2005-04-13

Megatöffari sextugur

Það eru bara til tveir töffarar í þessum heimi: Clint Eastwood og Rúnar Júlíusson. Sá síðarnefndi á sextugsafmæli í dag og færi ég honum hugheilar hamingjuóskir með þann merka áfanga.

Það er ekkert auðvelt að skilgreina hvers vegna Rúnar er svona mikill töffari – hann bara er það; í orðsins bestu merkingu. Það segir kannski sína sögu að sá sem segir skilið við fótbolta og afneitar landsliðssæti til að gerast tónlistarmaður er ekki alveg meðaljóninn holdi klæddur. Slíkur maður þekkir sína köllun – og gegnir kallinu.

Rúnar var hetja minna unglingsára allar götur frá því að ég sá hann fyrst á sviði með Hljómum í Menntaskólanum á Laugarvatni á áttunda áratug síðustu aldar og hann hefur staðið í fararbroddi í rokkinu allar götur síðan og aldrei látið deigan síga.

Menn eins og Rúnar Júlíusson auðga tilveruna og gefa lífinu lit - hlýjan lit. Áfram Rúnar!