2008-01-28

Strámann og Grámann

Styrmir Morgunblaðsritstjóri, sem hefur líklega aldrei náð sér eftir kalda stríðið, stundar í hverjum leiðaranum eftir annan leik sem sumir Sjálfstæðismenn hafa gert að viðteknum vinnubrögðum sínum síðustu misserin. Þessi leikur, sem má kannski best lýsa með orðtakinu „við skulum frekar en verða bit, velta röngu og svíkja lit“, hófst til sérstakrar virðingar í valdatíð Davíðs Oddssonar, sem lýsti einu afbrigði hans í sjónvarpsviðtali.  Eftir það viðtal var komið nafn á þetta afbrigði: smjörklípuaðferð.  Finnur Vilhjálmsson bregður nýju ljósi á þessa eftirlætisiðju Styrmis og hans nóta í athyglisverðri grein og þar kemur í ljós að aðferðin er þekkt úr úr rök- eða mælskulist og kallast að búa til strámann.

Styrmir hefur ítrekað haldið því fram að Samfylkingin standi á bak við sérstaka aðför sem hann segir gerða að Ólafi F. Magnússyni án þess að hann geri minnstu tilraun til að rökstyðja þessar fullyrðingar sem eru auðvitað algjörlega tilhæfulausar.  Engir hafa verið duglegri að gera veikindi Ólafs að umræðuefni en einmitt Sjálfstæðismenn.  Engu að síður situr Styrmir úti í móa og mótar sinn strámann af hatramri elju.

En það sitja fleiri við strámannsgerð en nátttröllið í Hádegismóum. Í öðru garðshorni situr Björn Bjarnason og tekur strámanni Styrmis fagnandi og gerir að sínum; grámanni. Björn reynir heldur ekki að styðja grámann sinn rökum, en fimbulfambar og fullyrðir út í eitt út frá þessum uppvakningi þeirra Styrmis. Þetta er heldur grátt gaman hjá þeim félögum og sýnir hversu ómerkilegur málflutningur þeirra er.  Tilgangurinn helgar meðalið.  Ég snýti mér í forakt.
 

2008-01-24

Setjum stjórnmálamönnum siðareglur

Sífellt er talað um að stjórnmál snúist um traust og það get ég sannarlega tekið undir. En eru stjórnmálamenn trúverðugir og getum við treyst þeim? Hér eru fáein nýleg dæmi sem benda ekki til þess:

  • Rannsókn Center for Public integrity hefur leitt í ljós að George Bush og hans nótar létu frá sér fara 935 rangar yfirlýsingar á tveggja ára tímabili eftir 11. september 2001. Þessar yfirlýsingar snerust um hættu sem átti að stafa af Írak á valdatíma Saddam Hussain (sjá einnig hér). Stuðningur íslenskra stjórnvalda var m.a. rökstuddur með þessum röngu staðhæfingum.
  • Það hefur komið fram að Ólafur F. Magnússon, sem nýlega myndaði nýjan meirihluta í Reykjavík með Sjálfstæðisflokknum, fullyrti margsinnis bæði við Dag B. Eggertsson og Margréti Sverrisdóttur að ekkert væri til í sögusögnum um að hann stæði í meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn mánudaginn 21. janúar s.l. Nú er öllum ljóst að þar fór hann ekki með rétt mál.
  • Því hefur verið haldið fram að Vilhjálmur Vilhjálmsson og Kjartan Magnússon hafi sagt Ólafi að ef hann makkaði ekki með þeim, myndu þeir mynda meirihluta með VG. Vilhjálmur hefur neitað þessu (hver trúir honum eftir það sem á undan er gengið?), en Ólafur hefur sagt að hann hafi skilið umræðuna þannig að fleiri ættu möguleika á meirihlutamyndun með Sjálfstæðisflokknum en hann einn.
  • Skipun héraðsdómara fyrir norðan og austan hefur verið varin af dæmafárri ósvífni. Settur dómsmálaráherra hefur ráðist á dómnefndina í fjölmiðlum og forsætisráðherra segir á Alþingi Íslendinga að gagnrýni Sigurðar Líndal á þessa ráðstöfun sé honum til minnkunar. Er ekki verið að snúa öllu á hvolf hérna, rétt eina ferðina? Á sama tíma og lögfræðimenntaður Sjálfstæðismaður, Sigríður Andersen, segir á háskólafundi að best væri að draga dómnefndina inn í dómsmálaráðuneytið kemur í ljós að á öðrum Norðurlöndum er vægi dómnefnda miklu meira en hér tíðkast. Svipaða sögu er að segja af öðrum löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Hér erum við Íslendingar aftarlega á merinni og þurfum að taka okkur á. Hugmyndir Sigríðar eru augljóslega fjarstæða og greinilega eingöngu hugsaðar til að auka enn áhrif dómsmálaráðherra á skipun dómara. Dómarafélag Íslands hefur ályktað „að ráðherra beri við skipun í dómaraembætti að hafa hliðsjón af umsögn dómnefndar þótt hann sé ekki bundinn af henni.“ Í sama streng hafa tekið fjölmargir lögmenn og fræðimenn. Samt er þverskallast.
Við þetta verður ekki unað lengur. Almenningur í landinu verður að rísa upp og taka stjórnmálamennina á beinið. Það þarf að fara fram endurmat á pólitískri starfsemi í landinu og treysta stoðir lýðræðisins. Stjórnmálamenn hafa ítrekað hagað sér með þeim hætti að þeim er ekki lengur treystandi. Kjósendur þurfa að setja stjórnmálamönnum strangar siðareglur og sjá til þess að þeir hafi þær í heiðri.

Fulltrúar mínir á Alþingi, í ríkisstjórn eða í sveitarstjórn eiga ekki að ljúga, hafa rangt við, þjóna einkavinum, snúa út úr og stunda orðhengilshátt í orðræðu, beita bellibrögðum og fara á svig við vandaða stjórnsýslu. Ég hafna valdabrölturum, þeir hafa ekki mitt umboð til skrípaláta og oflátungsháttar. Mínir fulltrúar eiga að vinna fyrir fólkið sem kaus þá - fyrir almenning í landinu og ekki sinna öðrum hagsmunum. Verði þeim á í messunni eiga þeir að segja af sér og aðrir fulltrúar að koma í þeirra stað.

2007-05-14

Nú reynir á Geir

Nú er spennandi kosninganótt að baki og niðurstaðan liggur fyrir: stjórnin hélt velli með mjög nauman meirihluta og sú staða skrifast aðallega á meingallað og óréttlátt kosningakerfi.

Sigurvegarar kosninganna eru Sjálfstæðisflokkur og Vinstri hreyfingin grænt framboð, en Samfylking og Framsókn biðu ósigra. Samfylkingin tapaði í öllum kjördæmum og hlýtur það að vera áhyggjuefni, jafnvel þó benda megi á að flokkurinn hafi stöðugt unnið á undir lok kosningabaráttunnar. Lexía Samfylkingarinnar hlýtur að vera sú að nú eigi menn að snúa bökum saman og vinna vel saman sem órofa heild allt næsta kjörtímabil.

Útreið Framsóknar hefur tæpast verið verri frá upphafi vega. Fyrir kosningarnar höfðu ýmsir framsóknarmenn, m.a. tveir ráðherrar flokksins (Guðni og Valgerður) talað mjög skýrt um að flokkurinn yrði að fá góða útkomu úr kosningum til að geta haldið áfram stjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokknum. Það kom því ekki á óvart á kosninganótt að formaður Framsóknarflokksins talaði í þá veru að það væri tæpast lýðræðislegt fyrir flokkinn að setjast í stjórn eftir þá útreið sem var að birtast í tölum næturinnar. Hitt var býsna undarlegt að heyra bæði hann og Guðna varaformann hringsnúast í afstöðu sinni og tala í þveröfuga átt eftir að ljóst var að stjórnin félli ekki. Þetta er auðvitað afskaplega ótrúverðugt og sýnir niðurlægingu Framsókn hvað skýrast. Þar er engin reisn eftir og því er kannski bara best að Framsókn renni sitt skeið á enda og minnki enn meira eða hverfi alveg í næstu kosningum.

Mér finnst ekki koma til greina að mynda vinstri stjórn (Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar) við þessar aðstæður. Framsókn var hafnað og á ekki að taka þátt í stjórn. Samfylking og Vinstri grænir gagnrýndu Framsókn réttilega og eiga því ekkert að biðla til þeirra með eitt eða neitt. Sterkasta stjórnin yrði auðvitað stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og ef rétt væri á spilum haldið gæti slík stjórn orðið býsna farsæl. Forspár Ögmundar Jónassonar um slíka stjórn eru fráleitar og með öllu órökstuddar.

Eitt er víst: Geir er með trompin á hendi og nú reynir fyrst verulega á hæfni hans sem stjórnmálaleiðtoga. Hvernig spilar hann úr þessari stöðu? Reynist hann skarpskyggn eða glámskyggn á framtíðina? Sér hann óvænta möguleika og snjalla leiki í stöðunni? Ég bíð spenntur eftir ákvörðun Geirs Hilmars.

2007-05-12

Alþingiskosningar 2007


Þá er komið að því; kosningadagurinn er runninn upp og komið að því að kjósa. Það vefst auðvitað ekki fyrir mér.

Kosningabaráttan hefur ekki verið af því tagi að menn gangi að kjörborði blóðugir upp til axla eftir hatrömm átök og það kannski eins gott. Samt eru ýmsar rósir sem finna má í fjólugarði kosningabaráttunnar, eða eigum við kannski að segja arfaklær. Heimskulegasta orðræða þessa tímabils var án efa bloggfærsla Ástu Möller um forseta Íslands. Úreldingarverðlaunin fær Geir Haarde fyrir klisjuna um að vinstri stjórn væri það versta sem fyrir gæti komið. Þessi orð virka sérstaklega ankannalega úr munni Geirs sem öðrum fremur ber ábyrgð á háum vöxtum, mikilli verðbólgu og skattpíningu okkar minnstu bræðra. Hann hefur ekki einu sinni menntunarskort sér til afbötunar því hann er hagfræðingur - en stóð að þessu samt! Svo spyr hann í heilsíðuauglýsingum hverjum sé treystandi. Svarið liggur í augum uppi: ekki honum, sem hafði tækifærin og nýtti þau ekki.

Nei, það vefst ekki fyrir mér hvað á að kjósa. Ég er stoltur jafnaðarmaður og kýs þess vegna Samfylkinguna. Hér að ofan er raunsæ spá mín um úrslit kosninganna, en ég vona að Samfylkingin fái jafnvel meira fylgi en þarna er sýnt og að útreið Framsóknar verði sýnu verri en hér er spáð.

2007-04-17

Vinir Kára

Óli Björn Kárason bloggar um viðtal Ólafs Teits Guðnasonar við Kára Stefánsson sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Í viðtalinu gagnrýnir Kári ríkisstjórnina harðlega og segir orðrétt: „Með vini eins og þessa ríkisstjórn þarf maður ekki á neinum óvinum að halda.“

Bragð er að þá barnið finnur. Kári segir ríkisstjórnina hafa misst kjark til að standa að gerð miðlægs gagnagrunns og einnig lofað ríkisábyrgð á skuldabréfum, sem síðan „dróst bara og dróst og dróst“ segir Kári og á endanum seldi ÍE sín eigin skuldabréf án ríkisábyrgðar.

Þessi mál voru auðvitað umdeild á sínum tíma og fróðlegt að vita loks lyktir þeirra beggja eins og Kári túlkar þær. En er ekki augljóst af þessari atburðarás hvernig Davíð ætlaði að hygla sínum gamla skólabróður en kom því ekki í gegn þrátt fyrir allt. Ekki er ólíklegt að arftaki hans hafi staðið á bremsunni og haft betur þegar upp var staðið. En hvernig sem því kann að vera varið, eru þetta þó ágæt dæmi um hringlandahátt ríkisstjórnarinnar. Það er vissulega vafasamt að gefa einkafyrirtækjum fyrirheit um ríkisábyrgð á lánum. En verða menn ekki að standa við það sem þeir lofa? Allir vita reyndar að stjórnmálamenn rísa sjaldnast undir þeirri kröfu. Þeir eru alltaf stikkfrí.

2007-04-15

........ í lauginni

Þá er auglýsingaherferð Framsóknar hafin. Í blöðunum sjást litlar auglýsingar, sem síðan eiga vafalaust eftir að stækka þegar nær dregur kosningum. Í þeirri auglýsingu sem spiluð hefur verið í sjónvarpi að undanförnu er megináhersla lögð á formanninn. Auglýsingin er hefðbundin og frekar hallærisleg. Þegar formaðurinn damlaði í Laugardalslauginni kom strax upp í hugann blúslag sem dúettinn Súkkat flutti eftirminnilega hér fyrir nokkrum árum. Ég er viss um að þeir félagar myndu leyfa Framsóknarmönnum að leika það undir sundæfingum formannsins - sem væri auðvitað mjög viðeigandi.

2007-04-13

Mbl.is er áróðursvefur

Landsfundur Samfylkingarinnar var settur kl 16:00 í dag. Um klukkutíma síðar var hvergi á hann minnst á fréttaforsíðu Mbl.is. Á sama tíma var bein útsending frá fundinum á Vísir.is. Þessu til sönnunar má sjá hér skjámyndir af fréttaforsíðum beggja vefjanna (Mbl.is og Vísir.is) sem teknar voru með forritinu url2bmp kl 16:58 og 17:00 í dag.

Það hefur löngum verið sagt að Morgunblaðið ljúgi með þögninni og fréttavefur blaðsins sannar þetta núna eftirminnilega. Það er gengið svo langt í áróðrinum (þögn er líka áróður) að fréttamatið er lagt til hliðar ásamt fagmennskunni. ISS!

2007-04-07

Íbúakosningarnar í Hafnarfirði

Nýlega fór fram kosning meðal íbúa Hafnarfjarðar um tiltekna deiliskipulagstillögu. Bæjarstjórnin hafði djörfung og dug til að brjóta blað og gefa íbúunum kost á að láta álit sitt í ljós á máli sem vitað var að skipti þá miklu. Könnun sýndi að um 90% íbúanna kunnu vel að meta þessa ákvörðun og ég trúi því að Hafnfirðingar muni sýna þann félagsþroska að taka niðurstöðunni með stóískri ró.

Það hefur talsvert borið á því í þjóðfélagsumræðunni að menn fari fram með þvætting sem hver étur svo eftir öðrum eins og um heilagan sannleik væri að ræða. Þannig var því haldið fram hér um árið að ákvörðun forseta Íslands um að neita að samþykkja umdeild fjölmiðlalög myndi leiða af sér stjórnarkreppu. Þó að margir legðu sér þessi orð í munn á þeim tíma, vita nú allir að þetta var bull.

Í aðdraganda íbúakosninganna í Hafnarfirði gáfu bæjafulltrúar Samfylkingarinnar ekki upp afstöðu sína til fyrirliggjandi skipulagstillögu. Það var auðvitað afskaplega eðlilegt og hefði farið betur á að aðrir bæjarfulltrúar hefðu fylgt fordæmi þeirra því hlutverk bæjaryfirvalda var eingöngu að koma kosningunni á og setja um hana leikreglur og það var gert. Atkvæðisbærir Hafnfirðingar voru síðan einfærir um að mynda sér skoðun á álitaefninu út frá sínum hagsmunum og þurftu auðvitað ekki á hjálparhönd frá bæjarfulltrúum að halda til að ljúka því verkefni. Þetta sér hver meðalgreindur maður. Samt kemur einhver bullukollurinn og fer að fimbulfamba um kjarkleysi, hjásetu, að „skýla sér á bak við íbúalýðræði“ og ég veit ekki hvað. Og áður en við er litið étur þetta hver upp eftir öðrum án þess að reynt sé að styðja þessar staðhæfingar með rökum. Svona orðræða er auðvitað ekki boðleg og dæmir sig sjálf – úr leik. Þeir sem hana stunda gera ekki miklar andlegar kröfur til sjálfra sín.

2007-03-01

Allt er vænt sem vel er grænt

Í tilefni af forsíðu Moggans fyrir skemmstu:

Kosningar nálgast og nú þarf að brýna brandinn
og búast þeim klæðum sem helst geta fylgi rænt.
Það hvítnar í báru og eggjaður gerist nú andinn
og illfyglið smælar á forsíðu Moggans - grænt.

2007-02-23

Klámhundar á Sögu

Hollenski klámvefurinn FreeOnes.com hugðist halda vetrarhátíð (Snowgathering) á Íslandi 7.-11. mars 2007 og hafði fengið inni á Hótel Sögu fyrir þá sem hugðust þaka þátt. Fréttablaðið í dag (2007.02.23, bls 36) greinir frá því að um 60 hafi bókað þar gistingu.

Í gær tók stjórn Bændasamtakanna, en bændur eiga Hótel Sögu (Bændahöllina), þá ákvörðun að hætta við þessi viðskipti og rökstuddi ákvörðun sína með tilvísun til harðrar umræðu gegn fyrirhugaðri vetrarhátið frá stjórnmálamönnum, einkum borgarstjóranum í Reykjavík.

Þetta mál er dæmigert fyrir umræður í íslensku samfélagi þar sem mál eru rædd og rekin af tilfinningalegum trúarhita fremur en af yfirvegun og rökhyggju. Þessu hefur enginn lýst betur en hinn snjalli rithöfundur Halldór Laxness (Innansveitarkróníka, 9. kafli):

Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.

Margar áreiðanlegar vísbendingar eru til um að í skjóli kláms þrífist alls konar viðbjóður, eins og nauðung og mansal, sem öll samfélög vilja vera laus við. Þó er engin leið að fullyrða að þessi starfsemi sé öll þannig og enn síður að þeir sem vildu vera gistivinir Sögu séu fantar og glæpamenn upp til hópa. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þessi hópur hefði neina ólöglega starfsemi í hyggju og það er grundvallaratriði í okkar réttarkerfi að menn eru saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir „ferðaiðnaðinum mikill vandi á höndum ef nauðsynlegt reynist að kanna bakgrunn hvers einasta ferðalangs sem hingað kemur en þeir eru um 400 þúsund á ári“ og spyr „hvort von sé á reglugerð frá stjórnvöldum um hverjir séu æskilegir hér á landi og hverjir ekki?“ (Fréttablaðið, 2007.02.23, bls 36). Þannig lítur málið út í augum venjulegs fólks sem stendur báðum fótum á jörðinni og er ekki heltekið af hysteríu.

Það sem er hlægilegt við þessa ákvörðun stjórnar Bændasamtakanna er að á hóteli þeirra eiga gestir kost á að velja klámrás í sjónvarpinu og gætu þess vegna horft á hina burtreknu gesti FreeOnes.com vinna vinnuna sína. Svo ætla bændur, NÚNA, að spyrja Radisson-SAS hvort ekki megi loka klámrásinni! Af hverju gengust þessir heilögu menn inn á þetta fyrirkomulag í upphafi?

Það sem er ógeðfellt við þessa niðurstöðu er að hún er byggð á hysteríu sem greip um sig í umræðunni og stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum, popúlískur borgarstjóri og hagsmunasamtök í ímyndarvanda glúpnuðu eða ákváðu að fiska í gruggugu vatni. Fyrir þessari ákvörðun liggja engin eðlileg rök. Maður veltir fyrir sér hvort að þetta hefði gerst ef ekki hefðu alþingiskosningar staðið fyrir dyrum eða langur tími væri liðinn frá ákvörðun um stórfelldan stuðning af almannafé við hnignandi atvinnugrein og forsvarsmenn hennar þar af leiðandi ekki með skjálfta í hnjánum. Borgarstjórinn í Reykjavík er hins vegar bara einfaldur popúlisti sem kaupir vinsældir við öll tækifæri og hann sá þarna útsöludæmi sem hann gat meira að segja fengið pólitíska andstæðinga sína til að reikna með sér. En útkoman var röng.

Það getur ekki verið rétt að mismuna fólki eftir því hvað það tekur sér fyrir hendur á meðan sú starfsemi fer ekki í bága við viðurkenndar leikreglur samfélagsins. Á t.d. að banna samkomur homma og lesbía ef þeir sem hafa aðra kynhegðun æsa til andstöðu við slíkar samkomur? Það hefur gerst. Gæti það gerst aftur? Hvað getur ekki gerst þegar hysterían ræður för? Það eru áreiðanlega einhverjir af þeim sem hafa tekið þátt í vetrarhátíðarhysteríunni sem voru á móti meðferðinni á Falun Gong hérna um árið. Sjá þeir ekkert misræmi á ferðinni?

Það er við því að búast að harðsvíruð hagsmunasamtök eins og femínistar hafi hátt undir svona kringumstæðum, en menn mega ekki láta glepjast af hávaðanum. Það verður að vera system í galskapet, það er lágmarkskrafa sem gera verður til stjórnvalda og þeirra sem bjóða sig fram til að fara með almannavald. Það gengur ekki að aðhafast eitthvað tilviljanakennt eftir því sem byrinn blæs hverju sinni. Þetta lið mætti skoða hugleiðingar Tómasar Becket í leikverki T. S. Eliot, Murder in the Cathedral, þegar hann velti fyrir sér hvort aðgerðir hans stjórnuðust af þrá eftir eilífri gloríu sem fælist í píslarvættisdauða:

The last temptation is the greatest treason:
To do the right deed for the wrong reason.
Mig grunar að viljinn til að vera hollur undir meintan pólitískan rétttrúnað augnabliksins hafi hér vegið þyngra en skynsemi, leikreglur og sanngirni í þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir. Ég óttast svona niðurstöður. Þannig gekk þetta fyrir sig í villta vestrinu: múgurinn æpti og einhver var hengdur. En það getur skjótt skipast veður í lofti og æpandi gærdagsins kann að vakna að morgni við að ól herðist að kverk.

2007-01-22

Áfram Ísland!

Ísland sigraði Evrópumeistaralið Frakka í kvöld með átta marka mun (32:24) eftir að hafa verið yfir allan tímann og m.a. komist í 5:0 og liðið náði mest 11 marka forskoti í leiknum. Ísland leiddi með tíu marka mun í hálfleik. Þetta er besti leikur íslensks handboltaliðs frá upphafi vega. Það getur ekki verið nein spurning.

Eftir arfaslakan leik við Úkraínumenn á sunnudaginn var margur maðurinn niðurdreginn og bjóst við hinu versta. Því var fögnuðurinn yfir leik liðsins í kvöld dýpri og kröftugri. Ég ætlaði lengi vel ekki að trúa eigin augum og kveið fyrir seinni hálfleiknum. Það reyndist ástæðulaust. Frakkar komu að vísu ákveðnir til leiks þá, en okkar menn voru bara enn ákveðnari og juku muninn!

Það gekk eiginlega allt upp hjá íslenska liðinu: vörnin hörkugóð, markvarslan frábær og sóknarleikurinn beittur og skilaði hverju markinu á fætur öðru. Frakkar spiluðu vel; þeir eru með frábært lið. Íslendingar spiluðu bara betur og höfðu hjartað á réttum stað. Einbeitnin og baráttuviljinn geislaði af liðinu.

Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland! Ég er að rifna úr stolti og þakka fyrir mig.

2006-12-21

Erindisleysa Ísafoldar

Reynir Traustason sendi blaðakonu inn á vistheimilið Grund undir fölsku flaggi og birti síðan grein blaðakonunnar í tímariti sínu Ísafold. Skemmst er frá því að segja að uppátækið vakti að vonum hörð viðbrögð stjórnenda Grundar. Reynir varði ritsmíðina og aðferðafræðina með nokkrum þjósti og talaði m.a. um að almenningur ætti rétt á að vita hvernig væri að gamla fólkinu á Grund búið. Þessi lumma er kunnugleg (man einhver eftir tveimur ritstjórum DV sem lummulegir þurftu að taka pokann sinn?) og í rauninni bull. Ónákvæmar og rangar upplýsingar eru verri en engar upplýsingar.

Á vef Morgunblaðsins er greint frá athugun Landlæknisembættisins á aðstæðum vistmanna á Grund og sjónum beint að nokkrum atriðum sem sérstaklega voru gagnrýnd í umfjöllun Ísafoldar. Skemmst er frá því að segja að næsta fá ef nokkur af sannleikskornum Ísafoldargreinarinnar standa eftir óhrakin. Frásögnin af beinbroti gömlu konunnar er „augljóslega röng“, fullyrðingar um skort á hreinlæti og að vistmenn „gangi um í slitnum og skítugum fötum“ eru rangar og hjal um erfiðleika í samskiptum við starfsmenn af erlendu bergi brotna á ekki við rök að styðjast.

Landlæknisembættið kannaði skrifleg gögn, kom í fyrirvaralausar heimsóknir á Grund og ræddi við starfsmenn, vistmenn og einn aðstandanda. Eina athugasemd embættisins var ábending um að starfsmenn væru látnir undirrita trúnaðaryfirlýsingu áður en þeir væru ráðnir.

Reynir Traustason er ágætur og vel meinandi blaðamaður, en í þessu máli lenti hann á villigötum. Vonandi lærir hann af því að seilast ekki aftur í vafasamar aðferðir sorpblaðamennskunnar. Hann þarf ekkert á því að halda.

 

2006-12-13

Fúl smjörklípa

Björn Ingi Hrafnsson átti verulega erfitt í Kastljósi kvöldsins. Hann gat með engu móti rætt efnislega um afar hæpnar ráðningar á ýmsum Framsóknarmönnum í verkefni tengdum Reykjavíkurborg í skjóli hans sjálfs að undanförnu. Þess í stað reyndi hann alls kyns undanbrögð. Hvernig varst þú ráðinn Helgi? Hvernig var þetta hjá R-listanum? Þetta á ekkert skylt við efnislega umræðu, eða verða óhæfuverk Framsóknarflokksins réttmæt ef einhver annar hefur gert svipaða hluti?

Björn Ingi sýndi nú sitt rétta andlit. Á bak við smælið og vatnsgreiðsluna glitti í kaldrifjaðan framapotara og tækifærissinna sem vílar ekki fyrir sér að beita dónaskap, útúrsnúningum, orðhengilshætti og smjörklípuaðferð til að fela málefnafátæktina og getuleysið til að ræða hæpnar aðgerðir sínar efnislega. Ítrekað greip hann fram í fyrir Degi til að trufla málflutning hans, af því að hann gat ekki mætt honum með efnislegum rökum. Hvílík eymd!

En einn maður var ánægður með frammistöðu Björns Inga, nefnilega Björn Bjarnason enda er þetta orðræða í hans anda. Sá lét nú ekki lögin þvælast fyrir sér þegar hann stóð í ráðningum í Hæstarétt (sjá einnig hér). Með vísun til almennrar málvenju má segja að Birni Inga hafi því tekist að skemmta skrattanum. Þeir sem hafa áhuga á efnislegri umræðu og leiðast pólitísk fíflalæti hafa ekki skemmt sér að sama skapi.

Ég spái því að pólitískt líf Björns Inga nái til loka kjörtímabils hans sem borgarfulltrúa Framsóknar í Reykjavík – og væri það vel. Íslensk stjórnmál þurfa ekki á öðrum smjörklípumanni að halda.

Hér sýnir smjörklípumaðurinn sitt rétta andlit


2006-12-03

Listasmíð

Umræðan um Íraksmálið eftir ræðu Jón Sigurðssonar hefur verið mjög undarleg af hálfu stjórnarflokkanna, enda eru þeir með allt niðrum sig í þessu máli. Í næsta pistli hér á undan var bent á bullið í Birni Bjarnasyni og afbökun staðreynda. Formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, lét sér sæma að viðhafa svipaðan málflutning á Alþingi. Fyrir utan það að Íraksmálið hefur aldrei snúist um hvort einhverju máli skipti hvort Íslendingar styddu innrás eður ei, þá hafa þeir Guðmundur Steingrímsson og Egill Helgason báðir bent á hversu ótrúverðugur málflutningur það sé að þylja þessa fráleitu þulu og segja svo í hinu orðinu að Ísland eigi fullt erindi inn í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Svona málflutningur er auðvitað ekki nokkrum bjóðandi og hneisa að ráðherrar fari fram með þessum hætti.

Jón Sigurðsson talaði í ræðunni góðu um að svonefndur listi um „staðfastar þjóðir“ væri „einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás.“ Þetta henti varaformaður Framsóknar, Guðni Ágústsson á lofti og sagði við fréttamenn að Bandaríkjamenn ættu að biðja Íslendinga afsökunar á þessu athæfi. Fleiri hafa talað á þeim nótum að listinn sé verk Bandaríkjamanna og hafi ekkert með íslensk stjórnvöld að gera. Þetta er hlægilega heimskulegur málflutningur.

Listann yfir hinar staðföstu þjóðir má sjá á vef Hvíta hússins og einnig stuðningsyfirlýsingar umræddra þjóða. Þeirra á meðal má lesa eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu frá Davíð Oddssyni:

“The United States now considers its security to be gravely endangered by the actions and attacks of terrorists and because of various threats from countries governed by dictators and tyrants. It believes that support from this small country makes a difference... The declaration issued by the Icelandic Government on the Iraq dispute says that we intend to maintain the close cooperation we have had with our powerful ally in the West.

First of all, this involves flyover authorization for the Icelandic air control area. Secondly, the use of Keflavik Airport, if necessary. In third place, we will take part in the reconstruction of Iraq after the war ends. Fourthly, we expressed political support for Resolution 1441 being enforced after four months of delays."
-- Prime Minister Oddsson, March 18, 2003
Eins og sjá má er þarna heitið stuðningi Íslands sem m.a. felst í flugi inn í lofthelgi Íslands, heimild til afnota af Keflavíkurflugvelli, loforð um þátttöku í endurreisnarstarfi í Írak og loks pólitískum stuðningi við framkvæmd ályktunar Öryggisráðsins númer 1441, sem Bandaríkjamenn túlkuðu sem heimild til innrásar í Írak. Sú túlkun er afar umdeild eins og menn vita.

Það sjá auðvitað allir að það er ákvörðunin um stuðninginn sem skiptir máli. Samsetning listans er eingöngu skipulagsatriði til að halda utan um þjóðirnar 49 sem hétu stuðningi í einhverju formi. Að skamma Bandaríkjamenn fyrir listasmíð er að hengja bakara fyrir smið.

2006-11-26

Björn afbakar

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti ræðu á miðstjórnarfundi flokksins í dag og gerði m.a. að umtalsefni ákvarðanir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímsonar um stuðning Íslands við innrásina í Írak. „Þær byggðust á röngum upplýsingum. Forsendur voru rangar og ákvarðanaferlinu ábótavant. Þessar ákvarðanir voru því rangar eða mistök. Svonefndur listi um „staðfastar þjóðir" var einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar og hluti af þessari hörmulegu atburðarás," sagði Jón. Það er lofsvert af Jóni að tala hreint út um þetta og færi betur að Sjálfstæðisflokkurinn gerði það líka. Undirlægja Halldórs Ásgrímsonar, Valgerður Sverrisdóttir, sagði þó að hún hefði tekið sömu ákvarðanir ef hún hefði verið í sporum Halldórs. Í reynd er því kannski ekki alveg til staðar sú viðhorfsbreyting innan flokksins sem ræða formannsins gaf fyrirheit um.

Björn Bjarnason bloggar um þessi orð Jóns og er greinilega ekki á sömu buxum og formaður Framsóknarflokksins. Hann iðrast einskis og er forhertur sem fyrr, enda varla við öðru að búast. Hann er líka nýbúinn að lýsa því yfir að hann ætli sko ekki að mýkja ímynd sína og er staðfastur í þeirri fyrirætlan sinni. Björn segir m.a.:

„Ríkisstjórn Íslands eða einstakir ráðherrar innan hennar báru enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði verið gerð, hvað sem afstöðu íslenskra stjórnvalda leið. Það ber vott um yfirþyrmandi minnimáttarkennd eða ótrúlega mikilmennsku að telja sér trú um, að afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak.“
Hver hefur talið sér trú um að „ afstaða ríkisstjórnar Íslands hefði skipt einhverju um það, hvort ráðist yrði inn í Írak“? Getur Björn nefnt einhvern sem hefur gert það opinberlega? Þetta er auðvitað útúrsnúningur og bull. Gagnrýnt hefur verið að Ísland skyldi styðja innrásina og hvernig gengið var framhjá utanríkismálanefnd við þessa dæmalausu ákvarðanatöku. Engum hefur dottið í hug að afstaða Íslands hefði skipt neinu nema fyrir Íslendinga sjálfa. Hér er málflutningur gagnrýnenda þessarar afdrifaríku ákvörðunar afbakaður og affluttur að hætti Valhallarmanna. Er því eðlilegt að segja að í málflutningi Björns sé „valhallað“ réttu máli.

Hvernig stendur annars á því að ekki er boðið upp á að rita athugasemdir við málflutning Björns Bjarnasonar á bloggsíðu hans?  Þetta þykir sjálfsagður hlutur á bloggsíðum.  En kannski líkar honum eintalið best.


2006-09-24

Götustrákurinn með smjörklípuna

Þegar Eva María sneri aftur í Kastljósið eftir útivist í öðrum sóknum valdi hún Davíð Oddsson, af öllum mönnum, sem sinn fyrsta viðmælanda. Við skulum vona að það hafi ekki verið skipun að ofan.

Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta viðtal, enda var viðmælandinn innihaldsrýr eins og vænta mátti. Eitt vakti athygli mína í þessu viðtali. Davíð staðfesti rækilega það sem ég skrifaði hér í pistli fyrir nokkru. Hann útskýrði smjörklípuaðferðina. Var góður með sig og þóttist ofboðslega fyndinn og snjall.

Smjörklípuaðferðin er komin frá frænku Davíðs sem klíndi smjörklípu í feld kattar síns þegar hann var henni erfiður, eftir því sem Davíð sagði. Kötturinn varð þá að taka til við að þrífa feld sinn og fór ekki hamförum á meðan. Það væri, út af fyrir sig, fróðlegt að heyra álit Dýraverndunarfélags Íslands á þessu athæfi, sem ber ekki vott um mikla hjartagæsku. Efnislega sagðist Davíð hafa notað þessa aðferð þegar pólitískir andstæðingar sóttu að honum í erfiðum málum; hann reyndi að snúa athygli þeirra að öðru.

Þetta þekkja reyndar allir þeir sem eitthvað hafa fylgst með pólitík á liðnum árum og að því leyti eru þetta ekki ný tíðindi; það sem er nýtt er að Davíð viðurkennir þetta opinberlega. Davíð er ekki tækur í málefnalega umræðu og hefur aldrei verið, enda mætti hann bara í drottningarviðtöl þegar hann var forsætisráðherra. Hann er auðvitað alltaf sami götustrákurinn sem kýs frekar að segja aulabrandara og sprengja fýlusprengjur en að tala málefnalega um erfið mál. Hans stærsta fýlusprengja var náttúrulega stóra bolludagsbomban, en þær voru margar fleiri. Vafalaust tekur einhvern tíma að hreinsa skítalyktina eftir Davíð úr íslenskri pólitík.

Hitt er svo annað mál að öfugt við frænkuna þá tókst Davíð sjaldnast ætlunarverk sitt, þó hann kunni að halda annað. Hin mannlegu viðbrögð við smjörklípuaðferðinni reyndust vera önnur en hjá ketti frænkunnar. Þegar Davíð hafði sitt fram var það með afli meirihlutans, en ekki smjörklípuaðferðinni.

 

2006-05-24

Bleiki pardusinn

Allt er nú sem orðið nýtt
ærnar, kýr og smalinn.

Svo kvað Jónas.
Ekki fer hjá því að þessar kunnuglegu ljóðlínur þjóti um hugann núna á kosningavori þegar Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík skartar bleiku og dregur yfir sig félagshyggjufeld. Það virðist gefast honum vel. En ef menn eru ekki grunnhyggnir, þá sjá þeir í gegnum blekkinguna þó að villti tryllti Villi virðist busy – eða þannig:

Varla festir Villi blund
í vorsins lofti tæru.
Um Vonarstæti og Veltusund
vappar í sauðargæru.

2006-05-19

Ekki treysta Framsókn!

Fyrir síðustu alþingiskosningar lofaði Framsókn ungu fólki 90% húsnæðislánum. Fagmenn á markaði vöruðu við þessu, en Framsókn lét sér ekki segjast og vonarstjarna þeirra, Árni Magnússon, lét til skarar skríða eftir kosningar. Þetta athæfi átti að höfða til ungs fólks — kaupa atkvæði þeirra. Það er skemmst frá því að segja að þetta skítatrix virkaði svo vel að Árni Magg rétt marði þingsetu og hófst handa við að framkvæma.

Í dag eru vextir af húsnæðislánum 4,9%. Við þá má bæta verðbólgunni og samanlagt verða til hærri raunvextir en giltu áður en Framsókn hjólaði í atkvæðakaupin og óreyndir létu glepjast. Aldrei hefur verið erfiðara fyrir ungt fólk að eignast húsnæði og margir hafa orðið illa úti í þessari harðvítugu baráttu. Hliðaráhrifin af ruglinu eru þau að þensla hefur aukist verulega og var þó varla á bætandi með stórvirkjana- og álverssyndrómi Framsóknarlúðanna. Samanlagt hefur þessi della valdið Íslendingum stórum vandræðum og seilst djúpt í pyngjur almennings.

Þegar þetta er nefnt er ekki verið að tíunda gripdeildir Framsóknarflokksins í einkavæðingunni. Gleymið ekki glottinu á Finni Ingólfssyni, sem er púkinn sem hefur aldeilis fitnað á fjósbita Framsóknar. Gleymið heldur ekki arfinum hans Halldórs. Hvar í veröldinni hefði það verið látið viðgangast átölulaust að stjórnmálamaður hafi komið upp kerfi sem gerði hann og ættmenni hans filhty rich?

Lærið af þessu, landar góðir, og látið ekki Framsókn glepja ykkur. Í komandi sveitarstjórnarkosningum er ykkur boðið upp á mann sem er huggulegri en Finnur Ingólfsson og Halldór Ásgrímsson samanlagt. Ekki láta glepjast. Hann er ekkert betri en þeir, þrátt fyrir smælið og huggulegheitin. Maðurinn sem borgar (með einum eða öðrum hætti) er Finnur Ingólfsson. Núna gefst sögulegt tækifæri til að leggja Framsókn niður og moka flórinn, sem er eina rökrétta niðurstaðan. Framhaldið er svo auðvitað að kasta rekunum á hræið í næstu alþingiskosningum og jarða þar með mestu tímaskekkju Íslandssögunnar.

Eftir að kúrsinn hefur verið leiðréttur með þessum hætti er hægt að halda áfram til framtíðar.

2006-01-12

Harðsnúin hræsni

Þriðjudaginn 10. janúar 2006 birti DV forsíðufrétt um meint kynferðisbrot Gísla Hjartarsonar fyrrverandi grunnskólakennara á Ísafirði gegn tveimur drengjum sem hann hafði tekið í stuðningskennslu. Fréttinni fylgdi stór mynd af Gísla sem var birt bæði á forsíðu blaðsins og inni í blaðinu. Daginn eftir svipti Gísli sig lífi og sagði í bréfi sem hann skildi eftir sig að ásakanirnar væru ósannar og að hann hefði ekki treyst sér til að horfast í augu við afleiðingar fréttaflutnings DV.

Fréttin um andlát Gísla barst eins og eldur í sinu um allt þjóðfélagið og viðbrögð almennings voru á eina lund. Hvarvetna var fréttaflutningur og ritstjórnarstefna DV harðlega fordæmd. Hafin var undirskriftasöfnun á vefsíðu Deiglunnar að frumkvæði ungliðasamtaka allra stjórnmálaflokka og stúdenta við Háskóla Íslands auk annarra aðila. Seinni part dagsins höfðu ríflega þrettán þúsund manns skráð sig og þá brast vefurinn. Upp úr klukkan eitt eftir miðnætti var talan komin upp í tuttugu þúsund. Þegar hæst hóaði skráði sig einn einstaklingur á hverri sekúndu. Í Kastljósi í gærkvöldi var farið ítarlega yfir málið og rætt við fjölmarga aðila, fólk á förnum vegi, dómkirkjuprest, þingmenn, blaðamenn og báða ritstjóra DV. Að ritstjórunum frátöldum sýndu allir aðilar sterk viðbrögð gegn umræddum fréttaflutningi DV.

Hvers vegna þessi sterku viðbrögð? Það er yfirlýst ritstjórnarstefna DV að birta nöfn og myndir af fólki sem blaðið fjallar um án tillits til niðurstaðna rannsókna eða dóma. Í því efni telja ritstjórar blaðsins sig vera að þjóna sannleikanum og að sú þjónkun leyfi enga tillitssemi í umfjöllun. Þetta kom skýrt fram í máli Jónasar Kristjánssonar í áðurnefndum Kastljósþætti. Blaðið fylgir eigin siðareglum sem annar ritstjóri þess hefur samið og stangast þær að einhverju leyti á við siðareglur Blaðamannafélags Íslands, þó að blaðamenn DV séu þar félagar. DV hefur birt hverja fréttina á fætur annarri sem fjallar um fólk sem er nafngreint og birtar af því myndir án þess að rannsókn mála sé lokið eða dómur fallinn. Þannig hafa margir verið meiddir og margir hafa lýst þessum fréttaflutningi sem röngum, fullum af meinfýsni eða í besta falli ónákvæmum og villandi. Fréttin um Gísla Hjartarson virðist hafa verið dropinn sem fyllti mælinn, hugsanlega vegna þeirra afleiðinga sem birting hennar hafði.

Þegar spurt er um ábyrgð hafa flestir bent á ritstjóra, eigendur og jafnvel kaupendur DV. Undir þetta má taka, en þó sýnist mér hlutur ritstjóranna vega þyngst, enda er þeim beinlínis borgað fyrir að bera ritstjórnarlega ábyrgð og málið snýst um ritstjórnarstefnu sem byggir á siðareglum sem annar þeirra, Jónas Kristjánsson, hefur samið sérstaklega fyrir blaðið. Sú staðreynd gerir ábyrgð hans í raun mesta; hinn ritstjórinn er kornungur maður sem virðist reyndar sérstakur áhugamaður um sora og lágkúru og fylgir ákafur línu sem hinn reynslumeiri Jónas hefur lagt. Í Kastljósviðtalinu við Mikael Torfason bergmálaði hann það sem Jónas hafði sagt í spjalli í sama þætti. Og hvað sagði Jónas? Hnípinn og hærugrár barðist hann við að snúa út úr spurningum sem fyrir hann voru lagðar og hanga í því hálmstrái að hann væri að þjóna sannleikanum og það væri góð blaðamennska. Einhverju sinni muldraði hann að allir þeir sem höfðu skrifað undir áðurnefnda áskorun hefðu „einkennilegar skoðanir“. Þúsundir manna hafa „einkennilegar skoðanir“ á þessu máli — en ekki Jónas Kristjánsson! Þetta var átakanlegt dæmi um sjálfumgleði, siðblinda þráhyggju og harðsnúna hræsni.

Auðvitað er DV ákveðin viðskiptahugmynd; að gefa út blað með ákveðnum áherslum sem höfða til persónuáhuga fólks og lægri hvata. Jónas vill svo göfga þessa hugmynd með reglum sem hann segist hafa smíðað að fyrirmynd erlendra sorprita, eins og það sé trygging fyrir einhverjum gæðum. Þetta er hin harðsnúna hræsni.

Fréttin um Gísla Hjartarson getur ekki talist góð blaðamennska frá neinum sjónarhóli, ef frá er talinn siðblindur sjálfbirgingsháttur ritstjóranna. Í fréttinni er talað um að atburðir muni hafa gerst á heimili Gísla og að „sögusagnir af kynferðislegu ofbeldi hans gegn unglingspiltum [hafi] gengið á Ísafirði lengi án þess að nokkuð hafi verið að gert.“ Auk þess er mikið gert úr því að Gísli hafi verið einhentur, eins og það komi málinu sérstaklega við. Í fréttinni segir orðrétt: „Lögreglan á Ísafirði vildi hvorki játa né neita því að mál Gísla Hjartarsonar væri til rannsóknar.“ Samt er síðar fullyrt að rannsókn í málinu sé komin á „fullt skrið.“ Ef þetta er góð blaðamennska, hvernig er þá vond blaðamennska? Auk þess er framsetning fréttarinnar með stóruppslætti á forsíðu ekki í neinu eðlilegu samræmi við efni máls sem er órannsakað, ósannað og ódæmt. Með þessari framsetningu er verið að fella harðan dóm — þrátt fyrir að Jónas hafi ekki þóst vera að fella dóma í Kastljósinu í gærkvöldi. Sú fullyrðing er hins vegar, eins og annar málflutningur hans þar, vitnisburður um siðblindu og hræsni hans sjálfs.

Hvað hefði orðið upp á teningnum ef mál Gísla hefði verið rannsakað til hlítar og niðurstaðan sú að hann væri saklaus? Þá hefði staðið eftir þessi makalausa frétt DV með nafni og myndbirtingu. Það getur verið erfitt fyrir mann að snúa sig út úr slíkri stöðu. Og hvað þá með sannleikann? Myndi Jónas Kristjánsson og DV slá því upp með viðlíka hætti að maðurinn hafi verið saklaus og fréttaflutningurinn ótímabær og tilhæfulaus? Það væri þá sannleikurinn í málinu — yrði hann látinn kyrr liggja? Samkvæmt siðareglunum snilldarlegu gæti það ekki gengið upp.

Engum heilvita manni dettur í hug að Jónas Kristjánsson eða DV séu handhafar sannleikans í þessu órannsakaða máli eða í öðrum málum sem DV hefur slegið upp með viðlíka hætti. Því fer víðsfjarri. Þeir eru heldur engir sérstakir talsmenn meintra þolenda, þeir eru fyrst og síðast að selja blaðið sitt með þessum ófyrirleitna hætti. Sannleikurinn getur verið snúinn og erfiður viðfangs. Að byggja siðareglur og ritstjórnarstefnu á að þykjast vera handhafi sannleikans er rugl. Enginn hefur bréf upp á algildan sannleika eða er þess umkominn að tala einn í nafni hans.

Einhvern tímann var sagt að ástæða væri til að óttast Grikkina þegar þeir kæmu gjöfum hlaðnir. Þegar menn eins og Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason mæta með sannleikann upp á vasann er sannarlega ástæða til að hafa varann á.