2008-12-05

Rúnar Júlíusson - In memoriam


Ísland hefur bara átt einn virkilegan töffara. Og núna er hann allur.

Það er krepputíð, en öll él birtir upp um síðir.

En það verður aldrei til nema einn Rúnar Júlíusson.

(Sjá þetta blog í tilefni sextugsafmælis Rúnars).

2008-10-11

Barbabrella hittir Breta fyrir

Það skyldi þó aldrei fara svo að barbabrella lagsbræðranna Darling og Brown muni hitta Bretland og þá sjálfa verst fyrir þegar upp er staðið. Hvorugur þeirra virðist hafa áttað sig á því að breskir hagsmunir kynnu að falla fyrir borð ef ráðist yrði gegn íslenskum bönkum í Bretlandi.

Áhrifin virðast ætla að verða enn víðtækari því gengi pundsins hefur fallið töluvert gagnvart dollara og jeni af því að menn hafa áhyggjur af deilu Íslendinga og Breta.

Þetta dæmi ætti að vera misvitrum stjórnmálamönnum á lágu siðferðisplani til viðvörunar um að falla ekki stundarfreistni eigingirninnar og fálma í hálmstrá frekar en að koma hreint fram og taka afleiðingum gjörða sinna.

2008-10-09

Erfið samskipti við Breta

Samskipti Íslendinga og Breta hafa hríðversnað á fáum dögum og svo virðist sem um einhvern misskilning sé að ræða. Baldur McQueen varpar athyglisverðu ljósi á þetta á bloggi sínu og bendir á að Tryggvi Þór Herbertsson hafi 4. október fullyrt „að íslenska ríkið muni taka ábyrgð á sínum hluta innlána á IceSave“. Íslenska ríkið hafi svo daginn eftir sent út yfirlýsingu þar sem „lofað er að ríkið muni taka ábyrgð á sínum hluta innlána á IceSave“. Síðan kemur óljóst viðtal við Össur Skarphéðinsson á mánudag, síðan símtal Árna Mathiesen og Alistair Darling á þriðjudag þar sem Árni „virðist hafa sett einhverja fyrirvara á aðkomu Íslands, ef ekki beinlínis afneitað henni“. Svo kemur hið dæmalausa viðtal við Davíð Oddsson á þriðjudagskvöldið og daginn eftir segir Alistair Darling að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar. Á fjármálavefnum Fool.co.uk er þessu lýst svona:
„The Chancellor also revealed that he had spoken to Iceland’s finance minister yesterday and been told that Iceland wouldn’t compensate UK savers in Iceland. Darling was clearly angered by this answer.“
Þetta verður tæplega skilið öðruvísi en svo að Árni Mathiesen hafi verið myrkur í máli í símtalinu við Alistair Darling svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Brennuvargurinn í Seðlabankanum

Undanfarna daga hefur mikið gengið á í fjármálaumhverfi heimsins og Ísland hefur ekki farið varhluta af því. Rótgróin og traust fjármálafyrirtæki eins og Lehman Brothers og Merrill Lynch í Bandaríkjunum hafa farið á hausinn eða verið yfirtekin. Algjör lausafjárþurrð hefur verið á fjármálamörkuðum um allan heim. Þetta ástand hefur leitt til þess að íslensku bankarnir hafa átt í erfiðleikum með nauðsynlega endurfjármögnun og því lent í vandræðum.

Þetta er ærinn vandi við að etja. En íslensku bankarnir hafa átt við annan séríslenskan vanda að etja. Verðbólga og stýrivextir eru hærri hér en í nágrannalöndunum og í Seðlabanka Íslands situr gjörsamlega óhæfur maður á æðsta tróni, afdankaður uppgjafapólitíkus sem hefur skrúfað upp laun sín í öfugu hlutfalli við getu sína til að gegna því starfi sem hann tók sér. Þessi maður ber öðrum fremur ábyrgð á því að í dag eru þrír stærstu bankar landsins orðnir ríkisbankar aftur og hluthafar þeirra, m.a. lífeyrissjóðir landsmanna, hafa tapað stórfé.

Um miðja 30. viku leitaði stjórnarformaður Glitnis til formanns bankastjórnar Seðlabankans og óskaði eftir láni vegna þess að lánamöguleikar bankans höfðu allt í einu lokast og á næsta leiti var gjalddagi. Á einni helgi var ríkið búið að kaupa 3/4 hluta bankans á gengi undir 2, þegar gengi bankans var 15,7 föstudeginum á undan. Formaður bankastjórnar Seðlabankans talaði um að ef ríkið hefði ekki gripið inn í með þessum hætti hefði Glitnir orðið gjaldþrota. Svona eiga seðlabankastjórar auðvitað ekki að tala; þetta hjal var vægast sagt heimskulegt, sem og aðgerðin öll, eins og kom á daginn í vikunni á eftir.

Næsta vika var hörð barátta fyrir bankana og eftir síðustu helgi yfirtók ríkið Landsbankann. Þriðjudaginn 7. október kemur svo seðlabankastjóri í viðtal í Kastljósi og lætur þar gamminn geisa og eys svívirðingum á báða bóga, kallar veð þau sem Glitnir bauð „ástarbréf“ og bankamenn „óreiðumenn“. Ennfremur fullyrti hann að Ísland ætlaði ekki að borga erlendar skuldir bankanna, heldur einungis ábyrgjast íslenska sparifjáreigendur og almenning. Afleiðingar þessa gaspurs lét ekki á sér standa. Næsta dag mátti íslenski forsætisráðherrann hafa sig allan við að róa Breta sem hugðu á málsókn gegn okkur fyrir að standa ekki við tryggingar okkar gagnvart breskum sparifjáreigendum. Eignir Landsbankans í Bretlandi voru frystar og einnig ráðist gegn Kaupþingi. Í nótt yfirtók fjármálaeftirlitið Kaupþing. Þar með eru allir hinir einkavæddu bankar aftur orðnir ríkisbankar.

Eins og áður segir var við mikinn vanda að etja, en aðgerðir Seðlabankans og orðræða seðlabankastjórans hafa án efa riðið baggamuninn um framvindu atburða. Eftir að ákveðið var að gera Glitni að ríkisbanka að tveimur þriðju hefur leiðin legið beint niður á við. Um tíma virstist Kaupþing banki ætla að halda velli, enda staða hans sýnu betri en hinna bankanna, en seðlabankastjóra tókst að ganga frá honum í Kastljósviðtalinu. Eðlilegt er að spurt sé hví í ósköpunum seðlabankastjóri mætir í viðtal í dægurmálaþætti í verstu bankakrísu sem uppi hefur verið. Hefur þetta verið háttur kollega hans í öðrum löndum? Enn furðulegra er hversu „frjálslega“ hann talaði þar.

Eftir þjóðnýtingu Glitnis sagði Richard Portes, prófessor við London Business School, að seðlabankastjóri hefði „lagt trúverðugleika íslensks efnahagslífs í rúst“. Og ennfremur:

„Sú ákvörðun að neyða Glitni í þjóðnýtingu var slæm og ónauðsynleg. Hið raunverulega neyðarástand íslenska hagkerfisins hófst með þjóðnýtingunni. Sá verknaður, og hin fráleitu ummæli Davíðs Oddssonar um að aðrir bankar kynnu að hljóta sömu örlög, ættu ekki að heyrast frá neinum seðlabankastjóra“

Þessi orð Portes hafa reynst orð að sönnu. Það er fyrir löngu orðið tímabært að skipta um bankastjórn Seðlabankans. Margir sérfræðingar hafa viðrað þá skoðun, m.a. Þorvaldur Gylfason, Jón Daníelsson (sjá einnig þetta), Guðmundur Ólafsson og fleiri. Á vef Market Watch sem gefið er út af Wall Street Journal er gert grín að seðlabankastjóra fyrir frumhlaup hans varðandi Rússalánið. Er ekki nóg komið af þessari vitleysu? Við þurfum á öðru að halda einmitt núna.

Það var kaldhæðnislegt að seðlabankastjóri skyldi velja sér myndlíkingar um bruna og brennuvarga í sínu dæmalausa Kastljósviðtali. Augljóst er hver er hinn raunverulegi brennuvargur í íslensku fjármálaumhverfi. Verra er að hann þykist vera slökkviliðsmaður, en sprautar olíu á eldinn.


2008-05-22

John Fogerty í Laugardalshöll

Tónleikarnir hans John Fogerty í Laugardalshöllinni 21. maí 2008 voru meiriháttar! Hann lét svolítið bíða eftir sér strákurinn, sirka þrjú korter eða svo, en svo kom hann á svið með þetta líka dúndur band og síðan var ekki slegið af en keyrt á fullu í tvo tíma stanslaust. Á þeim tíma tók hann mörg af gömlu góðu CCR lögunum, Bad moon rising, Susie Q, Who’ll stop the rain, Commotion, Down on the corner, Travelin’ band, Run through the jungle, Lookin’ out my back door, I heard it through the grapewine (með löngum og dásamlegum impróvision kafla), Good Golly Miss Molly, Wrote a song for everyone, Cotton fields, ofl ofl. Þegar hann taldi í Have you ever seen the rain ætlaði allt að verða vitlaust í höllinni og hann fylgdi því eftir með fleiri góðum lögum eins og The Midnight special. Þegar hann var klappaður á svið tók hann Rockin’ all over the world af þrumukrafti sem lyfti þakinu á Laugardalshöllinni.

Bandið hans er stórkostlegt. Baklandið er borið uppi af einhverjum besta trommara sem ég hef heyrt í (Kenny Aronoff, sem hefur reyndar trommað með helstu stórmennum rokksögunnar) og snilldar bassista (Dave Santos). Síðan eru tveir þéttir gítarleikarar (Hunter Perrin og Billy Burnette, sem lék með Fleetwood Mac á árunum 1987-1995) sem spila eins og englar, tveir þúsundþjalasmiðir sem spila á ýmis hljóðfæri eins og hljómborð, kassagítar, rafgítar (NN), slidegítar, mandólín og fiðlu (Jason). Fyrir þessari úrvalssveit fer svo snillingurinn John Fogerty sem aðal sólógítarleikari og söngvari sveitarinnar og sýndi og sannaði að hann er afburða gítarleikari sem hefur sinn sérstaka, dálítið þunglamalega, en hreina og tæra stíl og sánd sem enginn annar nær. Hann sagði víst einhvern tímann að rödd hans væri einstakt hljóðfæri og mér finnst að það hljóðfæri sé eins og Stradivarius og batni bara með aldrinum. Hann er einhver besti söngvari rokksögunnar að mínu mati. Tímaritið Rolling Stone hefur sett hann í 40. sæti yfir bestu gítarleikara allra tíma. Það var því enginn aukvisi sem steig á svið Laugardalshallarinnar klukkan 21:50 miðvikudagskvöldið 21. maí 2008.

Líf John Fogerty hefur ekki alltaf verið dans á rósum þó að það hann dansaði með hvern gítarinn á fætur öðrum um sviðið í Laugardalshöllinni í kvöld eins og unglingur. Í bláköflóttri skyrtu og gallabuxum, grannur og spengilegur, spilaði hann eins og sá sem valdið hefur og stjórnaði hljómsveitinni eins og herforingi. Eftir slétta viku heldur hann upp á 63 ára afmælið sitt og hefur á þeim tíma marga fjöruna sopið.

John fæddist í Berkeley í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum 28. maí 1945. Seint á sjötta áratugnum stofnaði hann hljómsveit ásamt eldri bróður sínum, Tom Fogerty (1941-1990), Doug Clifford og Stu Cook. Hljómsveitin hét upphaflega Tommy Fogerty and the Blue Velvets, breytti um nafn 1965 og kallaðist The Golliwogs. Árið 1968 sló sveitin loks í gegn með laginu Susie Q eftir John Fogerty og hafði þá fengið nafnið Creedence Clearwater Revival (CCR). Síðan kom hver smellurinn eftir annan úr smiðju John Fogerty þar til sveitin leystist upp um 1972, aðallega vegna óánægju hljómsveitarmeðlima með velgengni John Fogerty.

Ári seinna hóf John sólóferil sem hefur staðið allar götur síðan. Sá ferill hefur alls ekki verið sléttur og felldur og John hefur marga hildi háð, m.a. í réttarsölum vegna laga sinna. Ágreiningur reis með þeim bræðrum, John og Tom, sem aldrei jafnaðist og lagðist þetta ástand þungt á John ekki síst þegar Tom bróðir hans andaðist úr berklum árið 1990. Árið 1993, þegar CCR tekin inn í Rock and Roll Hall of Fame, neitaði John að spila með fyrrum félögum sínum úr CCR, Stu Cook og Doug Clifford, en lék þess í stað þrjú CCR lög, Who'll Stop The Rain, Born On The Bayou og Green River með Don Was (á bassa), Robbie Robertson (á gítar), Jim Keltner (á trommur) og Bruce Springsteen (söngur og gítar). Þetta segir kannski meira en mörg orð um samkomulagið í CCR undir það síðasta.

Á sólóferli sínum hefur John Fogerty a.m.k. tvisvar sinnum átt frábærar innkomur á rokksviðið og á allra síðustu árum hefur hann notið mikillar velgengni. Nýjasta platan hans, Revival, kom út 2. október 2007 og var hún tilvefnd til Grammy verðlauna 2008. Fogerty hefur fylgt henni eftir með hjómleikaferð um Ástralíu og núna um Evrópu. Á fimmtudaginn spilar hann í Stokkhólmi og þaðan geysist þessi hæfileikaríki reynslubolti um Evrópu þvera og endilanga, heldur síðan til Bandaríkjanna og telur í síðasta lagið í Aspen, Colorado, 31. ágúst 2008.

John Fogerty og Grímur Atlason: hjartans þakkir frá okkur Stebba.

2008-04-24

Lygalaupur

Í dag kom til átaka þegar vörubílstjórar hugðust sækja haldlagða bíla sína til lögreglu. Skyndilega veittist maður að lögreglumanni og kýldi hann í andlitið. Sturla Jónsson, sem komið hefur fram að undanförnu sem talsmaður vörubílstjóra í mótmælaaðgerðum, sagði við þetta tækifæri að maðurinn væri ekki vörubílstjóri heldur vegfarandi. Í þessari frétt af vísir.is kemur í ljós að þarna fór Sturla vísvitandi með ósannindi.

Eftirfarandi orðaskipti eru úr kvöldfréttatíma RÚV:

Ingólfur fréttamaður: Sturla veistu hver þessi maður var sem að réðist á lögreglumanninn?
Sturla: Nei ég er ekki alveg klár á því.
Ingólfur fréttamaður: Einhver af þínum helduru?
Sturla: Nei.Á myndinni hér að ofan (sem birtist á visir.is) sést Sturla Jónsson með árásarmanninum, Ágústi Fylkissyni, sem er Sturlu á vinstri hönd.

Bróðir árásarmannsins er ósáttur við „að atvinnubílstjórar segist ekki kannast við bílstjórann þar sem hann sé einn þriggja nafngreindra talsmanna hópsins í fjölmiðlum“ (sjá nánar hér).

Sturla Jónsson er ekki aðeins lítilmótlegur gasprari heldur ómerkilegur lygalaupur. Með svona talsmann þurfa vörubílstjórar ekki á óvinum að halda.
 

Vondslega hafa oss bílstjórar blekkt

Vörubílstjórar hafa undanfarna daga haft uppi mótmæli með því að stífla alfaraleiðir með atvinnutækjum sínum. Í upphafi var látið í veðri vaka að ástæðurnar væru hækkandi eldsneytisverð og reglur um hvíldartíma.

Við sem ökum um mjóslegna vegi þessa lands höfum ekki áhuga á að mæta stórkeröldum með syfjaða ökumenn við stýrið og þess vegna á að virða þessar reglur; þær eru nauðsynlegar. Það væri meiri ástæða til að mótmæla því að samgönguráðherra sé að reyna að fá þær rýmkaðar vegna þrýstings frá vörubílstjórum. Ég hef ekið um Ísland þvert og endilangt og aldrei verið í vandræðum með að komast á salerni, fá mér hressingu eða hvíla mig. Ég blæs því á þus bílstjóranna um aðstöðuleysi.

Eldsneytisverð hefur hækkað á heimsmarkaði og einnig hefur gengi íslensku krónunnar fallið. Af þessu leiðir hærra verð fyrir eldsneytið. Stöð 2 greindi frá því í fréttatíma að eldsneytisverð hér á landi væri með því lægsta sem gerist á Norðurlöndunum og hlutur ríkisins minnstur hér í samanburði við grannþjóðirnar. Ef opinberar álögur á eldsneyti verða lækkaðar getur það ekki leitt af sér annað en niðurskurð annars staðar. Slík lækkun kemur helst stórnotendum til góða, en síður þeim sem aka um á venjulegum fólksbílum. Þar með var ekki lengur innistæða fyrir neinni samúð með trökkdræverum. Hagsmunir þeirra eru öndverðir hagsmunum hins almenna launamanns.

Þessir menn eru að villa á sér heimildir. Þeir eru ekki launþegar hjá öðrum. Þetta eru verktakar sem eiga og reka sína bíla sjálfir. Hinn almenni launamaður á enga samleið með þeim. Spyrja má af hverju þeir hækki ekki taxta sína til að mæta hækkandi kostnaði? Svarið gæti verið að þeir séu í bullandi samkeppni hver við annan.

Aðgerðir vörubílstjóranna hafa fyrst og fremst bitnað á almennum borgurum og á stundum stofnað þeim í hættu. Þetta eru nákvæmlega sömu aðferðir og hryðjuverkamenn nota, enda eru þetta hryðjuverk. Lögreglan hefur sýnt þeim óvenju mikið langlundargeð og í raun hefði átt að vera búið að stoppa þessa vitleysu fyrir löngu.

Þessar aðgerðir ber að fordæma og framganga forsprakkans, Sturlu Jónssonar, er honum til háborinnar skammar. Hann hefur þröngan málstað sérhagsmuna að verja, en þykist vera frelsari þjóðarinnar. Hann slær um sig með óljósum frösum og bulli ef hann er krafinn svara. Þetta var opinberað öllum landslýð í Kastljósi í gærkvöldi. Hann hefur enga innistæðu fyrir því að segjast hafa þjóðina á bak við sig. Því fer víðsfjarri!

2008-02-12

Einn (en ekki aleinn)

Einn. Gamli góði Villi mætti fjölmiðlamönnum í gær einn síns liðs. Sexmenningarnir fræknu, sem segjast þó styðja hann, læðupokuðust út um hinar og þessar útgönguleiðir Valhallar og forðuðu sér frá áleitnum og erfiðum spurningum fréttamanna. Skildu gamla manninn eftir einan hjá úlfunum.

Einn. Þegar gengið var á þá sjálfstæðismenn sem í náðist eftir Valhallarfundinn í gær örlaði hvergi á stuðningi við verðandi borgarstjóra Reykjavíkur. Þeirra á meðal var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Einn. Úr leiðurum blaðanna, Morgunblaðið ekki undanskilið, barst heldur ekki neinn stuðningur.

Einn. Á bloggsíðunum fór ekki mikið fyrir stuðningsyfirlýsingum, ekki einu sinni frá sjálfstæðismönnum.

Ekki aleinn. Einn vill þó bera blak af Vilhjálmi: Árni Johnsen. Hann treystir gamla góða Villa og er búinn að átta sig á því að hann hefur bara verið valinn sem fórnarlamb; svona rétt eins og Árni sjálfur forðum daga. Þeir Villi gerðu ekki neitt rangt; einhver ákvað bara að leiða þá til slátrunar – líklega fjölmiðlamenn.

Þeir eiga það sameiginlegt flokksbræðurnir að þeir lentu í þessu.

Að velta röngu og svíkja lit

Stundum er umgengni manna um staðreyndir með miklum ólíkindum. Þeir mega vart sannleikskorn sjá á förnum vegi án þess að þurfa að rangsnúa því, teygja það, toga og afbaka. Þetta er að verða sérstök listgrein hjá vissum hópi sjálfstæðismanna.

Þannig fer Pétur Blöndal með sömu tugguna hvað eftir annað í fjölmiðlum. Að Tjarnarkvartettinn hafi sótt Binga inn í raðir þess meirihluta sem myndaður var eftir kosningarnar 2006 og því sé enginn munur á meirihlutaskiptum í haust og núna í janúar. Það liggur hins vegar fyrir og má lesa í fjölmiðlum að upp kom ágreiningur á milli Sjálfstæðismanna, sem vildu selja REI, og Binga sem ekki vildi selja. Hanna Birna orðaði þetta einhvern veginn þannig á tröppunum hjá Villa að Bingi hefði ekki viljað fallast á þeirra sjónarmið. Hún virtist ekki hafa áttað sig á því í tíma að staðan var ekki sjö gegn einum, heldur hafði Bingi fjöregg meirihlutans í hendi sér. Að lesa ekki stöðuna betur en þetta getur ekki verið ávísun á forystuhlutverk í stjórnmálum.

Á hinn bóginn fór Ólafur Friðrik yfir til Sjálfstæðismanna í janúar án nokkurs ágreinings við þann meirihluta sem hann var guðfaðir að. Sjálfstæðismenn buðu honum hins vegar borgarstjórastól og rýmdu fúslega fyrir málefnalista Ólafs með því að ýta sínum eigin út af borðinu. Hanna Birna mátti til dæmis éta ofan í sig skipulagsmálin og Gísli Marteinn flugvöllinn. Allt til að ná völdum á ný. En hvílíkur Phyrrosarsigur!

Það sér auðvitað hver maður að þarna er allnokkur munur á og ég er viss um að Pétur Blöndal sér það líka, því mér dettur ekki í hug að frýja honum vits. En þess meira gruna ég hann um gæsku sem ég heyri hann oftar tönnlast á sínum heimatilbúnu öfugmælum um þessa atburðarás.

Og svo er það garmurinn hann Villi. Lánlausari mann getur vart í íslenskri pólitík. Þetta er eiginlega átakanlegt upp á að horfa; eftir langan og nokkuð farsælan, en átakalítinn, feril sem borgarfulltrúi í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga þá er hann skyndilega á berangri með allt niðrum sig. Ekki verður betur séð en að hann sé skólabókardæmi um Péturslögmálið (The Peter’s Principle) um að sérhver maður hafi tilhneigingu til að stefna hærra og fara fram úr getu sinni. Vilhjálmur hefur vafalaust verið ágætur borgarfulltrúi, en hann var afleitur borgarstjóri og það væri glapræði að hleypa honum í þann stól aftur.

En það er ekki nóg með að vesalings Villi hafi augljóslega farið fram úr getu sinni. Dómgreindin og siðferðiskenndin hafa algjörlega yfirgefið hann.  Hann fer með ósannindi í fjölmiðla og heldur því fram í fullri alvöru að hann hafi axlað ábyrgð með því að missa borgarstjóra-stólinn síðastliðið haust. Ég treysti mér ekki til að lýsa þessari frammistöðu betur en sjálfstæðismaðurinn Dharma.

Nei, Villi, þetta kallast EKKI að axla ábyrgð, álfurinn þinn...

Það að þú skulir hafa misst borgarstjórastólinn er ekki dæmi um hvernig þú axlaðir ábyrgð.  Þú misstir borgarstjórastólinn því samráðsmaðurinn hljóp í fangið á sósjalistunum!  Þú hefðir glaður viljað sitja áfram. 
Þú skilur þetta ekki.  Ég stórefast hreinlega um að þú hafir gáfnafarið til að vera yfirhöfuð í stjórnmálum! 
Það að þú skyldir missa borgarstjórasætið er AFLEIÐING þess sem þú gerðir.  Þú axlaðir ekki eitt né neitt.  Þú bara vældir og laugst í fjölmiðlum. 
Það að AXLA ÁBYRGÐ hefði verið ef þú hefðir sagt af þér strax í október.  Þá hefði frumkvæðið verið þitt.  Það hefði verið að axla ábyrgð. 
Þú getur EKKI sagt að þú hafir axlað ábyrgð þegar þér var sparkað úr stólnum í hvern þú áttir í sjálfu sér ekkert erindi til að byrja með.  Þú hafðir hreinlega ekkert um málið að segja. 
Þú ert í vinnu fyrir kjósendur, þú brást vinnuveitanda þínum og lýgur svo að honum til að hylja eigin spor.  Slíkt er brottrekstrarsök, en því miður höfum við engin úrræði til að reka þig, önnur en að biðja þig um að segja af þér. 
Þú ert líklegast mesti skúrkur íslenskra stjórnmála fyrr eða síðar.  Þú ert valdasjúkur og veruleikafirrtur, þú berð nákvæmlega ekkert skynbragð á stjórnmál.  Þú ert lítill kerfiskall sem skilur ekki hvert umboð þitt er.  Mikil er skömm þín og þú átt enga, nákvæmlega enga, samúð skylda.


2008-02-03

Björn vill dæma óþægilega umræðu úr leik

Björn Bjarnason var í Silfri Egils í gær og þar barst m.a. skipun dómara norðan og austan í tal.  Björn segir um þessi orðaskipti á bloggsíðu sinni að Sigurður Líndal hafi...

„skrifað sig frá málinu, þegar hann hafi tekið til við að líkja stjórnarathöfn Árna M. Mathiesens við stjórnarhætti nasista – með slíku gerðu menn sig einfaldlega marklausa og þannig væri komið fyrir Sigurði Líndal í þessu máli.“

Í framhaldinu vitnar Björn síðan í mál Daniel Hannan, þingmanns á Evrópuþinginu fyrir breska íhaldsmenn, sem hafði „verið vikið úr þingflokki European People’s Party (EPP) á Evrópuþinginu fyrir ummæli, sem voru túlkuð á þann veg, að hann líkti gjörðum þingforseta við valdatöku nasista.“ Augljóst er að Björn leggur þessi mál að jöfnu þó að hann hirði það eitt upp af vefsíðu Hannan sem hentar hans málflutningi og þess vegna sleppir hann t.d. þessu:

My own Chief Whip, Den Dover, was kind enough to see me afterwards and reassure me that nothing I had said was against Conservative policy, that our party is strongly in favour of a referendum and that, in any case, we are all pledged to leave the EPP next year. If the EPP excluded me, he added, that was their business. As far as he was concerned, I would sit as a Conservative and a member of the Conservative delegation, in receipt of the Tory Whip and as a re-selected Tory candidate.

Með öðrum orðum: sínum augum lítur hver á silfrið; menn eru ekki á einu máli um réttmæti brottvikningar Hannan úr EPP. Og ekki eru íhaldsmenn á þeim buxunum að skipta út sínum manni.

En hvað sagði Sigurður Líndal? Í grein í Fréttablaðinu 15. janúar 2008 (bls 16) ræðir hann um leiðara Morgunblaðsins frá 10. janúar 2008 þar sem því er hafnað að tilvist dómnefndar setji veitingarvaldinu einhver takmörk, það komi ekki fram í lagatextum og nefndin sé að draga til sín vald sem hún hefur ekki. Um þetta segir Sigurður svo:

„Nærtækast væri að líta á þessi orð sem merkingarlaust rugl, en ef taka á mark á þeim eru lög ekki annað en tæki valds sem lýtur engum takmörkunum. Hér skín í taumlausa vildarhyggju þar sem einungis er áskilið að lög séu sett með formlega réttum hætti og þeim beri að framfylgja með valdi hvert svo sem efni þeirra er. Valdboðið er sett í öndvegi; annað látið víkja. Með þetta að leiðarljósi er alræði og geðþótta opnuð leið og eru nærtækust dæmin frá Þýzkalandi eftir 1930.“

Hér verður að ítreka að Sigurður er að ræða leiðara Morgunblaðsins og þau sjónarmið sem þar eru sett fram, en ekki gjörðir Árna Mathiesen, setts dómsmálaráðherra. Það er því rangt og útúrsnúningur hjá Birni að Sigurður sé að líkja stjórnarathöfnum Árna Mathisen við stjórnarhætti nasista.

Hins vegar er á það að líta að það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Ef valdsmenn ganga fram með svipuðum hætti og nasistar gerðu á fjórða áratug síðustu aldar, þá er ekkert að því að segja það og það getur ekki dæmt neinn frá neinni umræðu, þó að Björn segi að svo skuli vera. Björn er hvorki hlutlaus né óskeikull dómari þar um og hefur ekkert umboð til að kveða upp slíkan dóm. Fullyrðingar hans í þá veru eru því með öllu marklausar og að engu hafandi. Hann er auðvitað að reyna að kveða niður óþægilega gagnrýni sem erfitt er að verjast með öðrum aðferðum en þeim bolabrögðum sem hann beitir.

2008-01-28

Strámann og Grámann

Styrmir Morgunblaðsritstjóri, sem hefur líklega aldrei náð sér eftir kalda stríðið, stundar í hverjum leiðaranum eftir annan leik sem sumir Sjálfstæðismenn hafa gert að viðteknum vinnubrögðum sínum síðustu misserin. Þessi leikur, sem má kannski best lýsa með orðtakinu „við skulum frekar en verða bit, velta röngu og svíkja lit“, hófst til sérstakrar virðingar í valdatíð Davíðs Oddssonar, sem lýsti einu afbrigði hans í sjónvarpsviðtali.  Eftir það viðtal var komið nafn á þetta afbrigði: smjörklípuaðferð.  Finnur Vilhjálmsson bregður nýju ljósi á þessa eftirlætisiðju Styrmis og hans nóta í athyglisverðri grein og þar kemur í ljós að aðferðin er þekkt úr úr rök- eða mælskulist og kallast að búa til strámann.

Styrmir hefur ítrekað haldið því fram að Samfylkingin standi á bak við sérstaka aðför sem hann segir gerða að Ólafi F. Magnússyni án þess að hann geri minnstu tilraun til að rökstyðja þessar fullyrðingar sem eru auðvitað algjörlega tilhæfulausar.  Engir hafa verið duglegri að gera veikindi Ólafs að umræðuefni en einmitt Sjálfstæðismenn.  Engu að síður situr Styrmir úti í móa og mótar sinn strámann af hatramri elju.

En það sitja fleiri við strámannsgerð en nátttröllið í Hádegismóum. Í öðru garðshorni situr Björn Bjarnason og tekur strámanni Styrmis fagnandi og gerir að sínum; grámanni. Björn reynir heldur ekki að styðja grámann sinn rökum, en fimbulfambar og fullyrðir út í eitt út frá þessum uppvakningi þeirra Styrmis. Þetta er heldur grátt gaman hjá þeim félögum og sýnir hversu ómerkilegur málflutningur þeirra er.  Tilgangurinn helgar meðalið.  Ég snýti mér í forakt.
 

2008-01-24

Setjum stjórnmálamönnum siðareglur

Sífellt er talað um að stjórnmál snúist um traust og það get ég sannarlega tekið undir. En eru stjórnmálamenn trúverðugir og getum við treyst þeim? Hér eru fáein nýleg dæmi sem benda ekki til þess:

  • Rannsókn Center for Public integrity hefur leitt í ljós að George Bush og hans nótar létu frá sér fara 935 rangar yfirlýsingar á tveggja ára tímabili eftir 11. september 2001. Þessar yfirlýsingar snerust um hættu sem átti að stafa af Írak á valdatíma Saddam Hussain (sjá einnig hér). Stuðningur íslenskra stjórnvalda var m.a. rökstuddur með þessum röngu staðhæfingum.
  • Það hefur komið fram að Ólafur F. Magnússon, sem nýlega myndaði nýjan meirihluta í Reykjavík með Sjálfstæðisflokknum, fullyrti margsinnis bæði við Dag B. Eggertsson og Margréti Sverrisdóttur að ekkert væri til í sögusögnum um að hann stæði í meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn mánudaginn 21. janúar s.l. Nú er öllum ljóst að þar fór hann ekki með rétt mál.
  • Því hefur verið haldið fram að Vilhjálmur Vilhjálmsson og Kjartan Magnússon hafi sagt Ólafi að ef hann makkaði ekki með þeim, myndu þeir mynda meirihluta með VG. Vilhjálmur hefur neitað þessu (hver trúir honum eftir það sem á undan er gengið?), en Ólafur hefur sagt að hann hafi skilið umræðuna þannig að fleiri ættu möguleika á meirihlutamyndun með Sjálfstæðisflokknum en hann einn.
  • Skipun héraðsdómara fyrir norðan og austan hefur verið varin af dæmafárri ósvífni. Settur dómsmálaráherra hefur ráðist á dómnefndina í fjölmiðlum og forsætisráðherra segir á Alþingi Íslendinga að gagnrýni Sigurðar Líndal á þessa ráðstöfun sé honum til minnkunar. Er ekki verið að snúa öllu á hvolf hérna, rétt eina ferðina? Á sama tíma og lögfræðimenntaður Sjálfstæðismaður, Sigríður Andersen, segir á háskólafundi að best væri að draga dómnefndina inn í dómsmálaráðuneytið kemur í ljós að á öðrum Norðurlöndum er vægi dómnefnda miklu meira en hér tíðkast. Svipaða sögu er að segja af öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Hér erum við Íslendingar aftarlega á merinni og þurfum að taka okkur á. Hugmyndir Sigríðar eru augljóslega fjarstæða og greinilega eingöngu hugsaðar til að auka enn áhrif dómsmálaráðherra á skipun dómara. Dómarafélag Íslands hefur ályktað „að ráðherra beri við skipun í dómaraembætti að hafa hliðsjón af umsögn dómnefndar þótt hann sé ekki bundinn af henni.“ Í sama streng hafa tekið fjölmargir lögmenn og fræðimenn. Samt er þverskallast.
Við þetta verður ekki unað lengur. Almenningur í landinu verður að rísa upp og taka stjórnmálamennina á beinið. Það þarf að fara fram endurmat á pólitískri starfsemi í landinu og treysta stoðir lýðræðisins. Stjórnmálamenn hafa ítrekað hagað sér með þeim hætti að þeim er ekki lengur treystandi. Kjósendur þurfa að setja stjórnmálamönnum strangar siðareglur og sjá til þess að þeir hafi þær í heiðri.

Fulltrúar mínir á Alþingi, í ríkisstjórn eða í sveitarstjórn eiga ekki að ljúga, hafa rangt við, þjóna einkavinum, snúa út úr og stunda orðhengilshátt í orðræðu, beita bellibrögðum og fara á svig við vandaða stjórnsýslu. Ég hafna valdabrölturum, þeir hafa ekki mitt umboð til skrípaláta og oflátungsháttar. Mínir fulltrúar eiga að vinna fyrir fólkið sem kaus þá - fyrir almenning í landinu og ekki sinna öðrum hagsmunum. Verði þeim á í messunni eiga þeir að segja af sér og aðrir fulltrúar að koma í þeirra stað.