2004-07-15

Höfnum valdastreitumönnum

Framsóknarmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson tjáði sig um erfiðleika flokks síns í Kastljósi í gærkvöldi. Það mátti sjá að megn andstaða flokkssystkina hans við fjölmiðlafrumvarpið hafði haft áhrif á hann á þann veg að hann taldi rétt að skoða málið upp á nýtt. Það er gott að menn rumski af valdavímunni og sjá grilla í raunveruleikann.

Þegar forseti Íslands synjaði gildandi fjölmiðlalögum staðfestingar kom berlega í ljós að mikill meirihluti landsmanna stóð þar þétt við bak hans og var þeirrar skoðunar að málskotsréttur forsetans væri ótvíræður. Óvilhallir lögspekingar eru sömu skoðunar. Posungur Framsóknar í Kastljósi hélt sig hins vegar við leist valdastreitumanna og fannst greinilega fráleitt að fólkið í landinu ætti að hafa nokkuð um þetta mál að segja. Orðbragð Guðjóns um forseta Íslands var honum til skammar og reiknast honum ekki til afbötunar þó að tilgangur hans með dónaskapnum hafi verið sá að sleikja sig upp við valdherrana.

Íslenskir kjósendur ættu nú að þekkja þá einstaklinga sem vilja takmarka vald kjósenda sem mest en auka að sama skapi vald þeirra fáu sem hafa olnbogað sig upp á toppinn með fulltingi ólýðræðislegra leikreglna og eru svo til alls vísir í trausti þess að langt sé í næstu kosningar og minni kjósenda dapurt. Það er áríðandi að hafna valdastreitumönnum og kjósa lýðræðislega þenkjandi menn hvar í flokki sem þeir finnast.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli