Það var afskaplega dapurlegt að horfa á Íslendinga tapa fyrir Kóreumönnum í morgun, en sigur Kóreumanna var verðskuldaður.
Íslenska liðið lék ekki vel. Alltof margar sóknir runnu út í sandinn og hvað eftir annað gekk boltinn úr greipum okkar manna í gírugar hendur Kóreumanna sem refsuðu okkur grimmilega með því að auka markamuninn. Þeir voru öruggari í hraðaupphlaupum og skoruðu úr öllum sem þeir fengu (5/5) á meðan okkar menn skoruðu aðeins úr helmingi sinna færa (3/6). Markvarslan var slök okkar megin. Guðmundur og Roland vörðu aðeins 6 skot af þeim 40 sem þeir fengu á sig (15%) á meðan kóresku markverðirnir, Han og Lee, vörðu ríflega tvöfalt betur eða 15 skot af 45 (33%).
Ólafur Stefánsson, sem skoraði 10 mörk í 11 tilraunum, var bestur okkar manna, en Sigfús og Garcia stóðu sig einnig vel. Guðjón Valur fann sig ekki og er kannski orðinn þreyttur, en hann og Gylfi stóðu sig þó betur en kóresku hornamennirnir (57% skotnýting á móti 50%). Aðrir létu minna fara fyrir sér.
Það er auðvitað alltaf hægara um að tala en í að komast, en mér finnst fyrst og fremst vanta einbeittan sigurvilja í íslenska landsliðið. Þetta eru allt saman flinkir handboltamenn og flestir með mikla reynslu. Þeir þurfa hins vegar að ganga fram grenjandi af sigurvilja sem slakar aldrei á fyrr en boltinn er úr leik. Íslenska knattspyrnulandsliðið sýndi einmitt slíkan sigurvilja í fyrrakvöld og uppskar samkvæmt því. Hinir ítölsku mótherjar þeirra, sem kunna örugglega allt sem hægt er að kunna í fótbolta, vantaði sigurviljann og urðu því að lúta í gras. Hér sannast hið fornkveðna að vilji er allt sem þarf.
Leikurinn í tölum
Engin ummæli:
Skrifa ummæli