2008-10-09

Erfið samskipti við Breta

Samskipti Íslendinga og Breta hafa hríðversnað á fáum dögum og svo virðist sem um einhvern misskilning sé að ræða. Baldur McQueen varpar athyglisverðu ljósi á þetta á bloggi sínu og bendir á að Tryggvi Þór Herbertsson hafi 4. október fullyrt „að íslenska ríkið muni taka ábyrgð á sínum hluta innlána á IceSave“. Íslenska ríkið hafi svo daginn eftir sent út yfirlýsingu þar sem „lofað er að ríkið muni taka ábyrgð á sínum hluta innlána á IceSave“. Síðan kemur óljóst viðtal við Össur Skarphéðinsson á mánudag, síðan símtal Árna Mathiesen og Alistair Darling á þriðjudag þar sem Árni „virðist hafa sett einhverja fyrirvara á aðkomu Íslands, ef ekki beinlínis afneitað henni“. Svo kemur hið dæmalausa viðtal við Davíð Oddsson á þriðjudagskvöldið og daginn eftir segir Alistair Darling að Íslendingar ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar. Á fjármálavefnum Fool.co.uk er þessu lýst svona:
„The Chancellor also revealed that he had spoken to Iceland’s finance minister yesterday and been told that Iceland wouldn’t compensate UK savers in Iceland. Darling was clearly angered by this answer.“
Þetta verður tæplega skilið öðruvísi en svo að Árni Mathiesen hafi verið myrkur í máli í símtalinu við Alistair Darling svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli