2010-04-12

Bókstafstrúarmenn

Í fréttum kemur orðið bókstafstrúarmaður ósjaldan fyrir og tengist þá gjarnan trúarafstöðu manna. En það eru til annars konar bókstafstrúarmenn. Þeir hafa komið sér upp umræðuaðferð, sem sver sig í ætt við þrætubók og orðhengilshátt, og trú á bókina. Þegar álitamál koma upp  seilast þeir í bókina, líta í hana og segja: þetta stendur ekki í bókinni, eða: það stendur ekki í bókinni að þetta sé bannað og þess vegna má ég. Hið síðarnefnda einkenndi útrásina sem sendi okkur aftur heim.

Maria Elvira Mendez Pinedo, kennari við Háskóla Íslands, vakti athygli á því í Silfri Egils að í íslensku lagaumhverfi sé mikil trú á bókstafinn. Í Evrópurétti, sem hún er sérfræðingur í, er meira skyggnst fram í tímann og einnig hugað að siðferðinu á bak við bókstafinn. Þar þykir rétt að lög séu í sífelldri endurskoðun - séu dýnamísk, eins og lífið sem festist ekki í handbremsu á Hringbrautinni. Mér hefur oft virst að íslenska stjórnkerfið, sem er allt meira og minna gegnsýrt af lögfræðingum frá Háskóla Íslands, horfi um of á bókstafinn, en hafi að sama skapi takmarkaða yfirsýn yfir fólkið, þarfir þess og samfélagið sem það myndar. Í samspili lífs og laga trúi ég að hin geðþekka Maria Elvira Mendez Pinedo geti kennt okkur eitt og annað og er það gleðiefni að hún veiti endurnærandi evrópskum, jákvæðum straumum um lagadeild Háskóla Íslands.

Allir sem hafa lesið góðar bókmenntir þekkja að ósjaldan býr eitthvað að baki bókstafnum. Þetta eitthvað  getur verið margvíslegt, en fyrst og fremst er það lífið sjálft. Lagareglur eru mannanna verk og geta því aðeins þjónað því lífi sem við lifum að þær taki mið af því. Á bak við bókstafinn býr mannlegur veruleiki sem þarf að vega og meta um leið og reglan er lesin því annars er bókstafurinn dauður og reglan tilgangslaus. Lögin eiga að þjóna fólkinu, en ekki öfugt. Bækur geta aukið lífsyndi okkar til muna, en lífinu verður þó ekki lifað eftir bókum hversu gott og göfugt það er sem í þeim stendur.

Úr fréttum og umræðum liðinnar viku má lesa að forstjóri Sjúkratryggingastofnunar hafi stympast við ráðherra heilbrigðismála um framkvæmd tiltekinnar reglugerðar sem ráðherrann segir skýra, en forstjórinn sér meinbugi á framkvæmd hennar og leitar til Ríkisendurskoðunar um ráð. Vegna þess sendir ráðherrann forstjóranum bréf og hótar áminningu. Bæði ráðherrann og forstjórinn starfa fyrir framkvæmdavaldið. Ríkisendurskoðandi, sem starfar fyrir löggjafarvaldið, ritar yfirmanni sínum, forseta Alþingis, bréf, segir aðgerðir ráðherrans „ólíðandi“ og að það sé alvanalegt að ríkisforstjórar sæki til sín ráð. Stjórnsýslufræðingur bloggar um þessi ummæli ríkisendurskoðandans og telur að þau setji „hugmyndina um sjálfstæði Ríkisendurskoðunar í uppnám“ þar sem þessi sama Ríkisendurskoðun gæti seinna þurft að fjalla um þessa sömu stofnun og þar með eigin ráðleggingar. Niðurstaða stjórnsýslufræðingsins er að bréf ríkisendurskoðanda beri „ekki aðeins vott um skort á góðri stjórnsýslu, heldur staðfestir hún hversu útbreidd óvönduð stjórnsýsla er á Íslandi.“

Hér er á ferðinni spennandi álitamál sem varðar samskipti framkvæmdavalds og löggjafarvalds, eftirlit með góðum rekstri og stjórnsýsluháttum, samskipti ráðherra og forstjóra ríkisstofnunar og þar með valdmörk. Hér er með öðrum orðum feitt á stykkinu; efniviður í fróðlega og málefnalega umræðu sem gæti skilað okkur áleiðis til betri stjórnsýslu og öflugra lýðræðis.

Þorsteinn Pálsson ákveður að blanda sér í þessa umræðu í Fréttablaðinu (10. apríl 2010, bls 18). Þorsteinn er nokkuð dæmigerður bókstafstrúarmaður af þeirri gerð sem vikið var að hér í upphafi, enda hefðbundinn íslenskur lögfræðingur, menntaður í lagadeild Háskóla Íslands. Hann skrifar reglulega greinar í Fréttablaðið, sem hann ritstýrði einu sinni, og tekur þess vegna þátt í því að móta umræðuna. Það má því með réttu gera til hans nokkrar kröfur um bitastæð framlög. Eins og vænta mátti fer Þorsteinn nákvæmlega eftir aðferð bókstafstrúarmanna í þessu efni, grípur lögbókina, þylur bókstafinn og kemst að niðurstöðu:

Í bókinni stendur að forstjórinn sé góður, en forsætisráðherrann vondur.

Það er ekki mikill safi í svona visnum greinum. En þetta er dæmigerð íslensk umræða sem skilar engu.