2007-04-17

Vinir Kára

Óli Björn Kárason bloggar um viðtal Ólafs Teits Guðnasonar við Kára Stefánsson sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Í viðtalinu gagnrýnir Kári ríkisstjórnina harðlega og segir orðrétt: „Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda.“

Bragð er að þá barnið finnur. Kári segir ríkisstjórnina hafa misst kjark til að standa að gerð miðlægs gagnagrunns og einnig lofað ríkisábyrgð á skuldabréfum, sem síðan „dróst bara og dróst og dróst“ segir Kári og á endanum seldi ÍE sín eigin skuldabréf án ríkisábyrgðar.

Þessi mál voru auðvitað umdeild á sínum tíma og fróðlegt að vita loks lyktir þeirra beggja eins og Kári túlkar þær. En er ekki augljóst af þessari atburðarás hvernig Davíð ætlaði að hygla sínum gamla skólabróður en kom því ekki í gegn þrátt fyrir allt. Ekki er ólíklegt að arftaki hans hafi staðið á bremsunni og haft betur þegar upp var staðið. En hvernig sem því kann að vera varið, eru þetta þó ágæt dæmi um hringlandahátt ríkisstjórnarinnar. Það er vissulega vafasamt að gefa einkafyrirtækjum fyrirheit um ríkisábyrgð á lánum. En verða menn ekki að standa við það sem þeir lofa? Allir vita reyndar að stjórnmálamenn rísa sjaldnast undir þeirri kröfu. Þeir eru alltaf stikkfrí.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli