2007-02-23

Klámhundar á Sögu

Hollenski klámvefurinn FreeOnes.com hugðist halda vetrarhátíð (Snowgathering) á Íslandi 7.-11. mars 2007 og hafði fengið inni á Hótel Sögu fyrir þá sem hugðust þaka þátt. Fréttablaðið í dag (2007.02.23, bls 36) greinir frá því að um 60 hafi bókað þar gistingu.

Í gær tók stjórn Bændasamtakanna, en bændur eiga Hótel Sögu (Bændahöllina), þá ákvörðun að hætta við þessi viðskipti og rökstuddi ákvörðun sína með tilvísun til harðrar umræðu gegn fyrirhugaðri vetrarhátið frá stjórnmálamönnum, einkum borgarstjóranum í Reykjavík.

Þetta mál er dæmigert fyrir umræður í íslensku samfélagi þar sem mál eru rædd og rekin af tilfinningalegum trúarhita fremur en af yfirvegun og rökhyggju. Þessu hefur enginn lýst betur en hinn snjalli rithöfundur Halldór Laxness (Innansveitarkróníka, 9. kafli):

Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.

Margar áreiðanlegar vísbendingar eru til um að í skjóli kláms þrífist alls konar viðbjóður, eins og nauðung og mansal, sem öll samfélög vilja vera laus við. Þó er engin leið að fullyrða að þessi starfsemi sé öll þannig og enn síður að þeir sem vildu vera gistivinir Sögu séu fantar og glæpamenn upp til hópa. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessi hópur hefði neina ólöglega starfsemi í hyggju og það er grundvallaratriði í okkar réttarkerfi að menn eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir „ferðaiðnaðinum mikill vandi á höndum ef nauðsynlegt reynist að kanna bakgrunn hvers einasta ferðalangs sem hingað kemur en þeir eru um 400 þúsund á ári“ og spyr „hvort von sé á reglugerð frá stjórnvöldum um hverjir séu æskilegir hér á landi og hverjir ekki?“ (Fréttablaðið, 2007.02.23, bls 36). Þannig lítur málið út í augum venjulegs fólks sem stendur báðum fótum á jörðinni og er ekki heltekið af hysteríu.

Það sem er hlægilegt við þessa ákvörðun stjórnar Bændasamtakanna er að á hóteli þeirra eiga gestir kost á að velja klámrás í sjónvarpinu og gætu þess vegna horft á hina burtreknu gesti FreeOnes.com vinna vinnuna sína. Svo ætla bændur, NÚNA, að spyrja Radisson-SAS hvort ekki megi loka klámrásinni! Af hverju gengust þessir heilögu menn inn á þetta fyrirkomulag í upphafi?

Það sem er ógeðfellt við þessa niðurstöðu er að hún er byggð á hysteríu sem greip um sig í umræðunni og stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum, popúlískur borgarstjóri og hagsmunasamtök í ímyndarvanda glúpnuðu eða ákváðu að fiska í gruggugu vatni. Fyrir þessari ákvörðun liggja engin eðlileg rök. Maður veltir fyrir sér hvort að þetta hefði gerst ef ekki hefðu alþingiskosningar staðið fyrir dyrum eða langur tími væri liðinn frá ákvörðun um stórfelldan stuðning af almannafé við hnignandi atvinnugrein og forsvarsmenn hennar þar af leiðandi ekki með skjálfta í hnjánum. Borgarstjórinn í Reykjavík er hins vegar bara einfaldur popúlisti sem kaupir vinsældir við öll tækifæri og hann sá þarna útsöludæmi sem hann gat meira að segja fengið pólitíska andstæðinga sína til að reikna með sér. En útkoman var röng.

Það getur ekki verið rétt að mismuna fólki eftir því hvað það tekur sér fyrir hendur á meðan sú starfsemi fer ekki í bága við viðurkenndar leikreglur samfélagsins. Á t.d. að banna samkomur homma og lesbía ef þeir sem hafa aðra kynhegðun æsa til andstöðu við slíkar samkomur? Það hefur gerst. Gæti það gerst aftur? Hvað getur ekki gerst þegar hysterían ræður för? Það eru áreiðanlega einhverjir af þeim sem hafa tekið þátt í vetrarhátíðarhysteríunni sem voru á móti meðferðinni á Falun Gong hérna um árið. Sjá þeir ekkert misræmi á ferðinni?

Það er við því að búast að harðsvíruð hagsmunasamtök eins og femínistar hafi hátt undir svona kringumstæðum, en menn mega ekki láta glepjast af hávaðanum. Það verður að vera system í galskapet, það er lágmarkskrafa sem gera verður til stjórnvalda og þeirra sem bjóða sig fram til að fara með almannavald. Það gengur ekki að aðhafast eitthvað tilviljanakennt eftir því sem byrinn blæs hverju sinni. Þetta lið mætti skoða hugleiðingar Tómasar Becket í leikverki T. S. Eliot, Murder in the Cathedral, þegar hann velti fyrir sér hvort aðgerðir hans stjórnuðust af þrá eftir eilífri gloríu sem fælist í píslarvættisdauða:

The last temptation is the greatest treason:
To do the right deed for the wrong reason.
Mig grunar að viljinn til að vera hollur undir meintan pólitískan rétttrúnað augnabliksins hafi hér vegið þyngra en skynsemi, leikreglur og sanngirni í þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir. Ég óttast svona niðurstöður. Þannig gekk þetta fyrir sig í villta vestrinu: múgurinn æpti og einhver var hengdur. En það getur skjótt skipast veður í lofti og æpandi gærdagsins kann að vakna að morgni við að ól herðist að kverk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli