2006-01-12

Harðsnúin hræsni

Þriðjudaginn 10. janúar 2006 birti DV forsíðufrétt um meint kynferðisbrot Gísla Hjartarsonar fyrrverandi grunnskólakennara á Ísafirði gegn tveimur drengjum sem hann hafði tekið í stuðningskennslu. Fréttinni fylgdi stór mynd af Gísla sem var birt bæði á forsíðu blaðsins og inni í blaðinu. Daginn eftir svipti Gísli sig lífi og sagði í bréfi sem hann skildi eftir sig að ásakanirnar væru ósannar og að hann hefði ekki treyst sér til að horfast í augu við afleiðingar fréttaflutnings DV.

Fréttin um andlát Gísla barst eins og eldur í sinu um allt þjóðfélagið og viðbrögð almennings voru á eina lund. Hvarvetna var fréttaflutningur og ritstjórnarstefna DV harðlega fordæmd. Hafin var undirskriftasöfnun á vefsíðu Deiglunnar að frumkvæði ungliðasamtaka allra stjórnmálaflokka og stúdenta við Háskóla Íslands auk annarra aðila. Seinni part dagsins höfðu ríflega þrettán þúsund manns skráð sig og þá brast vefurinn. Upp úr klukkan eitt eftir miðnætti var talan komin upp í tuttugu þúsund. Þegar hæst hóaði skráði sig einn einstaklingur á hverri sekúndu. Í Kastljósi í gærkvöldi var farið ítarlega yfir málið og rætt við fjölmarga aðila, fólk á förnum vegi, dómkirkjuprest, þingmenn, blaðamenn og báða ritstjóra DV. Að ritstjórunum frátöldum sýndu allir aðilar sterk viðbrögð gegn umræddum fréttaflutningi DV.

Hvers vegna þessi sterku viðbrögð? Það er yfirlýst ritstjórnarstefna DV að birta nöfn og myndir af fólki sem blaðið fjallar um án tillits til niðurstaðna rannsókna eða dóma. Í því efni telja ritstjórar blaðsins sig vera að þjóna sannleikanum og að sú þjónkun leyfi enga tillitssemi í umfjöllun. Þetta kom skýrt fram í máli Jónasar Kristjánssonar í áðurnefndum Kastljósþætti. Blaðið fylgir eigin siðareglum sem annar ritstjóri þess hefur samið og stangast þær að einhverju leyti á við siðareglur Blaðamannafélags Íslands, þó að blaðamenn DV séu þar félagar. DV hefur birt hverja fréttina á fætur annarri sem fjallar um fólk sem er nafngreint og birtar af því myndir án þess að rannsókn mála sé lokið eða dómur fallinn. Þannig hafa margir verið meiddir og margir hafa lýst þessum fréttaflutningi sem röngum, fullum af meinfýsni eða í besta falli ónákvæmum og villandi. Fréttin um Gísla Hjartarson virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn, hugsanlega vegna þeirra afleiðinga sem birting hennar hafði.

Þegar spurt er um ábyrgð hafa flestir bent á ritstjóra, eigendur og jafnvel kaupendur DV. Undir þetta má taka, en þó sýnist mér hlutur ritstjóranna vega þyngst, enda er þeim beinlínis borgað fyrir að bera ritstjórnarlega ábyrgð og málið snýst um ritstjórnarstefnu sem byggir á siðareglum sem annar þeirra, Jónas Kristjánsson, hefur samið sérstaklega fyrir blaðið. Sú staðreynd gerir ábyrgð hans í raun mesta; hinn ritstjórinn er kornungur maður sem virðist reyndar sérstakur áhugamaður um sora og lágkúru og fylgir ákafur línu sem hinn reynslumeiri Jónas hefur lagt. Í Kastljósviðtalinu við Mikael Torfason bergmálaði hann það sem Jónas hafði sagt í spjalli í sama þætti. Og hvað sagði Jónas? Hnípinn og hærugrár barðist hann við að snúa út úr spurningum sem fyrir hann voru lagðar og hanga í því hálmstrái að hann væri að þjóna sannleikanum og það væri góð blaðamennska. Einhverju sinni muldraði hann að allir þeir sem höfðu skrifað undir áðurnefnda áskorun hefðu „einkennilegar skoðanir“. Þúsundir manna hafa „einkennilegar skoðanir“ á þessu máli — en ekki Jónas Kristjánsson! Þetta var átakanlegt dæmi um sjálfumgleði, siðblinda þráhyggju og harðsnúna hræsni.

Auðvitað er DV ákveðin viðskiptahugmynd; að gefa út blað með ákveðnum áherslum sem höfða til persónuáhuga fólks og lægri hvata. Jónas vill svo göfga þessa hugmynd með reglum sem hann segist hafa smíðað að fyrirmynd erlendra sorprita, eins og það sé trygging fyrir einhverjum gæðum. Þetta er hin harðsnúna hræsni.

Fréttin um Gísla Hjartarson getur ekki talist góð blaðamennska frá neinum sjónarhóli, ef frá er talinn siðblindur sjálfbirgingsháttur ritstjóranna. Í fréttinni er talað um að atburðir muni hafa gerst á heimili Gísla og að „sögusagnir af kynferðislegu ofbeldi hans gegn unglingspiltum [hafi] gengið á Ísafirði lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert.“ Auk þess er mikið gert úr því að Gísli hafi verið einhentur, eins og það komi málinu sérstaklega við. Í fréttinni segir orðrétt: „Lögreglan á Ísafirði vildi hvorki játa né neita því að mál Gísla Hjartarsonar væri til rannsóknar.“ Samt er síðar fullyrt að rannsókn í málinu sé komin á „fullt skrið.“ Ef þetta er góð blaðamennska, hvernig er þá vond blaðamennska? Auk þess er framsetning fréttarinnar með stóruppslætti á forsíðu ekki í neinu eðlilegu samræmi við efni máls sem er órannsakað, ósannað og ódæmt. Með þessari framsetningu er verið að fella harðan dóm — þrátt fyrir að Jónas hafi ekki þóst vera að fella dóma í Kastljósinu í gærkvöldi. Sú fullyrðing er hins vegar, eins og annar málflutningur hans þar, vitnisburður um siðblindu og hræsni hans sjálfs.

Hvað hefði orðið upp á teningnum ef mál Gísla hefði verið rannsakað til hlítar og niðurstaðan sú að hann væri saklaus? Þá hefði staðið eftir þessi makalausa frétt DV með nafni og myndbirtingu. Það getur verið erfitt fyrir mann að snúa sig út úr slíkri stöðu. Og hvað þá með sannleikann? Myndi Jónas Kristjánsson og DV slá því upp með viðlíka hætti að maðurinn hafi verið saklaus og fréttaflutningurinn ótímabær og tilhæfulaus? Það væri þá sannleikurinn í málinu — yrði hann látinn kyrr liggja? Samkvæmt siðareglunum snilldarlegu gæti það ekki gengið upp.

Engum heilvita manni dettur í hug að Jónas Kristjánsson eða DV séu handhafar sannleikans í þessu órannsakaða máli eða í öðrum málum sem DV hefur slegið upp með viðlíka hætti. Því fer víðsfjarri. Þeir eru heldur engir sérstakir talsmenn meintra þolenda, þeir eru fyrst og síðast að selja blaðið sitt með þessum ófyrirleitna hætti. Sannleikurinn getur verið snúinn og erfiður viðfangs. Að byggja siðareglur og ritstjórnarstefnu á að þykjast vera handhafi sannleikans er rugl. Enginn hefur bréf upp á algildan sannleika eða er þess umkominn að tala einn í nafni hans.

Einhvern tímann var sagt að ástæða væri til að óttast Grikkina þegar þeir kæmu gjöfum hlaðnir. Þegar menn eins og Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason mæta með sannleikann upp á vasann er sannarlega ástæða til að hafa varann á.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli