2006-12-21

Erindisleysa Ísafoldar

Reynir Traustason sendi blaðakonu inn á vistheimilið Grund undir fölsku flaggi og birti síðan grein blaðakonunnar í tímariti sínu Ísafold. Skemmst er frá því að segja að uppátækið vakti að vonum hörð viðbrögð stjórnenda Grundar. Reynir varði ritsmíðina og aðferðafræðina með nokkrum þjósti og talaði m.a. um að almenningur ætti rétt á að vita hvernig væri að gamla fólkinu á Grund búið. Þessi lumma er kunnugleg (man einhver eftir tveimur ritstjórum DV sem lummulegir þurftu að taka pokann sinn?) og í rauninni bull. Ónákvæmar og rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Á vef Morgunblaðsins er greint frá athugun Landlæknisembættisins á aðstæðum vistmanna á Grund og sjónum beint að nokkrum atriðum sem sérstaklega voru gagnrýnd í umfjöllun Ísafoldar. Skemmst er frá því að segja að næsta fá ef nokkur af sannleikskornum Ísafoldargreinarinnar standa eftir óhrakin. Frásögnin af beinbroti gömlu konunnar er „augljóslega röng“, fullyrðingar um skort á hreinlæti og að vistmenn „gangi um í slitnum og skítugum fötum“ eru rangar og hjal um erfiðleika í samskiptum við starfsmenn af erlendu bergi brotna á ekki við rök að styðjast.

Landlæknisembættið kannaði skrifleg gögn, kom í fyrirvaralausar heimsóknir á Grund og ræddi við starfsmenn, vistmenn og einn aðstandanda. Eina athugasemd embættisins var ábending um að starfsmenn væru látnir undirrita trúnaðaryfirlýsingu áður en þeir væru ráðnir.

Reynir Traustason er ágætur og vel meinandi blaðamaður, en í þessu máli lenti hann á villigötum. Vonandi lærir hann af því að seilast ekki aftur í vafasamar aðferðir sorpblaðamennskunnar. Hann þarf ekkert á því að halda.

 

2006-12-13

Fúl smjörklípa

Björn Ingi Hrafnsson átti verulega erfitt í Kastljósi kvöldsins. Hann gat með engu móti rætt efnislega um afar hæpnar ráðningar á ýmsum Framsóknarmönnum í verkefni tengdum Reykjavíkurborg í skjóli hans sjálfs að undanförnu. Þess í stað reyndi hann alls kyns undanbrögð. Hvernig varst þú ráðinn Helgi? Hvernig var þetta hjá R-listanum? Þetta á ekkert skylt við efnislega umræðu, eða verða óhæfuverk Framsóknarflokksins réttmæt ef einhver annar hefur gert svipaða hluti?

Björn Ingi sýndi nú sitt rétta andlit. Á bak við smælið og vatnsgreiðsluna glitti í kaldrifjaðan framapotara og tækifærissinna sem vílar ekki fyrir sér að beita dónaskap, útúrsnúningum, orðhengilshætti og smjörklípuaðferð til að fela málefnafátæktina og getuleysið til að ræða hæpnar aðgerðir sínar efnislega. Ítrekað greip hann fram í fyrir Degi til að trufla málflutning hans, af því að hann gat ekki mætt honum með efnislegum rökum. Hvílík eymd!

En einn maður var ánægður með frammistöðu Björns Inga, nefnilega Björn Bjarnason enda er þetta orðræða í hans anda. Sá lét nú ekki lögin þvælast fyrir sér þegar hann stóð í ráðningum í Hæstarétt (sjá einnig hér). Með vísun til almennrar málvenju má segja að Birni Inga hafi því tekist að skemmta skrattanum. Þeir sem hafa áhuga á efnislegri umræðu og leiðast pólitísk fíflalæti hafa ekki skemmt sér að sama skapi.

Ég spái því að pólitískt líf Björns Inga nái til loka kjörtímabils hans sem borgarfulltrúa Framsóknar í Reykjavík – og væri það vel. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á öðrum smjörklípumanni að halda.

Hér sýnir smjörklípumaðurinn sitt rétta andlit


2006-12-03

Listasmíð

Umræðan um Íraksmálið eftir ræðu Jón Sigurðssonar hefur verið mjög undarleg af hálfu stjórnarflokkanna, enda eru þeir með allt niðrum sig í þessu máli. Í næsta pistli hér á undan var bent á bullið í Birni Bjarnasyni og afbökun staðreynda. Formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lét sér sæma að viðhafa svipaðan málflutning á Alþingi. Fyrir utan það að Íraksmálið hefur aldrei snúist um hvort einhverju máli skipti hvort Íslendingar styddu innrás eður ei, þá hafa þeir Guðmundur Steingrímsson og Egill Helgason báðir bent á hversu ótrúverðugur málflutningur það sé að þylja þessa fráleitu þulu og segja svo í hinu orðinu að Ísland eigi fullt erindi inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Svona málflutningur er auðvitað ekki nokkrum bjóðandi og hneisa að ráðherrar fari fram með þessum hætti.

Jón Sigurðsson talaði í ræðunni góðu um að svonefndur listi um „staðfastar þjóðir“ væri „einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás.“ Þetta henti varaformaður Framsóknar, Guðni Ágústsson á lofti og sagði við fréttamenn að Bandaríkjamenn ættu að biðja Íslendinga afsökunar á þessu athæfi. Fleiri hafa talað á þeim nótum að listinn sé verk Bandaríkjamanna og hafi ekkert með íslensk stjórnvöld að gera. Þetta er hlægilega heimskulegur málflutningur.

Listann yfir hinar staðföstu þjóðir má sjá á vef Hvíta hússins og einnig stuðningsyfirlýsingar umræddra þjóða. Þeirra á meðal má lesa eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu frá Davíð Oddssyni:

“The United States now considers its security to be gravely endangered by the actions and attacks of terrorists and because of various threats from countries governed by dictators and tyrants. It believes that support from this small country makes a difference... The declaration issued by the Icelandic Government on the Iraq dispute says that we intend to maintain the close cooperation we have had with our powerful ally in the West.

First of all, this involves flyover authorization for the Icelandic air control area. Secondly, the use of Keflavik Airport, if necessary. In third place, we will take part in the reconstruction of Iraq after the war ends. Fourthly, we expressed political support for Resolution 1441 being enforced after four months of delays."
-- Prime Minister Oddsson, March 18, 2003
Eins og sjá má er þarna heitið stuðningi Íslands sem m.a. felst í flugi inn í lofthelgi Íslands, heimild til afnota af Keflavíkurflugvelli, loforð um þátttöku í endurreisnarstarfi í Írak og loks pólitískum stuðningi við framkvæmd ályktunar Öryggisráðsins númer 1441, sem Bandaríkjamenn túlkuðu sem heimild til innrásar í Írak. Sú túlkun er afar umdeild eins og menn vita.

Það sjá auðvitað allir að það er ákvörðunin um stuðninginn sem skiptir máli. Samsetning listans er eingöngu skipulagsatriði til að halda utan um þjóðirnar 49 sem hétu stuðningi í einhverju formi. Að skamma Bandaríkjamenn fyrir listasmíð er að hengja bakara fyrir smið.