2007-01-22

Áfram Ísland!

Ísland sigraði Evrópumeistaralið Frakka í kvöld með átta marka mun (32:24) eftir að hafa verið yfir allan tímann og m.a. komist í 5:0 og liðið náði mest 11 marka forskoti í leiknum. Ísland leiddi með tíu marka mun í hálfleik. Þetta er besti leikur íslensks handboltaliðs frá upphafi vega. Það getur ekki verið nein spurning.

Eftir arfaslakan leik við Úkraínumenn á sunnudaginn var margur maðurinn niðurdreginn og bjóst við hinu versta. Því var fögnuðurinn yfir leik liðsins í kvöld dýpri og kröftugri. Ég ætlaði lengi vel ekki að trúa eigin augum og kveið fyrir seinni hálfleiknum. Það reyndist ástæðulaust. Frakkar komu að vísu ákveðnir til leiks þá, en okkar menn voru bara enn ákveðnari og juku muninn!

Það gekk eiginlega allt upp hjá íslenska liðinu: vörnin hörkugóð, markvarslan frábær og sóknarleikurinn beittur og skilaði hverju markinu á fætur öðru. Frakkar spiluðu vel; þeir eru með frábært lið. Íslendingar spiluðu bara betur og höfðu hjartað á réttum stað. Einbeitnin og baráttuviljinn geislaði af liðinu.

Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland! Ég er að rifna úr stolti og þakka fyrir mig.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli