherra þóknast að leggja fyrir hann til undir­skriftar.  Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, hefur talið líklegt að hægt væri að boða til þjóðaratkvæðisgreiðslu með einfaldri auglýsingu – málið er nú ekki flóknara en það fyrir þá sem vilja fylgja lögum og stjórnarskrá.  Málið verður hins vegar snúnara þegar menn vilja fara á svig við lög þegar þau henta ekki og beita þá hártogunum, útúrsnúningum og þrætubókarstagli.

Guðlaugur Þór kallar þetta dægurmál og endurómar þar máflutning forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, flokksbróðir þeirra, sagði málið stórt og umfangsmikið þegar hann var að verja hik sitt á fundarboðun í allsherjarnefnd á dögunum, sem forsætisráðherra tók svo að sér fyrir hann, óbeðinn.  Mikill meirihluti þjóðarinnar er einnig ósammála Guðlaugi Þór um að þetta sé dægurmál.  Málið snýst um grundvallarréttindi borgaranna, tjáningarfrelsi og eignarréttindi.  Það blasir svo við öllum réttsýnum mönnum að sá maður sem þykir þetta létt í vasa og telur að auki að málskotsréttur til þjóðarinnar leiði menn í ógöngur, hefur ekki mikla ást á lýðræði og frelsi, enda hefur þessi ólánlegi verkamaður í víngarði Davíðs orðið að kokgleypa allan sinn fyrri fagurgala um lýðræði og frelsi, ef einhver meining bjó þar yfirleitt að baki.  Hann hefur komið sér í þá stöðu að þylja á torgum hvaða þá vitleysu sem húsbóndinn réttir honum.  Ófrelsi hans æpir á tilheyrendur, en sjálfur heyrir hann aðeins rödd húsbóndans. 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli