2011-03-22

Hreinsun

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu sig úr þingflokki VG í gær. Farið hefur fé betra. Þau ættu auðvitað að víkja af þingi í kjölfarið, en þráast við og bera við eftirspurn. Líklega væri hún aðallega bundin við áhuga þeirra sem vilja valda ríkisstjórninni sem mestum skaða.

Ástæður úrsagnanna voru næsta fátæklegar; einkum þær að ekki hafi verið hlustað á tillögur þeirra í þingflokknum. Þingflokksformaður VG heldur öðru fram og víst er að enginn þingmaður VG hefur tekið undir þennan málflutning. ENGINN. Eftir stendur þá að þau skötuhjúin hafa ekki getað þolað þá lýðræðislegu niðurstöðu sem varð raunin. Fólk sem hefur alltaf rétt fyrir sér og getur ekki tekið því að verða undir í málamiðlunum eða lýðræðislegri niðurstöðu á ekkert að vera í samkrulli með öðrum. Lilja er doktor í hagfræði og finnst að hún eigi að ráða ferðinni í efnahagsmálum í VG. Samflokksmenn hennar eru ekki sammála og hún getur ekki tekið því.

Dúettinn kvartar undan foringjaræði. Ætli hann hefði ekki dáið drottni sínum undir Davíð Oddssyni. Daprastar voru þó ásakanirnar um skert málfrelsi. Eins og Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á, þá hefur ekki orðið vart við að Lilja Mósesdóttir hafi ekki getað tjáð sig að vild.

Atli nefndi að samflokksmenn hans ætluðu greinilega ekkert að læra af Rannsóknarskýrslu Alþingis. Ginnheilagur maður Atli - eða hvað? Hann hafði varla sleppt orðinu þegar stjórn kjördæmisráðs VG í Suðurkjördæmi, hans eigin kjördæmi, opinberaði vonbrigði sín með að Atli skuli ekki hafa rætt fyrirætlanir sínar við stofnanir og grasrót flokksins í kjördæminu. Eru þetta vinnubrögð í anda Rannsóknarskýrslunnar? Eðlilega telur stjórnin að um trúnaðarbrest sé að ræða þannig að Atla Gíslasyni sé ekki lengur sætt í umboði kjósenda VG á Suðurlandi. Ennfremur lýsir stjórnin yfir stuðningi við ríkisstjórn VG og Samfylkingar, svona til að undirstrika hversu ósammála hún er málflutningi Atla. Það er því ljóst að Atli er í rauninni umboðslaus maður og ætti að segja af sér þingmennsku hið snarasta og kalla til varamann sinn.

En Atli þverskalli segir yfirlýsingu kjördæmisráðsins engu breyta, hann ætli að sitja áfram á þingi um sinn. Þetta er maðurinn sem vitnar í Rannsóknarskýrslu Alþingis og átelur félaga sína fyrir vond vinnubrögð - gott ef ekki spillt. Þetta er maðurinn sem kom í veg fyrir að einkavinavæðing Sjálfstæðismanna og Framsóknar á bönkunum yrði rannsökuð á vegum þingmannanefndarinnar sem hann veitti forstöðu. Hann ætlar félögum sínum illt, en er sjálfur heilagur. Veruleikafirrt sjálfsupphafning Atla blasir við.

Spegill og bergmál hentar svona fólki best. Vonandi verður nú vinnufriður til nauðsynlegra verka.

2010-04-12

Bókstafstrúarmenn

Í fréttum kemur orðið bókstafstrúarmaður ósjaldan fyrir og tengist þá gjarnan trúarafstöðu manna. En það eru til annars konar bókstafstrúarmenn. Þeir hafa komið sér upp umræðuaðferð, sem sver sig í ætt við þrætubók og orðhengilshátt, og trú á bókina. Þegar álitamál koma upp  seilast þeir í bókina, líta í hana og segja: þetta stendur ekki í bókinni, eða: það stendur ekki í bókinni að þetta sé bannað og þess vegna má ég. Hið síðarnefnda einkenndi útrásina sem sendi okkur aftur heim.

Maria Elvira Mendez Pinedo, kennari við Háskóla Íslands, vakti athygli á því í Silfri Egils að í íslensku lagaumhverfi sé mikil trú á bókstafinn. Í Evrópurétti, sem hún er sérfræðingur í, er meira skyggnst fram í tímann og einnig hugað að siðferðinu á bak við bókstafinn. Þar þykir rétt að lög séu í sífelldri endurskoðun - séu dýnamísk, eins og lífið sem festist ekki í handbremsu á Hringbrautinni. Mér hefur oft virst að íslenska stjórnkerfið, sem er allt meira og minna gegnsýrt af lögfræðingum frá Háskóla Íslands, horfi um of á bókstafinn, en hafi að sama skapi takmarkaða yfirsýn yfir fólkið, þarfir þess og samfélagið sem það myndar. Í samspili lífs og laga trúi ég að hin geðþekka Maria Elvira Mendez Pinedo geti kennt okkur eitt og annað og er það gleðiefni að hún veiti endurnærandi evrópskum, jákvæðum straumum um lagadeild Háskóla Íslands.

Allir sem hafa lesið góðar bókmenntir þekkja að ósjaldan býr eitthvað að baki bókstafnum. Þetta eitthvað  getur verið margvíslegt, en fyrst og fremst er það lífið sjálft. Lagareglur eru mannanna verk og geta því aðeins þjónað því lífi sem við lifum að þær taki mið af því. Á bak við bókstafinn býr mannlegur veruleiki sem þarf að vega og meta um leið og reglan er lesin því annars er bókstafurinn dauður og reglan tilgangslaus. Lögin eiga að þjóna fólkinu, en ekki öfugt. Bækur geta aukið lífsyndi okkar til muna, en lífinu verður þó ekki lifað eftir bókum hversu gott og göfugt það er sem í þeim stendur.

Úr fréttum og umræðum liðinnar viku má lesa að forstjóri Sjúkratryggingastofnunar hafi stympast við ráðherra heilbrigðismála um framkvæmd tiltekinnar reglugerðar sem ráðherrann segir skýra, en forstjórinn sér meinbugi á framkvæmd hennar og leitar til Ríkisendurskoðunar um ráð. Vegna þess sendir ráðherrann forstjóranum bréf og hótar áminningu. Bæði ráðherrann og forstjórinn starfa fyrir framkvæmdavaldið. Ríkisendurskoðandi, sem starfar fyrir löggjafarvaldið, ritar yfirmanni sínum, forseta Alþingis, bréf, segir aðgerðir ráðherrans „ólíðandi“ og að það sé alvanalegt að ríkisforstjórar sæki til sín ráð. Stjórnsýslufræðingur bloggar um þessi ummæli ríkisendurskoðandans og telur að þau setji „hugmyndina um sjálfstæði Ríkisendurskoðunar í uppnám“ þar sem þessi sama Ríkisendurskoðun gæti seinna þurft að fjalla um þessa sömu stofnun og þar með eigin ráðleggingar. Niðurstaða stjórnsýslufræðingsins er að bréf ríkisendurskoðanda beri „ekki aðeins vott um skort á góðri stjórnsýslu, heldur staðfestir hún hversu útbreidd óvönduð stjórnsýsla er á Íslandi.“

Hér er á ferðinni spennandi álitamál sem varðar samskipti framkvæmdavalds og löggjafarvalds, eftirlit með góðum rekstri og stjórnsýsluháttum, samskipti ráðherra og forstjóra ríkisstofnunar og þar með valdmörk. Hér er með öðrum orðum feitt á stykkinu; efniviður í fróðlega og málefnalega umræðu sem gæti skilað okkur áleiðis til betri stjórnsýslu og öflugra lýðræðis.

Þorsteinn Pálsson ákveður að blanda sér í þessa umræðu í Fréttablaðinu (10. apríl 2010, bls 18). Þorsteinn er nokkuð dæmigerður bókstafstrúarmaður af þeirri gerð sem vikið var að hér í upphafi, enda hefðbundinn íslenskur lögfræðingur, menntaður í lagadeild Háskóla Íslands. Hann skrifar reglulega greinar í Fréttablaðið, sem hann ritstýrði einu sinni, og tekur þess vegna þátt í því að móta umræðuna. Það má því með réttu gera til hans nokkrar kröfur um bitastæð framlög. Eins og vænta mátti fer Þorsteinn nákvæmlega eftir aðferð bókstafstrúarmanna í þessu efni, grípur lögbókina, þylur bókstafinn og kemst að niðurstöðu:

Í bókinni stendur að forstjórinn sé góður, en forsætisráðherrann vondur.

Það er ekki mikill safi í svona visnum greinum. En þetta er dæmigerð íslensk umræða sem skilar engu.

 

2010-01-05

Synjun forsetans

Hinn 30. desember 2009 samþykkti Alþingi Íslendinga með 33 atkvæðum gegn 30 lög um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Í morgun neitaði forseti Íslands að staðfesta þessi nýju lög.

Persónulega er ég afar ósáttur við þessa ákvörðun forsetans, þótt ég véfengi ekki að 26. gr. stjórnarskrár Íslands veiti honum rétt til að taka slíka ákvörðun, enda mun það orðið óumdeilt meðal fræðimanna í stjórnskipunarrétti eftir því sem Eiríkur Tómasson lagaprófessor sagði í sjónvarpinu í morgun.

Að mínu viti tók forsetinn ranga ákvörðun og í yfirlýsingu hans eru mikilvægir veikleikar að mínu mati.

Það er ekki ástæða til þess að vísa öllum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og milliríkjasamningur af þessu tagi er ekki til þess fallinn. Þetta hafa ýmsir bent á og síðast Eiríkur Tómasson í morgun. Þetta hefði forsetinn mátt íhuga og taka afstöðu til í yfirlýsingu sinni.

Mér finnst forsetinn gera of mikið úr þeim áskorunum sem InDefence hefur safnað, þar sem framkvæmd þeirrar söfnunar hefur verið vægast sagt vafasöm. Þá var spurningin sem lögð var fyrir fólk villandi því gefið var í skyn að tekist væri á um hvort borga ætti Icesave skuldir eða ekki. Slíkir valkostir eru raunverulega ekki í boði. Með því að taka mark á svona framkvæmd er forsetinn að gera óvönduðum vinnubrögðum óþarflega hátt undir höfði og skapa slæmt fordæmi sem lýðskrumarar gætu vísað til og nýtt sér.

Í yfirlýsingu forseta segir: „Þá sýna yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafa borist frá einstökum þingmönnum að vilji meirihluta alþingismanna er að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.“ Þetta er tvímælalaust veikasti hlekkurinn í röksemdafærslu forsetans. Alþingi hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í sérstakri atkvæðagreiðslu. Það er því fráleitt að taka óljósar yfirlýsingar einstakra þingmanna fram yfir þá samþykkt sem liggur fyrir.

Og hver er þá staðan eftir synjun forsetans? Við sitjum uppi með lausn (lög nr 96/2009) sem viðsemjendur okkar (Bretar og Hollendingar) hafa hafnað; með öðrum orðum: enga lausn. Við munum ekki sækja gull í greipar Breta sem eru að fara í kosningar og myndu fagna því að fara í slag við okkur um Icesave. Hollendingar eru ekki árennilegir heldur. Og Icesave hverfur ekki, eins og fjármálaráðherra hefur margsagt.

Synjun forsetans hefur því sett endurreisnarstarf réttkjörinnar ríkisstjórnar landsins í mikið uppnám að ástæðulausu og gert leiðina út úr kreppunni erfiðari en hún hefði þurft að vera. Það var mikið óþurftarverk.

Ég er sammála Eiríki Tómassyni um að í þessari stöðu væri best að ríkisstjórnin drægi lögin til baka og leitaði eftir að fá traustan erlendan aðila til að gerast sáttasemjari í þessari deilu. Og þá getum við bara vonað að kostir okkar verði ekki verri en okkur stóðu til boða fyrir klukkan ellefu í morgun.

2008-12-05

Rúnar Júlíusson - In memoriam


Ísland hefur bara átt einn virkilegan töffara. Og núna er hann allur.

Það er krepputíð, en öll él birtir upp um síðir.

En það verður aldrei til nema einn Rúnar Júlíusson.

(Sjá þetta blog í tilefni sextugsafmælis Rúnars).

2008-10-11

Barbabrella hittir Breta fyrir

Það skyldi þó aldrei fara svo að barbabrella lagsbræðranna Darling og Brown muni hitta Bretland og þá sjálfa verst fyrir þegar upp er staðið. Hvorugur þeirra virðist hafa áttað sig á því að breskir hagsmunir kynnu að falla fyrir borð ef ráðist yrði gegn íslenskum bönkum í Bretlandi.

Áhrifin virðast ætla að verða enn víðtækari því gengi pundsins hefur fallið töluvert gagnvart dollara og jeni af því að menn hafa áhyggjur af deilu Íslendinga og Breta.

Þetta dæmi ætti að vera misvitrum stjórnmálamönnum á lágu siðferðisplani til viðvörunar um að falla ekki stundarfreistni eigingirninnar og fálma í hálmstrá frekar en að koma hreint fram og taka afleiðingum gjörða sinna.