2006-11-26

Björn afbakar

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag og gerði m.a. að umtalsefni ákvarðanir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímsonar um stuðning Íslands við innrásina í Írak. „Þær byggðust á röngum upplýsingum. Forsendur voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar eða mistök. Svonefndur listi um „staðfastar þjóðir" var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás," sagði Jón. Það er lofsvert af Jóni að tala hreint út um þetta og færi betur að Sjálfstæðisflokkurinn gerði það líka. Undirlægja Halldórs Ásgrímsonar, Valgerður Sverrisdóttir, sagði þó að hún hefði tekið sömu ákvarðanir ef hún hefði verið í sporum Halldórs. Í reynd er því kannski ekki alveg til staðar sú viðhorfsbreyting innan flokksins sem ræða formannsins gaf fyrirheit um.

Björn Bjarnason bloggar um þessi orð Jóns og er greinilega ekki á sömu buxum og formaður Framsóknarflokksins. Hann iðrast einskis og er forhertur sem fyrr, enda varla við öðru að búast. Hann er líka nýbúinn að lýsa því yfir að hann ætli sko ekki að mýkja ímynd sína og er staðfastur í þeirri fyrirætlan sinni. Björn segir m.a.:

„Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið. Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.“
Hver hefur talið sér trú um að „ afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak“? Getur Björn nefnt einhvern sem hefur gert það opinberlega? Þetta er auðvitað útúrsnúningur og bull. Gagnrýnt hefur verið að Ísland skyldi styðja innrásina og hvernig gengið var framhjá utanríkismálanefnd við þessa dæmalausu ákvarðanatöku. Engum hefur dottið í hug að afstaða Íslands hefði skipt neinu nema fyrir Íslendinga sjálfa. Hér er málflutningur gagnrýnenda þessarar afdrifaríku ákvörðunar afbakaður og affluttur að hætti Valhallarmanna. Er því eðlilegt að segja að í málflutningi Björns sé „valhallað“ réttu máli.

Hvernig stendur annars á því að ekki er boðið upp á að rita athugasemdir við málflutning Björns Bjarnasonar á bloggsíðu hans?  Þetta þykir sjálfsagður hlutur á bloggsíðum.  En kannski líkar honum eintalið best.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli