2004-07-21

Eitrað peð

Nýgerðar breytingar stjórnvalda á títtnefndu fjölmiðlafrumvarpi er ekki sáttagjörð af neinu tagi, heldur skipulagt undanhald úr vonlausri stöðu.  Það hefði mátt telja það raunverulega sátt að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög nr. 48/2004 og hafa ekki uppi annan málatilbúnað þar um en að hnykkja á því að í þeirri atkvæðagreiðslu skyldi einfaldur meirihluti kjósenda ráða úrslitum.
 
Með þeirri lausn sem nú er uppi er forsetinn settur í vanda, eins og Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður hefur bent á.  Samþykki hann þau lög sem núna stendur til að setja, er hann að leggja blessun sína yfir stjórnarskrársniðgöngu ríkisstjórnarinnar.  Synji hann lögunum, þurfa að öllum líkindum að fara fram tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrst um nýjustu smíðina og síðan um þá sem áður var búið að synja.  Þetta er vissulega snúið álitaefni og gæti reynst eitrað peð fyrir forsetann.  Það er svo annað mál að svona málatilbúnaður er ekki nokkurri ríkisstjórn sæmandi, að ekki sé minnst á þá svívirðu að standa í stöðugum illdeilum við þjóðhöfðingjann, og þarf mjög einbeittan brotavilja til að standa að málum með þessum hætti.  Hann skortir reyndar ekki hjá núverandi ríkisstjórn.
 
Fljótt á litið mætti líta svo á að forsetinn væri hér í stöðu þar sem allir kostir væru slæmir og honum til vandræða.  Svo þarf þó ekki að vera.  Hugsanlega gæti einhver höfðað dómsmál vegna málsmeðferðar stjórnvalda.  Þá væri eðlilegt að forseti héldi sér til hlés á meðan dómstólar – bæði dómstig – fjölluðu um málið og eftir fallinn dóm yrði forsetinn í betri stöðu.  
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli