Þegar Eva María sneri aftur í Kastljósið eftir útivist í öðrum sóknum valdi hún Davíð Oddsson, af öllum mönnum, sem sinn fyrsta viðmælanda. Við skulum vona að það hafi ekki verið skipun að ofan.
Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta viðtal, enda var viðmælandinn innihaldsrýr eins og vænta mátti. Eitt vakti athygli mína í þessu viðtali. Davíð staðfesti rækilega það sem ég skrifaði hér í pistli fyrir nokkru. Hann útskýrði smjörklípuaðferðina. Var góður með sig og þóttist ofboðslega fyndinn og snjall.
Smjörklípuaðferðin er komin frá frænku Davíðs sem klíndi smjörklípu í feld kattar síns þegar hann var henni erfiður, eftir því sem Davíð sagði. Kötturinn varð þá að taka til við að þrífa feld sinn og fór ekki hamförum á meðan. Það væri, út af fyrir sig, fróðlegt að heyra álit Dýraverndunarfélags Íslands á þessu athæfi, sem ber ekki vott um mikla hjartagæsku. Efnislega sagðist Davíð hafa notað þessa aðferð þegar pólitískir andstæðingar sóttu að honum í erfiðum málum; hann reyndi að snúa athygli þeirra að öðru.
Þetta þekkja reyndar allir þeir sem eitthvað hafa fylgst með pólitík á liðnum árum og að því leyti eru þetta ekki ný tíðindi; það sem er nýtt er að Davíð viðurkennir þetta opinberlega. Davíð er ekki tækur í málefnalega umræðu og hefur aldrei verið, enda mætti hann bara í drottningarviðtöl þegar hann var forsætisráðherra. Hann er auðvitað alltaf sami götustrákurinn sem kýs frekar að segja aulabrandara og sprengja fýlusprengjur en að tala málefnalega um erfið mál. Hans stærsta fýlusprengja var náttúrulega stóra bolludagsbomban, en þær voru margar fleiri. Vafalaust tekur einhvern tíma að hreinsa skítalyktina eftir Davíð úr íslenskri pólitík.
Hitt er svo annað mál að öfugt við frænkuna þá tókst Davíð sjaldnast ætlunarverk sitt, þó hann kunni að halda annað. Hin mannlegu viðbrögð við smjörklípuaðferðinni reyndust vera önnur en hjá ketti frænkunnar. Þegar Davíð hafði sitt fram var það með afli meirihlutans, en ekki smjörklípuaðferðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli