2004-08-23

Fætingur í flórnum

Helst vildi ég að Framsóknarflokkurinn þurrkaðist út. Kannski er það þess vegna sem ég nenni varla að velta fyrir mér innantökum flokksins um þessar mundir. Fyrst fannst mér næsta augljóst að fyrst ákveðið var að gefa umhverfisráðuneytið eftir til Sjálfstæðisflokkksins 15. september, þá yrði Siv að víkja úr ráðherrastól; ekki gæti talist sanngjarnt að aðrir ráðherrar tækju pokann sinn bara til að hún geti setið áfram. Hún hefur í engu skarað fram úr öðrum ráðherrum Framsóknar, en heldur ekki staðið þeim að baki. Hvað sem um hana má segja, hefur hún alla vega verið einarður liðsmaður og það ætti stelpan Dagný að kunna að meta, þó að það henti athyglissýki hennar og framapoti betur að gera það ekki.

En svo gerðist það að Framsóknarkonur létu til sín heyra. Fyrst hélt ég að það væri bara lágvært óánægjunöldur annars sauðtryggra flokksmanna, en fljótlega varð ljóst að meira bjó að baki. Þær hafa meira að segja ýjað að sérframboði. Og þegar að er gáð eru röksemdir þeirra fráleitt léttvægar.

Þær hafa bent á að sú ákvörðun að víkja Siv úr ríkisstjórn gangi gegn ýmsum reglum og jafnréttisáætlun flokksins og fari í berhögg við viðurkenndar aðferðir við val á ráðherrum. Gleymum ekki því að þó að umræðan hafi snúist um stólaskipti, og þá kannski fyrst og fremst þeirra Davíðs og Halldórs, þá er í reynd verið að mynda nýja ríkisstjórn undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar. Framundan eru þrjú ár eftir af kjörtímabilinu. Það er því alveg tilefni til uppstokkunar í ráðherraliðinu.

Hvers vegna eru reglur flokksins og hefðbundnar aðferðir við val á ráðherrum ekki hafðar í heiðri? Samkvæmt þeim ætti líklega Árni Magnússon að hypja sig sem síðasti maður inn. En hann er einmitt handvalinn erfðaprins Halldórs sem tryggði honum ráherrastól eftir að Árni skreið naumlega inn á þing sem jöfnunarmaður í síðustu kosningum. Og Halldór ætlar að troða honum á tróninn með góðu eða illu.

Það er raunar eðlilegt að Halldór íhugi eftirmann. Hans tími er senn liðinn. Hann hefur verið sporgöngumaður Davíðs í níu ár og reynt að vera harður nagli eins og hann. En Davíð er bara miklu harðari stjórnandi og margfalt klókari. Hann getur verið sveigjanlegur til að láta fléttu ganga upp. En Dóri er einfaldur þumbari og það dugði honum á meðan hann var í sambandi við flokkinn sinn, sem er reyndar dálítið þumbaralegur líka. En svo mikið hefur reynt á það samband að undanförnu að nú spyrja mæddir framsóknarmenn hvenær Halldór muni hætta. Og það er ekki nema von. Þumbarinn virðist hafa misst jarðsambandið og heldur að hann geti leitt hjá sér óánægju framsóknarkvennanna með því að stinga höfðinu í sandinn.

Það er alls ekki gefið að hinn almenni Framsóknarmaður deili ást formannsins á dillibossunum tveimur, Árna Magnússyni og Birni Hrafni. Árni er að vísu geðþekkur maður, en lítt reyndur og greinilega ekki óumdeildur innan flokksins. Björn skortir alla lýðhylli þó hann sé Halldóri þarfur augnaþjónn þessa stundina. Hann mun seint hafa þétta fylkingu á bak við sig og framavonir hans eru mjög tengdar Halldóri.

Framsóknarkonur hafa sýnt að þær ætla sér ekki að vera hornkerlingar innan flokksins og gætu jafnvel hugsað sér að yfirgefa hann ef þörf krefur. Þær gætu reynst Halldóri skeinuhættar takist honum ekki að sættast við þær. Hinn almenni Framsóknarmaður mun ekki sætta sig við Davíðska stjórnarhætti formannsins og setti honum raunar stólinn fyrir dyrnar þegar fjölmiðlafrumvarpið var á dagskrá. Sambandsleysi Halldórs við sitt fólk mun reynast honum því meiri fjötur um fót sem hann fjarlægist það meira. Og augnaþjónarnir eru af annarri kynslóð sem bindur ekki trúss sitt við Halldór lengur en nauðsynlegt reynist.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli