2011-03-22

Hreinsun

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu sig úr þingflokki VG í gær. Farið hefur fé betra. Þau ættu auðvitað að víkja af þingi í kjölfarið, en þráast við og bera við eftirspurn. Líklega væri hún aðallega bundin við áhuga þeirra sem vilja valda ríkisstjórninni sem mestum skaða.

Ástæður úrsagnanna voru næsta fátæklegar; einkum þær að ekki hafi verið hlustað á tillögur þeirra í þingflokknum. Þingflokksformaður VG heldur öðru fram og víst er að enginn þingmaður VG hefur tekið undir þennan málflutning. ENGINN. Eftir stendur þá að þau skötuhjúin hafa ekki getað þolað þá lýðræðislegu niðurstöðu sem varð raunin. Fólk sem hefur alltaf rétt fyrir sér og getur ekki tekið því að verða undir í málamiðlunum eða lýðræðislegri niðurstöðu á ekkert að vera í samkrulli með öðrum. Lilja er doktor í hagfræði og finnst að hún eigi að ráða ferðinni í efnahagsmálum í VG. Samflokksmenn hennar eru ekki sammála og hún getur ekki tekið því.

Dúettinn kvartar undan foringjaræði. Ætli hann hefði ekki dáið drottni sínum undir Davíð Oddssyni. Daprastar voru þó ásakanirnar um skert málfrelsi. Eins og Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á, þá hefur ekki orðið vart við að Lilja Mósesdóttir hafi ekki getað tjáð sig að vild.

Atli nefndi að samflokksmenn hans ætluðu greinilega ekkert að læra af Rannsóknarskýrslu Alþingis. Ginnheilagur maður Atli - eða hvað? Hann hafði varla sleppt orðinu þegar stjórn kjördæmisráðs VG í Suðurkjördæmi, hans eigin kjördæmi, opinberaði vonbrigði sín með að Atli skuli ekki hafa rætt fyrirætlanir sínar við stofnanir og grasrót flokksins í kjördæminu. Eru þetta vinnubrögð í anda Rannsóknarskýrslunnar? Eðlilega telur stjórnin að um trúnaðarbrest sé að ræða þannig að Atla Gíslasyni sé ekki lengur sætt í umboði kjósenda VG á Suðurlandi. Ennfremur lýsir stjórnin yfir stuðningi við ríkisstjórn VG og Samfylkingar, svona til að undirstrika hversu ósammála hún er málflutningi Atla. Það er því ljóst að Atli er í rauninni umboðslaus maður og ætti að segja af sér þingmennsku hið snarasta og kalla til varamann sinn.

En Atli þverskalli segir yfirlýsingu kjördæmisráðsins engu breyta, hann ætli að sitja áfram á þingi um sinn. Þetta er maðurinn sem vitnar í Rannsóknarskýrslu Alþingis og átelur félaga sína fyrir vond vinnubrögð - gott ef ekki spillt. Þetta er maðurinn sem kom í veg fyrir að einkavinavæðing Sjálfstæðismanna og Framsóknar á bönkunum yrði rannsökuð á vegum þingmannanefndarinnar sem hann veitti forstöðu. Hann ætlar félögum sínum illt, en er sjálfur heilagur. Veruleikafirrt sjálfsupphafning Atla blasir við.

Spegill og bergmál hentar svona fólki best. Vonandi verður nú vinnufriður til nauðsynlegra verka.